Foreldrar og börn. Eftirlit barnaverndaryfirvalda. Aðgangur aðila að gögnum máls.

(Mál nr. 388/1991)

Máli lokið með bréfi, dags. 3. apríl 1991.

A kvartaði í fyrsta lagi yfir afskiptum barnaverndaryfirvalda af sér og dóttur sinni. Í öðru lagi kvartaði A yfir því, að hann hefði ekki fengið að kynna sér gögn málsins. Í bréfi mínu til A, dags. 3. apríl 1991, sagði m.a. svo:

"Ekki verður séð, að þér hafið leitað eftir því við barnaverndaryfirvöld í Reykjavík að þau tækju ákvörðun um heimild yðar til að kynna yður gögn umrædds máls. Slíkri ákvörðun og ákvörðun sömu aðila um afskipti af högum og aðbúnaði dóttur yðar hefði mátt skjóta til Barnaverndarráðs Íslands og fá úrskurð þess. Af þessum sökum get ég ekki haft frekari afskipti af máli yðar, þar sem ekki er unnt að kvarta til umboðsmanns Alþingis, fyrr en æðra stjórnvald hefur fellt úrskurð sinn í máli, ef því má skjóta til æðra stjórnvalds, sbr. 3. mgr. 6. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis. Ég tek einnig fram, að samkvæmt lögum nr. 53/1966 um vernd barna og ungmenna ber barnaverndaryfirvöldum að fylgjast með heimilishögum og aðbúnaði barna. Ég skil vel, að þær ásakanir, sem á yður voru bornar, hafi vakið reiði yðar. Þær ásakanir eru ekki frá barnaverndaryfirvöldum komnar og samkvæmt lögum bar þeim að kanna, hvort þær ættu við rök að styðjast. Athugun mín á gögnum málsins hefur ekki leitt í ljós, að rök séu til að gagnrýna afskipti barnaverndaryfirvalda í málinu."

Ég tilkynnti því A að niðurstaða mín samkvæmt framansögðu væri sú, að ekki væri ástæða til frekari afskipta minna af málinu.