Stjórnun fiskveiða. Réttur til aflahlutdeildar á grundvelli eigin veiðireynslu.

(Mál nr. 504/1991 og 523/1991)

Máli lokið með bréfi, dags. 6. febrúar 1992.

Í skýrslu minni fyrir árið 1991 fjallaði ég á bls. 144-145 um mál tveggja einstaklinga, mál nr. 375/1990 og 391/1991, er báru fram kvörtun út af synjun sjávarútvegsráðuneytisins um að taka tillit til einstaklingsbundinnar aflareynslu þeirra árin 1985-1987 við úthlutun aflaheimilda fyrir árið 1990. Í lok umfjöllunar minnar um kvartanirnar tók ég fram, að sjávarútvegsráðuneytið hefði komist að þeirri niðurstöðu, að A og B hefðu ekki átt rétt til þess að nýta sér einstaklingsbundna veiðireynslu sína á árunum 1985-1987 og að fenginni niðurstöðu sjávarútvegsráðuneytisins hefðu A og B leitað til mín á ný.

Í bréfi mínu til A 31. janúar 1992 tók ég eftirfarandi m.a. fram:

"Með bréfi 25. maí 1990 veitti sjávarútvegsráðuneytið yður leyfi fyrir [M] til að stunda botnfiskveiðar með línu, handfærum og þorskanetum á árinu 1990. Leyfið var með föstu aflahámarki, 55 lestum, reiknuðum sem ígildi þorsks. Samkvæmt þeim gögnum, sem fyrir liggja, hefði aflahámark [T] á árinu 1990 orðið 48 lestir, ef bátnum hefði verið úthlutað aflaheimildum á grundvelli veiðireynslu áranna 1985-1987. Verður samkvæmt þessu ekki séð, að umræddur flutningur aflaheimilda frá [T] til [M] hefði haft neina þýðingu. Þess vegna tel ég ekki ástæðu til athugasemda við niðurstöðu sjávarútvegsráðuneytisins um það atriði."

Ég tilkynnti A þá niðurstöðu mína, að ég teldi ekki grundvöll fyrir frekari afskiptum mínum af máli því, er kvörtun hans laut að.

Í bréfi mínu til B, dags. 6. febrúar 1992, rakti ég gang málsins eftir, að ég hafði látið álit mitt í ljós 29. ágúst 1991. Kom þar fram, að sjávarútvegsráðuneytið hefði með bréfi 23. september 1991 synjað því, að veiðiheimildir B færu eftir veiðireynslu hans á árunum 1985-1987. Síðan sagði í bréfi mínu til B:

"Í fyrrgreindu bréfi sjávarútvegsráðuneytisins til yðar, en bréfið er dags. 23. september 1991, segir meðal annars:

"Samkvæmt 10. gr. laga nr. 3 8. janúar 1988, um stjórn fiskveiða 1988-1990 og ákvæðum 2.-6. gr. reglugerðar um veiðar smábáta 1990 gafst útgerðum báta undir 6 brl. kostur á að velja milli eftirfarandi veiðiheimilda við veiðar á árinu 1990:

1. Að stunda veiðar með línu- og handfærum með ákveðnum takmörkunum á sóknardögum en án takmörkunar á heildarafla. Þeir aðilar sem þann kost völdu þurftu ekki sérstök veiðileyfi hjá ráðuneytinu.

2. Að stunda línu- og handfæraveiðar án takmörkunar á sóknardögum en með aflahámarki sem byggðist á eigin aflareynslu áranna 1985-1987 sbr. 2. mgr. B liðar 10 gr. laga nr. 3/1988 og 6. gr. reglugerðar nr. 587/1989, um veiðar smábáta 1990.

3. Að fá veiðileyfi til netaveiða sbr. A. lið 10. gr. laga nr. [3]/1988. Í slíkum veiðileyfum var ávallt aflahámark annað hvort fast aflahámark sbr. 4. gr. reglugerðar nr. 587/1989 eða aflahámark byggt á eigin reynslu sbr. 6. gr. sömu reglugerðar.

Það skal áréttað að þeir aðilar sem völdu veiðiheimild samkvæmt lið 1. hér að ofan þurftu ekki sérstakt veiðileyfi en þeir sem veiðar stunduðu samkvæmt veiðiheimildum skilgreindum í lið 2. og 3. þurftu að fá til þess sérstök veiðileyfi frá ráðuneytinu.

Þeirri reglu var fylgt án undantekninga að sama aðferð gilti um veiðar hvers báts innan ársins. Var útgerðum báta undir 10 brl. ekki gefinn kostur á að skipta um aðferð eða tegund veiðileyfis innan ársins og er ekki gert ráð fyrir þeim möguleika í lögum eða reglugerð. Gilti þessi regla einnig þó eigandaskipti yrði á báti innan ársins.

