Skattar og gjöld. Rökstuðningur úrskurðar ríkisskattanefndar.

(Mál nr. 582/1992)

Máli lokið með bréfi, dags. 27. ágúst 1992.

Hinn 16. mars 1992 lagði A fram kvörtun yfir því, að með úrskurði ríkisskattanefndar nr. 697/1991, sem kveðinn var upp í máli hans 31. júlí 1991, hefði sér verið synjað um sjómannaafslátt.

Um úrskurð skattstjóra sagði svo í úrskurði ríkisskattanefndar:

"Af hálfu skattstjóra var kröfu kæranda um sjómannaafslátt hafnað með kæruúrskurði, dags. 8. desember 1989, á þeim forsendum að talið væri að þangskurður félli ekki undir sjómannsstörf."

Rökstuðningur úrskurðar ríkisskattanefndar í máli A hljóðaði svo:

"Úrskurð skattstjóra þykir bera að staðfesta með vísan til forsendna hans."

Eftir að hafa rætt við formann yfirskattanefndar, ritaði ég A bréf, dags. 27. ágúst 1992, og sagði þar m.a. svo:

"Með tilvísun til kvörtunar þeirrar, sem þér hafið borið fram, skal upplýst, að 25. ágúst s.l. átti ég viðræður við [B], formann yfirskattanefndar. Féllst hann á, að mál yðar yrði tekið upp til nýrrar meðferðar af yfirskattanefnd, sbr. lög nr. 30/1992, kæmi fram beiðni þar að lútandi frá yður."

Með hliðsjón af þessari niðurstöðu, taldi ég ekki tilefni til þess að ég fjallaði frekar um kvörtun A, sbr. a-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis.