Landbúnaður. Sala fullvirðisréttar. Fullvirðisréttur talinn hluti af verðmæti jarðar. Veðsetning bújarðar. Samþykki veðhafa til sölu á fullvirðisrétti.

(Mál nr. 625/1992)

Máli lokið með bréfi, dags. 17. nóvember 1992.

A kvartaði yfir því, að landbúnaðarráðuneytið hefði ekki efnt kaupsamning, er það gerði við hann 7. júní 1991 um kaup á fullvirðisrétti jarðarinnar X. Tilgreint kaupverð átti samkvæmt samningnum að greiðast með 5 jöfnum árlegum greiðslum. Skyldi fyrstu greiðsluna inna af hendi 31. janúar 1992 og gefa átti út skuldabréf fyrir síðari greiðslum.

Í bréfi mínu til A, dags. 17. nóvember 1992, sagði m.a.:

"Með bréfi 24. janúar 1992 leitaði framkvæmdanefnd búvörusamninga eftir því, að Stofnlánadeild landbúnaðarins tæki afstöðu til þess, "hvort veðsetning jarðar bindi á einhvern hátt eiganda jarðarinnar til að ráðstafa fullvirðisrétti sem jörðinni hefur verið úthlutað". Í svarbréfi stofnlánadeildarinnar 5. febrúar 1992 er fjallað nokkuð almennt um þetta álitaefni. Í bréfi 7. sama mánaðar tilkynnir stofnlánadeildin síðan landbúnaðarráðuneytinu, að stofnlánadeildin eigi veð í jörðinni [X] og samþykki ekki umrædda sölu fullvirðisréttar, nema skuldabréfum verði ávísað henni og andvirðið gangi upp í áhvílandi veðskuldir. Er í bréfinu meðal annars áréttað, að það sé eindregin skoðun stofnlánadeildarinnar, "að framleiðslurétturinn sé hluti af veði deildarinnar í jörðinni".

Með bréfi 12. febrúar 1992 greiddi landbúnaðarráðuneytið [A], kr.... af kaupverði fullvirðisréttarins, þ.e. 1/5 af andvirði hans að viðbættu vísitöluálagi. Beindi ráðuneytið jafnframt þeim tilmælum til [A], að hann leitaði samkomulags við stofnlánadeildina um meðferð skuldabréfsins fyrir eftirstöðvum kaupverðsins. Slíkt samkomulag liggur ekki fyrir og hefur það verið og er afstaða ráðuneytisins, að því sé ekki rétt að afhenda [A] bréfið, eins og nánar er útskýrt í bréfi ráðuneytisins til mín, dags. 24. september 1992. Jörðin [X] var seld á nauðungaruppboði 22. apríl 1992 og var uppboðsafsal gefið út til kaupanda 29. júlí 1992.

Kvörtun [A] er á því byggð, að veðréttur Stofnlánadeildar landbúnaðarins hafi ekki náð til fullvirðisréttar jarðarinnar, enda hafi það ekki verið tekið fram í veðskuldabréfum þeim, sem í hlut áttu. Það er hins vegar skoðun mín, að sá réttur sé þáttur í verðmæti jarðarinnar og að óheimilt hafi verið, þar sem annað var ekki tekið fram, að rýra að mun verðgildi jarðarinnar með sölu þess réttar, nema hagsmunir stofnlánadeildarinnar sem veðhafa væru tryggðir eða samþykki hennar lægi fyrir. Sú röksemd, sem kvörtun [A] byggist á, fær því að mínum dómi ekki staðist. Miðað við þá niðurstöðu mína tel ég ekki ástæðu til að fjalla sérstaklega um meðferð skuldabréfsins að öðru leyti af hálfu landbúnaðarráðuneytisins."

Ég tjáði því A, að það væri niðurstaða mín samkvæmt framansögðu, að ég teldi ekki ástæðu til frekari afskipta minna af málinu.