Ástæður ofangreindrar reglu voru svo augljósar að óþarfi er að fara um þær mörgum orðum. Reglur um takmarkanir á veiðum þessara báta miðuðust við almanaksárið. Þannig voru banndagar fyrirfram ákveðnir fyrir árið og miðaðist aflahámarkið sömuleiðis við árið.

Vegna þess hve ólíks eðlis þessar takmarkanir voru hefði heimild til að breyta um aðferð innan ársins gert þær að engu. Þetta má skýra með dæmi. Bátur sem í upphafi árs hóf veiðar með veiðileyfi, sem háð var sérstöku aflahámarki, gat ekki fengið því leyfi breytt þegar aflahámarkinu er náð og haldið áfram veiðum innan sóknardagatakmarkanna. Á sama hátt gat bátur sem veiðar hóf stundað samkvæmt sóknardagatakmörkunum ekki undir lok ársins breytt yfir í aflahámarkskerfi og komist þannig hjá hinum fjölmörgu banndögum sem voru í lok hvers árs. Ef unnt hefði verið að láta veiðar eins og sama bátinn fara eftir mismunandi reglum á sama árinu hefði öll stjórn á veiðum smábáta farið úr böndunum og allt eftirlit með veiðunum hefði verið óframkvæmanlegt.

Sá bátur... sem þér sóttuð með bréfi dags. 12. júlí og 12. nóvember 1990 að fá aflareynslu yðar flutta á var 2.17 lestir að stærð. Útgerð [F] sótti ekki í upphafi árs 1990 um netaveiðileyfi með aflahámarki skv. D lið 10. gr. laga nr. 3/1988 eða, sem skiptir öllu máli, veiðileyfi byggðu á aflareynslu yðar á árunum 1985-1987 skv. 2. mgr. B liðar sömu greinar. Veiðiheimildir bátsins á árinu 1990 fóru því eftir hinni almennu reglu 1. mgr. B liðar 10. gr. laga nr. 3/1988 sbr. 3. gr. reglugerðar nr. 587/1989 og þurfti báturinn eins og áður er rakið ekki veiðileyfi til þessar veiða. Vélbáturinn [F] hafði því heimild til línu- og færaveiða með dagatakmörkunum á árinu 1990 og skilaði útgerð aflaskýrslum um þær veiðar og samkvæmt þeim landaði báturinn afla m.a. í apríl- og maímánuði 1990.

Óskir yðar um veiðiheimild byggðri á eigin aflareynslu þann 12. júlí 1990 voru andstæðar framangreindri meginreglu um að ein og sama regla skyldi gilda um veiðar hvers báts allt árið og bar því að hafna."

Í niðurstöðum bréfs míns til B tók ég eftirfarandi fram:

"Þér keyptuð F í nóvember 1990, en í bréfi til sjávarútvegsráðuneytisins 12. júlí 1990 höfðuð þér óskað staðfestingar ráðuneytisins á því, að þér gætuð fengið úthlutað aflaheimild fyrir bátinn árið 1990 á grundvelli aflareynslu af veiðum [H] árin 1985-1987, svo sem fyrr greinir.

Í bréfi sjávarútvegsráðuneytisins frá 23. september 1991, sbr. II. kafla hér að framan, er lýst þeim þremur kostum, sem bátar 6 brl. og minni áttu, að því er tók til veiða á árinu 1990. Ég fæ ekki séð, að rök séu til að draga í efa réttmæti þeirrar lögskýringar ráðuneytisins á ákvæðum 10. gr. laga nr. 3/1988, að hver þessara báta hafi verið bundinn af þeirri veiðitilhögun, sem honum hafði verið valin, og að óheimilt hafi verið að breyta um veiðitilhögun á almanaksárinu.

Áður en þér eignuðust F, hafði bátnum verið haldið til veiða samkvæmt heimild í 1. mgr. B-liðar 10. gr. laga nr. 3/1988, sbr. 3. gr. reglugerðar nr. 587/1989 um veiðar smábáta 1990, og hafði ekki verið sótt um veiðileyfi með aflahámarki fyrir bátinn. Af þeim ástæðum, sem að framan hafa verið raktar, var sjávarútvegsráðuneytinu því ekki heimilt að verða við óskum yðar um að breyta tilhögun á veiðum bátsins með því að úthluta honum veiðiheimildum á grundvelli aflareynslu yðar á árunum 1985-1987.

Það er samkvæmt framansögðu niðurstaða mín, að ekki sé tilefni til frekari afskipta af minni hálfu, að því er tekur til þess máls, sem kvörtun yðar lýtur að. Ég tek þó fram, að ég tel að ástæða hafi verið til þess, að sjávarútvegsráðuneytið hefði í reglugerð kveðið skýrar á um fresti til að afla þeirra leyfa, sem kostur var gefinn á í 10. gr. laga nr. 3/1988, um afleiðingar þess, ef ekki var sótt um leyfi í tæka tíð, og um takmörkun veiða hvers báts við eina og sömu veiðitilhögun á árinu 1990. Hef ég komið þessum athugasemdum á framfæri við ráðuneytið."