Stjórnun fiskveiða. Lagaheimild reglugerðar. Ráðstöfun persónubundinnar veiðireynslu.

(Mál nr. 554/1992)

Máli lokið með bréfi, dags. 24. janúar 1992.

Á bls. 150-151 í skýrslu minni fyrir árið 1991 gerði ég grein fyrir niðurstöðum mínum í máli A nr. 449/1991. Í janúar 1992 leitaði A til mín á ný. Lagði A áherslu á þá skoðun sína, að aflaheimildir X fyrir árið 1991 hefðu verið skertar með reglugerð og að við úthlutunina hefði ekki verið tekið tillit til veiðireynslu þeirrar, er fylgdi bátunum 1987. Taldi A, að óheimilt hefði verið samkvæmt lögum nr. 38/1990 um stjórn fiskveiða, að heimila fyrri eiganda að nýta sér umrædda veiðireynslu. Í bréfi til A 24. janúar 1992 tók ég eftirfarandi fram:

"Virðist það vera skilningur yðar, að með fyrrgreindum lögum hafi verið ákveðið, "... að aflareynsla fylgi bátum en ekki mönnum...". Ég lít svo á, að með nefndri reglugerð eigið þér við fyrirmæli 2. tl. 7. gr. reglugerðar nr. 465/1990 um veiðar í atvinnuskyni, en þar kemur fram, að "Fyrir þá báta sem ekki fengu veiðileyfi með aflahámarki byggt á eigin aflareynslu árið 1990 skal aflahlutdeild þeirra byggð á meðaltali tveggja bestu áranna 1987-1989. Þó skal einungis byggja á veiðireynslu áranna 1988 og 1989 hafi veiðireynsla ársins 1987 verið lögð til grundvallar við úthlutun aflahlutdeildar samkvæmt 1. tl. þessarar greinar...."

Það er skoðun mín, að ég hafi í bréfi mínu frá 20. maí 1991 þegar fjallað um þau atriði, sem þér nú kvartið yfir. Ég tel þó rétt að taka fram, að þegar þér eignuðust bát yðar, voru í gildi lög nr. 3/1988, um stjórn fiskveiða 1988-1990. Eins og þegar er fram komið, var í gildistíð þeirra laga óheimilt að framselja aflaheimildir báta, er byggðust á eigin aflareynslu, sbr. E-lið 10. gr. laganna. Lög nr. 38/1990 um stjórn fiskveiða komu til framkvæmda 1. janúar 1991, sbr. 23. gr. laganna. Af þeirri ástæðu eiga ekki við í tilviki yðar þau fyrirmæli 2. mgr. 11. gr. laga nr. 38/1990, að við eigendaskipti að fiskiskipi fylgi aflahlutdeild þess, nema aðilar hafi áður gert með sér skriflegt samkomulag um annað. Af gögnum þeim, sem fylgdu fyrri kvörtun yðar, er ennfremur ljóst, að þér fenguð úthlutað veiðileyfi fyrir árið 1990 með föstu aflahámarki, þ.e. ekki var byggt á persónubundinni aflareynslu yðar. Af því leiðir, eins og fram kemur í bréfi mínu til yðar frá 4. október 1991, að þér gátuð ekki byggt rétt yðar á þeim fyrirmælum 3. mgr. II. bráðabirgðaákvæðis laga nr. 38/1990, að miða skyldi aflaheimild við afla árin 1985-1987. Ennfremur verður af sömu gögnum ráðið, að aflaheimildir [bátsins] fyrir árið 1991 voru miðaðar við veiðireynslu yðar árin 1988-1989, þ.e. meðan báturinn var í yðar eigu. Verður að telja, að það hafi verið í samræmi við fyrirmæli 3. og 4. mgr. II. bráðabirgðaákvæðis laga nr. 38/1990. Verður ekki séð, að nefnd fyrirmæli 2. tl. 7. gr. reglugerðar nr. 465/1990 hafi verið andstæð fyrrnefndum ákvæðum laga nr. 38/1990.

Samkvæmt framansögðu er það niðurstaða mín, að ég get ekki fallist á það með yður, að með fyrirmælum 2. tl. 7. gr. reglugerðar nr. 465/1990 hafi aflaheimildir [bátsins] fyrir árið 1991 verið skertar með ólögmætum hætti. Tel ég því, að ekki sé tilefni til þess, að ég taki fyrri ákvörðun mína frá 4. október 1991 til endurskoðunar og er afskiptum mínum af kvörtun yðar því lokið hér með.