Foreldrar og börn. Afskipti barnaverndarnefndar.

(Mál nr. 400/1991)

Máli lokið með bréfi, dags. 19. mars 1991.

A kvartaði yfir afskiptum Félagsmálastofnunar X-bæjar af heimili sínu. Eftir að hafa athugað gögn málsins tjáði ég A, að ég teldi, að á sínum tíma hefði verið ástæða til þess að barnaverndaryfirvöld fylgdust með högum sonar hans. Í bréfi mínu til A, dags. 19. mars 1991, sagði ennfremur:

"Með hliðsjón af því tel ég mig heldur ekki geta gagnrýnt barnaverndaryfirvöld fyrir að vilja fylgjast áfram með aðbúnaði drengsins eftir að samkomulag varð milli yðar og móður hans um breytta forsjá hans. Ég álít að það þurfi ekki að hafa í för með sér óhæfilega röskun á einkalífi yðar, þótt barnaverndaryfirvöldum sé gefinn kostur á að ganga úr skugga um hagi drengsins."

Varð niðurstaða mín sú, að ekki væri ástæða til frekari afskipta af máli A á þessu stigi.