Atvinnuréttindi. Skilyrði fyrir löggildingu til rafvirkjunarstarfa. Lagaheimild reglugerðar.

(Mál nr. 569/1992)

Máli lokið með bréfi, dags. 30. mars 1992.

A kvartaði yfir því, að iðnaðarráðuneytið hefði með bréfi, dags. 4. febrúar 1992, synjað umsókn hans um löggildingu til rafverktakastarfsemi. Áður hafði Rafmagnseftirlit ríkisins synjað umsókn A, þar sem hann fullnægði ekki skilyrðum til B-löggildingar um starfsreynslu og bóklegt nám að sveinsprófi loknu samkvæmt gr. 1.5.4. í reglugerð nr. 264/1971 um raforkuvirki. Í synjun iðnaðarráðuneytisins frá 4. febrúar 1992 kom fram sú afstaða ráðuneytisins, að A hefði ekki fullnægt skilyrðum 1. og 2. tölul. ákvæðis 1.5.4. í reglugerð nr. 264/1971. Í synjun iðnaðarráðuneytisins kom ennfremur fram:

"Reglugerð sú er um ræðir er sett með stoð í l. nr. 60/1979 um Rafmagnseftirlit ríkisins, sem eru sérlög á því sviði er hér um ræðir. Iðnaðarlög nr. 42/1978 eru almenn lög um iðnaðarrekstur í atvinnuskyni. Telja verður því að ákvæði í lögum nr. 60/1979 ásamt reglugerðarákvæðum gangi framar hinum almennu ákvæðum l. nr. 42/1978. Beiðni yðar um að yður verði veitt umrædd löggilding er því hafnað."

A hélt því fram í kvörtun sinni, að umrætt reglugerðarákvæði hefði ekki stoð í lögum nr. 60/1979 um Rafmagnseftirlit ríkisins, þar sem skýra bæri fyrirmæli 7. gr. laganna með hliðsjón af fyrirmælum iðnaðarlaga nr. 42/1978. Taldi A, að hann hefði þegar öðlast meistarabréf með tilteknum atvinnuréttindum á grundvelli iðnaðarlaga og þar með ætti hann rétt til umræddrar löggildingar, sem ekki yrði breytt með nefndu reglugerðarákvæði.

Í bréfi mínu til A, dags. 30. mars 1992, sagði m.a. svo:

"Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 60/1979 um Rafmagnseftirlit ríkisins er eftirlit af hálfu ríkisins með vörnum gegn hættu og tjóni af raforkuvirkjum í höndum Rafmagnseftirlits ríkisins. Í 1. mgr. 7. gr. laganna er tekið fram, að ráðherra setji "...í reglugerð um raforkuvirki ákvæði til varnar gegn hættu og tjóni af þeim og til varnar gegn truflunum á starfrækslu virkja, sem fyrir eru eða síðar kunna að koma". Samkvæmt f-lið 2. mgr. 7. gr. sömu laga skal iðnaðarráðherra setja í reglugerð ákvæði um "löggildingu til rafvirkjunarstarfa og um menntun og hæfni eftirlitsmanna með raforkuvirkjum". Samhljóða ákvæði var áður í 41. gr. orkulaga nr. 58/1967, er komu í stað e-liðar 40. gr. raforkulaga nr. 12/1946, en þar skyldi ráðherra setja í reglugerð ákvæði um "löggildingu á hæfum rafvirkjum". Ákvæði þessa efnis munu fyrst hafa verið sett með lögum nr. 7/1926 um raforkuvirki, þar sem ráðherra skyldi setja í reglugerð ákvæði um "löggildingu á hæfum raforkuvirkjurum".

Lög nr. 60/1979 um Rafmagnseftirlit ríkisins eru sett síðar en iðnaðarlög nr. 42/1978. Lög nr. 60/1979 og eldri lög um sama efni geyma sérstök ákvæði um heimild ráðherra til að setja í reglugerð ákvæði um löggildingu til rafvirkjunarstarfa. Telja verður því, að nægileg heimild sé í lögum fyrir ráðherra til að setja sérstök skilyrði fyrir slíkri löggildingu, svo sem gert hefur verið með ákvæði í 1.5.4. í reglugerð nr. 264/1971. Tel ég því ekki ástæðu til athugasemda við þá niðurstöðu iðnaðarráðuneytisins, sem kvörtun yðar lýtur að."