Skattar og gjöld. Álagning og innheimta gatnagerðargjalda. Kæruheimild.

(Mál nr. 512/1991)

Máli lokið með bréfi, dags. 9. júní 1992.

A kvartaði yfir gatnagerð og innheimtu gatnagerðargjalda af húseign sinni við X-götu á Y. Í bréfi mínu til A 9. júní 1992 tók ég fram, að ég liti svo á, að kvörtun hans lyti að álagningu svonefndra A- og B-gatnagerðargjalda, sbr. 2. gr. reglugerðar nr. 483/1981 um gatnagerðargjöld á Y, en A hélt því fram, að tekið hefði átta ár að ljúka endurbyggingu götunnar og af þeim ástæðum hafi m.a. verið óréttmætt, að heimta af honum álagt B-gatnagerðargjald vegna framkvæmda við lagningu bundins slitlags og lagningar gangstétta. Einnig laut kvörtun A að frágangi við X-götu við lóð A, en A taldi, að hæð götunnar hefði reynst hærri en gert hafði verið ráð fyrir.

Vegna bréfaskipta A við félagsmálaráðuneytið, ákvað ég, sbr. 7. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis, að fá upplýsingar hjá ráðuneytinu um það, hvort það hefði með bréfi sínu til A 26. september 1991 fellt úrskurð sinn sem æðra stjórnvalds um lögmæti álagningarinnar og heimtu gatnagerðargjaldanna. Í svarbréfi félagsmálaráðuneytisins frá 2. desember 1991 kom m.a. fram:

"Ráðuneytið lítur svo á að, í ágreiningsmáli [A] og hreppsnefndar [Y] um gatnagerðargjöld, hafi ekki verið kveðinn upp formlegur úrskurður af þess hálfu. Heldur sé, í bréfi ráðuneytisins til [A], dagsettu 26. september 1991 og vitnað er til í framangreindu bréfi yðar, einungis um að ræða lögfræðilegt álit þess á því, hvernig það telur að skýra beri tiltekin ákvæði í reglugerð um gatnagerðargjöld á [Y], sbr. lög um gatnagerðargjöld nr. 51/1974.

Þessi afstaða ráðuneytisins byggist á því að í framangreindum lögum nr. 51/1974 er ekki að finna sérstaka heimild til handa ráðuneytinu til að kveða upp úrskurð í málum, sem þessum, enda lítur ráðuneytið svo á að fjárskipti milli aðila, þ.e. einstaklinga og sveitarstjórna vegna álagningar og heimtu gatnagerðargjalda, lúti lögsögu dómstóla, sbr. t.d. hæstaréttardóma 1982: 593 og 1987: 462."

Í bréfi mínu til A 9. júní 1992 tók ég eftirfarandi fram um álagningu og innheimtu svonefnds A-gatnagerðargjalds:

"Í 1. gr. laga nr. 51/1974 um gatnagerðargjöld er tekið fram, að sveitarstjórn sé heimilt að ákveða með sérstakri samþykkt, sem félagsmálaráðherra staðfestir, að innheimt skuli gatnagerðargjald af hverri lóð, áður en byggingarleyfi er veitt. Er ennfremur tekið fram, að heimilt sé að krefjast gatnagerðargjalds, ef reist er nýtt hús á lóð, sem áður var byggð. Hinn 20. júlí 1981 var staðfest reglugerð nr. 483 um gatnagerðargjöld á [Y]. Gjald það, sem rætt er um í 1. gr. laga nr. 51/1974, nefnist samkvæmt 2. gr. reglugerðarinnar A-gjald og er vegna þátttöku lóðarhafa í kostnaði við að "gera undirbyggða götu". Samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 51/1974 er nefnt A-gjald gjaldkræft, þegar sveitarstjórn krefst, eftir því sem nánar er ákveðið í samþykkt. Í 6. gr. reglugerðar nr. 483/1981 er tekið fram, að helming A-gjaldsins skuli greiða innan mánaðar frá lóðarveitingu og eftirstöðvar þegar byggingarleyfi er veitt.

Í máli yðar liggur fyrir, að þér fenguð umrædda lóð 17. desember 1981. Byggingarleyfi var gefið út 3. mars 1982 og greidduð þér þá helming nefnds A-gjalds í samræmi við áðurgreind fyrirmæli reglugerðar nr. 483/1981. Framkvæmdum við undirbyggingu götunnar mun hafa lokið haustið 1990. Þegar litið er til þess, sem hér hefur verið rakið, verður að telja, að innheimta umrædds A-gatnagerðargjalds hafi verið í samræmi við lög. Gefur þessi liður kvörtunar yðar ekki tilefni til frekari athugasemda af minni hálfu."

Um álagningu B-gatnagerðargjaldsins sagði í bréfi mínu til A:

"Samkvæmt 3. gr. laga nr. 51/1974 er sveitarstjórnum heimilt með sama hætti og greinir hér að framan að innheimta sérstakt gjald, er verja skuli til framkvæmda við að setja bundið slitlag á götur í sveitarfélaginu og til lagningar gangstétta. Nefnist gjald þetta B-gatnagerðargjald, sbr. 2. gr. reglugerðar nr. 483/1981.

Í lögum nr. 51/1974 er ekki að finna fyrirmæli um það, að sveitarstjórn skuli við álagningu B-gatnagerðargjalds taka mið af þeim tíma, sem liðinn er frá greiðslu A-gatnagerðargjalds eða frá því að undirbyggingu götu var lokið. Þá útiloka lög nr. 51/1974 ekki, að sami aðili geti þurft að greiða bæði A- og B-gatnagerðargjald að fullnægðum lagaskilyrðum þar að lútandi. Af þessum sökum tel ég ekki vera tilefni til þess, að ég fjalli frekar um þær athugasemdir, er þér hafið gert út af umræddu B-gatnagerðargjaldi."

Að því er varðaði þann þátt kvörtunar A, er laut að frágangi X-götu, sagði í bréfi mínu til A, að samkvæmt 3. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis fjallaði umboðsmaður því aðeins um stjórnsýslu sveitarfélaga, að um væri að ræða ákvarðanir, sem skjóta mætti til ráðherra eða annars stjórnvalds ríkisins. Tók ég fram, að það væri skoðun mín, að þessi þáttur í kvörtun A fullnægði ekki nefndu skilyrði 3. gr. laga nr. 13/1987 og gæti ég því ekki fjallað frekar um hann. Ég lagði áherslu á, að með framangreindu hefði ég ekki tekið neina afstöðu til hugsanlegrar fébótaábyrgðar hreppsnefndar Y í tilefni af nefndri gatnagerð.

Í niðurlagi bréfs míns til A greindi ég honum frá þeirri niðurstöðu minni, að kvörtun hans gæfi ekki tilefni til frekari athugasemda af minni hálfu. Í bréfi mínu lagði ég ennfremur áherslu á, að umfjöllun mín hefði einungis beinst að þeim atriðum, sem beinlínis yrði ráðið, að kvörtun hans lyti að. Til frekari upplýsingar lét ég fylgja bréfi mínu álit mitt frá 30. mars 1992 í máli nr. 78/1989, er snertir álagningu B-gatnagerðargjalds í tilteknum kaupstað hér á landi.