Stjórn fiskveiða. Skilyrði fyrir útgáfu veiðileyfa. Smíðalok nýrra báta.

(Mál nr. 494/1991)

Máli lokið með bréfi, dags. 31. janúar 1992.

A hf. kvartaði yfir því, að sjávarútvegsráðuneytið gæfi engan kost á veiðileyfi fyrir fjóra báta, sem A taldi, að smíði hefði verið hafin á á árinu 1987, en A hafði keypt tilsniðið efni í bátana í janúar 1990 af nafngreindum aðila ásamt rétti til afnota af teikningum. Um var að ræða 9,9 brl. báta, er fengið höfðu skipaskrárnúmerin A, B, C og D. Á sama tíma átti A í smíðum þrjá samskonar báta, er báru skipaskrárnúmerin X, Y og Z. Vegna vanefnda þess aðila, sem hafði tekið að sér smíði umræddra sjö báta, var smíði skipsskrokkanna ekki lokið fyrir 1. júlí 1988 eins og samningar stóðu til. Tók A þá verkið í sínar hendur. Um mitt ár 1990 ritaði A sjávarútvegsráðuneytinu bréf og óskaði eftir því, að veiðileyfi fyrrgreindu bátanna yrðu færð yfir á þá síðarnefndu, sem smíði var þá að ljúka á. Sjávarútvegsráðuneytið synjaði erindi A með bréfi, dags. 26. júlí 1990.

Í bréfi mínu til A, dags. 31. janúar 1992, sagði meðal annars:

"Kvörtun yðar lýtur að veiðileyfum fyrir þá fjóra báta, sem ekki var lokið við að smíða á árinu 1990, þ.e. bátunum með skipaskr. nr. [A, B, C og D]. Fáist veiðileyfi ekki, teljið þér, að ekki verði unnt að ljúka við smíði þessara báta. Í skrám Siglingamálastofnunar séu bátar þessir skráðir í byggingu og þar með samþykktir af sjávarútvegsráðuneytinu. Beri þessum bátum og hafi borið réttur til fiskveiða. Þér vísið til 67. og 69. gr. íslensku stjórnarskrárinnar máli yðar til stuðnings.

Í lögum nr. 3/1988 um stjórn fiskveiða 1988-1990, sem tóku gildi í upphafi árs 1988, voru í G-lið 10. gr. ákvæði um fiskibáta af þeirri stærð, er hér um ræðir. Í samræmi við meginreglur þessara laga var almennt óheimilt að veita nýjum bátum 6-10 brl. að stærð veiðileyfi, nema þeir kæmu í stað sambærilegra báta, sem veiðileyfi höfðu fengið og höfðu horfið varanlega úr rekstri. Sú undantekning var þó gerð, að veita mátti nýjum bátum veiðileyfi, þótt síðastgreindu skilyrði væri ekki fullnægt, ef um var að ræða báta, sem bindandi samningur hefði verið gerður um smíði á fyrir gildistöku laganna, enda væri smíði þeirra sannanlega hafin fyrir sömu tímamörk eða a.m.k. þriðjungur umsamins kaupverðs sannanlega greiddur fyrir 31. desember 1987 og afhending farið fram fyrir 1. júlí 1988.

Smíði umræddra báta lauk ekki í gildistíð laga nr. 3/1988, en þau féllu úr gildi 31. desember 1989, og er smíði þeirra enn ólokið. Samkvæmt þeim upplýsingum, sem fyrir liggja, var ekki í gildistíð laga nr. 3/1988 fullnægt þeim skilyrðum fyrrgreinds undantekningarákvæðis í G-lið 10. gr. laganna, að veita mætti bátunum veiðileyfi. Þá er ljóst af núgildandi lögum, sbr. 2. mgr. 5. gr. laga nr. 38/1990 um stjórn fiskveiða, að því aðeins er heimilt að veita veiðileyfi nýju eða nýkeyptu skipi, 6 brl. eða stærri, að það komi í stað sambærilegs skips, sem hefur horfið varanlega úr rekstri.

Samkvæmt því, er að framan hefur verið rakið, var sjávarútvegsráðuneytinu að lögum óheimilt að veita þau veiðileyfi, sem kvörtun yðar fjallar um, og er því ekki við ráðuneytið að sakast. Umboðsmanni Alþingis er almennt ekki ætlað að fjalla um löggjöf, sem Alþingi hefur sett. Af þessum ástæðum tel ég mig ekki geta haft frekari afskipti af máli því, sem kvörtun yðar lýtur að."