Foreldrar og börn. Framfærsluskylda foreldra gagnvart barni sínu.

(Mál nr. 600/1992)

Máli lokið með bréfi, dags. 22. september 1992.

A kvartaði yfir því, að dómsmálaráðuneytið hefði með úrskurði 13. mars 1992 gert henni að greiða G eitt lágmarksmeðlag með dóttur hennar frá 1. desember 1991 að telja til 18 ára aldurs. Úrskurður dómsmálaráðuneytisins var á því byggður, að G gæti samkvæmt 2. mgr. 23. gr. barnalaga nr. 9/1981 krafist þess, að A greiddi meðlag með S, enda væri hún sjálfráða og í fóstri hjá G samkvæmt lögmætri skipan og hefði búið hjá henni eftir að forsjárskyldu lauk.

Í bréfi, er ég ritaði A 22. september 1992, gerði ég henni grein fyrir niðurstöðum athugana minna með svofelldum hætti:

"Úrskurður dómsmálaráðuneytisins er kveðinn upp í tíð eldri barnalaga nr. 9/1981. Ber því við úrlausn þessa máls að byggja á þeim lögum. Samkvæmt 1. mgr. 14. gr. laga nr. 9/1981 eruð þér framfærsluskyldar gagnvart dóttur yðar S..., sbr. nú 9. gr. laga nr. 20/1992. Samkvæmt 15. gr. laga nr. 9/1981 getur dómsmálaráðuneytið úrskurðað þann, sem ekki sinnir framfærsluskyldu gagnvart barni, til að greiða framfærslueyri með því.

Í 2. mgr. 23. gr. laganna er kveðið á um það, hverjir geti krafist þess, að framfærslueyrir sé ákveðinn og innheimtur. Þar segir, að sá, sem stendur straum af útgjöldum vegna framfærslu barns, geti krafist þess, að framfærslueyrir sé ákveðinn og innheimtur, enda hafi viðkomandi forsjá barns eða hafi haft hana, er forsjárskyldu lauk, eða hafi barnið í fóstri samkvæmt lögmætri skipan. Þar sem G... hefur aldrei haft forsjá S..., kemur hér til athugunar, hvort rétt sé að líta svo á, að S... sé í fóstri hjá henni samkvæmt lögmætri skipan.

Samkvæmt 2. mgr. 35. gr. barnalaga nr. 9/1981 á barn rétt á forsjá foreldra sinna, þar til það verður sjálfráða. Skv. 1. gr. lögræðislaga nr. 68/1984 verður maður sjálfráða 16 ára gamall. Í samræmi við þetta lýkur forsjárskyldu við 16 ára aldur. Samkvæmt 12. gr. lögræðislaga ræður sjálfráða maður einn öðru en fé sínu. Í þessu felst að sjálfráða maður ræður dvalarstað sínum og öðrum persónulegum högum, þ. á m. vistráðum ef því er að skipta. S... hefur af fúsum og frjálsum vilja og með fullri vitund foreldra sinna búið hjá G... frá því forsjárskyldu lauk. Telja verður, að þar sem S... er sjálfráða og hún býr hjá G... að eigin ósk og með fullri vitund og samþykki foreldra, jafngildi það því, að hún sé þar í fóstri samkvæmt lögmætri skipan í skilningi 1. mgr. 23. gr. laga nr. 9/1981. Niðurstaðan er þá sú, að G... telst réttur aðili til að bera fram kröfu um greiðslu meðlags með henni. Samkvæmt þessu tel ég, að úrskurður ráðuneytisins sé í samræmi við lög og gefi ekki tilefni til sérstakra athugasemda af minni hálfu.

Samkvæmt 1. mgr. 23 gr. barnalaga nr. 9/1981, sbr. og 1. mgr. 19. gr. núgildandi barnalaga nr. 20/1992, tilheyrir framfærslueyrir barni. Ég tel því að meðlag, sem yður hefur verið gert að greiða með dóttur yðar, eigi aðeins að nýta henni til framfærslu, og sé óviðkomandi starfskjörum þeim, sem hún kann að njóta vegna vinnuframlags síns á heimili G... Í barnalögum eða öðrum lögum eru hins vegar ekki sérstök fyrirmæli um það, hvernig haga skuli að öðru leyti meðferð framfærslueyris, sem greiddur er með barni, þegar aðstæður eru með þeim hætti, sem hér um ræðir. Dómsmálaráðuneytið skortir því lagagrundvöll til að gefa sérstök fyrirmæli í því efni. Ég tel því heldur ekki grundvöll til athugasemda af minni hálfu, að því er tekur til afstöðu ráðuneytisins að þessu leyti."

Niðurstaða mín varð því sú, að ég taldi, að kvörtun A gæfi ekki tilefni til frekari afskipta af minni hálfu.