Skattar og gjöld. Aðgangur að gögnum um samkeppnisaðila. Þagnarskylda opinberra starfsmanna. Sérstakt hæfi starfsmanna rannsóknardeildar ríkisskattstjóra.

(Mál nr. 698/1992)

Máli lokið með bréfi, dags. 29. október 1992.
A, sem rak útfararþjónustu, kvartaði yfir því að X, núverandi formaður og fyrrverandi varaformaður stjórnar Kirkjugarða Reykjavíkur, sem jafnframt væri starfsmaður í rannsóknardeild ríkisskattstjóra, hefði haft aðgang að bókhaldi A hjá ríkisskattstjóra. Fram kom í kvörtun A, að hinn 14. janúar og 11. febrúar 1991 svo og 11. október 1992 hefði rannsóknardeild ríkisskattstjóra verið afhent bókhald fyrirtækis A. Kom fram hjá A, að Kirkjugarðar Reykjavíkur rækju líkkistuverkstæði og útfararþjónustu.

Í bréfi mínu til A, dags. 29. október 1992, sagði m.a. svo:

"Samkvæmt 103. gr. laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt má maður ekki taka þátt í rannsókn eða annarri meðferð máls, hvorki skattákvörðun né kæru, ef honum ber að víkja sæti sem héraðsdómari í málinu. Samkvæmt g-lið 5. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála ber héraðsdómara að víkja sæti, ef fyrir hendi eru þau atvik eða aðstæður, sem til þess eru fallnar að draga óhlutdrægni hans með réttu í efa. Þar sem [X] er stjórnarformaður stofnunar, sem er helsti keppinautur yðar á því sviði, sem fyrirtæki yðar starfar á, er hann vanhæfur til að fjalla um mál fyrirtækis yðar í starfi sínu hjá ríkisskattstjóra skv. g-lið 5. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 103. gr. laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt. Er [X] því óheimilt að rannsaka og fara með mál, er varða nefnt fyrirtæki yðar, auk þess sem óheimilt er að veita honum aðgang að gögnum fyrirtækisins, m.a. vegna þeirrar grundvallarreglu stjórnsýsluréttarins, að opinber starfsmaður megi ekki í skjóli starfa síns afla sér trúnaðarupplýsinga, er ekki hafi þýðingu fyrir verkefni, sem honum eru falin í starfi.

Í bréfi skattrannsóknarstjóra, dags. 21. október 1992, til yðar segir m.a. svo:

"Undirritaður hefur áður ítrekað við yður að [X], starfsmaður rannsóknardeildar ríkisskattstjóra, hefur engin afskipti haft af skoðun rannsóknardeildar á bókhaldi og skattskilum yðar. Er þá m.a. átt við undanfara athugunar, vali verkefna og síðan úrvinnslu gagna....

Þá er einnig ástæða til að taka fram að [X] eða aðrir starfsmenn rannsóknardeildar hafa engan aðgang að bókhaldi yðar á starfsstöð minni, ef frá eru taldir þeir starfsmenn sem að athugun á skattskilum yðar hafa unnið og [X] er ekki í þeim hópi eins og áður hefur komið fram."

Ég tjáði því A, að ekki yrði annað séð af umræddu svari en að ákvæðum 103. gr. laga nr. 75/1981 hefði verið fylgt. Enga vísbendingu væri heldur að finna í gögnum máls um annað en svo hefði verið. Af þessum sökum teldi ég ekki ástæðu til athugasemda af minni hálfu við rannsókn rannsóknardeildar ríkisskattstjóra á máli þessu og væri afskiptum mínum af málinu því lokið.