Námslán og námsstyrkir. Réttur lækna í framhaldsnámi til lána.

(Mál nr. 574/1992)

Máli lokið með bréfi, dags. 23. október 1992.

Hinn 24. febrúar 1992 leitaði X til mín fyrir hönd félagsins A og kvartaði aðallega yfir því, að með bréfi, dags. 15. ágúst 1991, hefði stjórn Lánasjóðs íslenskra námsmanna talið eðlilegt að túlka úthlutunarreglur svo sem gert var með bréfi til A, dags. 15. júní 1989. A taldi, að í umræddu bréfi kæmi fram, að lánasjóðurinn viðurkenndi ekki sérfræðinám lækna sem lánshæft nám.

Í fundargerð 856. fundar stjórnar lánasjóðsins, sem haldinn var 8. ágúst 1991, var eftirfarandi fært til bókar um lán til lækna í framhaldsnámi:

"3. Önnur mál.

3.1. Sérnám lækna.

Formaður kynnti þá ætlun ríkisstjórnarfulltrúanna að fella úr gildi túlkun fyrri sjóðsstjórnar og telja sérnám lækna að nýju ólánshæft og tilkynna [félaginu A] þá niðurstöðu."

Eftir að hafa átt fund m.a. með stjórnarformanni og framkvæmdastjóra Lánasjóðs íslenskra námsmanna, ritaði ég X, formanni félagsins A, bréf, dags. 23. október 1992, og sagði þar m.a. svo:

"Með tilvísun til kvörtunar þeirrar, sem þér hafið borið fram f.h. félagsins [A], skal upplýst, að ég hef átt viðræður við fyrirsvarsmenn Lánasjóðs íslenskra námsmanna að undanförnu. Á fundi með þeim 27. ágúst s.l. kom fram sú afstaða stjórnar lánasjóðsins, að fjallað yrði sérstaklega um hverja lánsumsókn, sem bærist frá læknum í framhaldsnámi, og leyst úr því, hvort um framhaldsnám væri að ræða, er veitti rétt til láns samkvæmt lögum nr. 21/1992 um Lánasjóðs íslenskra námsmanna. Við þessa úrlausn yrði ekki fortakslaust látið ráða úrslitum, hvaða tekjur umsækjandi fengi, heldur yrði þar litið til annarra atriða, svo sem tilhögunar og eðlis starfs, meðal annars með hliðsjón af þeim samningum, sem um það giltu, og þá sérstaklega til tilhögunar á fræðslu, eftirlits með árangri og prófgráðu, sem að væri stefnt. Loks kom fram, að tekjur námsmanna kæmu til frádráttar námsláni í samræmi við almennar reglur sjóðsins.

Með bréfi, dags. 17. september 1992, óskaði ég staðfestingar stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna á því, hvort ofangreindur skilningur minn á afstöðu stjórnar sjóðsins væri réttur. Með bréfi, dags. 9. október 1992, staðfesti stjórn sjóðsins að svo væri."

Með hliðsjón af þessari niðurstöðu, taldi ég ekki tilefni til þess að ég fjallaði frekar um kvörtun félagsins A, sbr. a-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis. Hins vegar benti ég fyrirsvarsmönnum félagsins A á það, að úrlausnir stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna í einstökum málum mætti bera undir umboðsmann Alþingis í samræmi við almennar reglur um embætti hans.