Ökuréttindi. Endurveiting ökuréttinda.

(Mál nr. 642/1992)

Máli lokið með bréfi, dags. 27. ágúst 1992.

A kvartaði yfir því, að dómsmálaráðuneytið hefði synjað um að veita honum ökuréttindi á ný og vísað þar til umsagnar lögreglustjórans í Reykjavík, en í umsögn hans kom fram, að þar sem ekki þætti sýnt að A hefði látið af fíkniefnanotkun, treysti lögreglustjórinn sér ekki til að mæla með því, að A yrði veitt ökuleyfi á ný. Í kvörtun A kom fram, að hann teldi óheimilt að líta til þess við ákvörðun um endurveitingu ökuréttinda, að hann hefði gert dómsátt í fíkniefnamálum. Í bréfi mínu til A, dags. 27. ágúst 1992, sagði m.a. svo:

"Fram hefur komið, að þér voruð sviptir ökuréttindum ævilangt með dómi í desember 1979. Þar sem þér hafið áður fengið endurveitingu ökuréttinda, á 2. mgr. ákvæða til bráðabirgða í umferðarlögum nr. 50/1987 ekki við um tilvik yðar, heldur fellur það undir 106. gr. laganna, en í 1. mgr. 106. gr. segir meðal annars: "Hafi maður verið sviptur ökuréttindum ævilangt má þó eigi veita ökuréttindi að nýju fyrr en svipting hefur staðið í fimm ár." Í 2. mgr. 106. gr. laganna segir, að leita skuli umsagnar viðkomandi lögreglustjóra. Í athugasemdum við 106. gr. í greinargerð með frumvarpi því, er varð að umferðarlögum nr. 50/1987, segir svo: "er lagt til að leitað skuli umsagnar viðkomandi lögreglustjóra áður en endurveiting er ákveðin, enda hafa þeir að jafnaði gleggri upplýsingar um reglusemi og hagi umsækjenda og ítarlegri en fram koma í sakavottorði." (Alþt. 1986-87, A-deild, bls. 924). Þar sem lagt er til grundvallar, að litið sé til reglusemi umsækjanda um endurveitingu ökuréttinda, verður ekki fallist á það, að ólögmætt hafi verið að líta til þess, að ekki þætti sýnt, að þér hefðuð látið af fíkniefnanotkun, enda er óheimilt að neyta áfengis eða annarra örvandi eða deyfandi efna við stjórn vélknúins ökutækis, sbr. 4. mgr. 44. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Af sakarvottorði því, sem fylgdi gögnum málsins og dagsett er 8. nóvember 1991, svo og öðrum gögnum málsins, kemur fram, að á tímabilinu 10. apríl 1989-4. febrúar 1992 hafið þér gert fjórar dómsáttir í ávana- og fíkniefnamálum. Í 2. mgr. 106. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 segir, að endurveitingu skuli því aðeins heimila að "sérstakar ástæður mæli með því.""

Ég tjáði A, að þar sem ekki yrði séð af gögnum málsins, að ákvörðun dómsmálaráðuneytisins frá 23. janúar 1992 hefði verið byggð á ólögmætum sjónarmiðum, teldi ég ekki ástæðu til frekari afskipta af málinu.