Hlutafélög. Beiting þvingunarúrræða samkvæmt 150. gr. hlutafélagalaga. Eftirlit með hlutafélögum.

(Mál nr. 367/1990)

Máli lokið með bréfi, dags. 8. febrúar 1991.

A leitaði til mín vegna þeirrar ákvörðunar viðskiptaráðuneytisins, að synja beiðni hans um beitingu þvingunarúrræða samkvæmt 150. gr. laga nr. 32/1978 um hlutafélög. Tilefni beiðni A var sú ákvörðun framhaldsaðalfundar í X h.f., að miða arðsúthlutun af inngreiddu hlutafé á árinu 1989 við tiltekna innborgunardaga. Kvörtun A varðaði bæði umrædda arðsúthlutun og synjun viðskiptaráðuneytisins á beitingu þvingunarúrræða samkvæmt 150. gr. laga nr. 32/1978 um hlutafélög. Í bréfi mínu til A, dags. 8. febrúar 1991, tók ég fram, að fyrra atriðið, er varðaði ákvörðun hlutafélags, félli utan starfssviðs míns samkvæmt 2. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis. Varðandi synjun viðskiptaráðuneytisins um beitingu þvingunarúrræða sagði svo í bréfi mínu:

"Umrædd 150. gr. laga nr. 32/1978 er svohljóðandi:

"Nú vanrækja stofnendur, stjórnendur, framkvæmdastjóri, endurskoðendur, skilanefndarmenn eða útibússtjóri erlends hlutafélags skyldur sínar samkvæmt lögum þessum, félagssamþykktum eða ályktunum hluthafafundar og getur ráðherra boðið þeim, að viðlagðri ákveðinni dagsekt eða vikusekt, að inna skylduverk af hendi. Bera má lögmæti úrskurðar undir dómstóla innan eins mánaðar frá birtingu hans."

Framangreint ákvæði, sem aðeins felur í sér heimild fyrir ráðherra, á fyrst og fremst við, þegar um er að ræða hreina vanrækslu nefndra aðila á því að hlýða fyrirmælum, hvort sem þau koma fram í lögum, félagssamþykktum eða einstökum ákvörðunum hluthafafundar. Ákvæðið veitir að mínum dómi naumast heimild til að knýja fram breytingar á ákvörðunum, sem þegar hafa verið teknar í hlutafélagi, enda getur slíkt leitt til óeðlilegra afskipta stjórnvalda af málefnum hlutafélaga."

Taldi ég, að samkvæmt framansögðu hefði A ekki verið beittur órétti með ákvörðun viðskiptaráðuneytisins umrætt sinn.