Sveitarfélög. Ákvörðunarvald í sveitarstjórnarmáli. Almennur borgarafundur. Ákvörðun um byggingu skóla.

(Mál nr. 565/1992)

Máli lokið með bréfi, dags. 9. október 1992.

A kvartaði yfir því að ranglega hafi verið staðið að ákvörðun um skólabyggingu í X-hreppi, þar sem búið hefði verið að fela almennum borgarafundi að taka slíka ákvörðun, en slíkur fundur hafi ekki verið haldinn. Í bréfi mínu til A, dags. 9. október 1992, sagði svo:

"Af gögnum máls verður ráðið, að í nóvember 1990 hafi verið hengd upp teikning af nýju skólahúsi í anddyri banka og póstafgreiðslu í [X]. Einnig var hengd upp ódagsett tilkynning, sem er svohljóðandi:

"SKÓLABYGGING

Eins og flestir vita, hefir alllengi staðið fyrir dyrum að byggja nýjan skóla í hreppnum.

Hér er til sýnis uppdráttur af skólahúsi, sem hreppsnefnd og skólanefnd hafa samþykkt í megindráttum.

Hreppsbúar eru beðnir að skoða uppdráttinn vel, og meta kosti hans og galla.

Síðar í vetur verður boðað til almenns borgarafundar allra hreppsbúa, til endanlegrar ákvörðunar um skólabygginguna.

Hreppsnefnd."

Upplýst er, að umræddur borgarafundur var ekki haldinn, en þess í stað var haldinn kynningarfundur hinn 30. júlí 1991.

Í skýringum oddvita X-hrepps, dags. 15. júlí 1992, segir svo:

"Meðfylgjandi er ljósrit af fundargerð hreppsnefndar af fundi sem haldinn var í Reykjavík 30. ágúst 1990, þar sem saman voru komin hreppsnefnd, skólanefnd, fræðslustjóri og dr. [B] arkitekt.

Af fundargerðinni ætti að vera ljóst að þá þegar lá fyrir ákvörðun hreppsnefndar að byggja skyldi skóla og hefja framkvæmdir að vori 1991.

Á leið heim úr Reykjavík ákvað hreppsnefnd þó að kynna hreppsbúum teikningar af húsinu og var mér sem oddvita falið að sjá um það. Ennfremur var ákveðið að boða síðar til kynningarfundar með hreppsbúum.

Ég fól starfsmanni hreppsins [A], að gera auglýsingu þess efnis. Þetta gerði hann, en orðaði þannig að ætla mætti að ákvörðun ætti að vera í höndum hreppsbúa. Það var aldrei hugmynd hreppsnefndar að svo væri. Orðalag í niðurlagi auglýsingarinnar er algerlega hans túlkun á orðum mínum.""

Ég tjáði því A, að samkvæmt gögnum málsins lægi ekki fyrir, að sveitarstjórn hefði tekið ákvörðun um að halda almennan borgarafund um byggingu nýs skóla. Yrði þess vegna ekki fundið að því, að til slíks fundar hefði ekki verið boðað. Breytti fyrrnefnd auglýsing engu um þá niðurstöðu. Niðurstaða mín væri því sú, að mál það, sem kvörtun hans lyti að, gæfi því ekki tilefni til frekari athugasemda af minni hálfu.