Lífeyrismál. Lífeyrissjóður starfsmanna Áburðarverksmiðju ríkisins. Skerðing lífeyrisgreiðslna til félagsmanna.

(Mál nr. 800/1993)

Máli lokið með bréfi, dags. 29. mars 1993.

A leitaði til mín og kvartaði yfir þeirri ákvörðun lífeyrissjóðs starfsmanna Áburðarverksmiðju ríkisins, að skerða allar lífeyrisgreiðslur til félagsmanna.

Í bréfi lífeyrissjóðsins frá 15. desember 1992 segir m.a.:

"Á grundvelli tryggingafræðilegrar úttektar á sjóðnum, þar sem í ljós kom að sjóðurinn á ekki fyrir öllum skuldbindingum sínum, hefur stjórn sjóðsins ákveðið að skerða allar lífeyrisgreiðslur um 15% frá og með n.k. áramótum."

Í 7. gr. reglugerðar fyrir Lífeyrissjóð starfsmanna Áburðarverksmiðju ríkisins segir:

"Fimmta hvert ár skal stjórn sjóðsins fá tryggingafræðing til að reikna út fjárhag sjóðsins. Hann skal semja skýrslu um athugunina og gera upp fjárhag sjóðsins á grundvelli hennar. Sýni uppgjörið halla, sem ekki verður jafnaður með því að auka tekjur sjóðsins, ber að lækka lífeyrisréttindin hlutfallslega."

Reglugerð fyrir Lífeyrissjóð starfsmanna Áburðarverksmiðju ríkisins, sem staðfest var af fjármálaráðuneytinu 28. janúar 1988, er sett með stoð í 2. gr. laga nr. 55/1980 um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda. Þar segir m.a.:

"Öllum launamönnum og þeim sem stunda atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi, er rétt og skylt að eiga aðild að lífeyrissjóði viðkomandi starfsstéttar eða starfshóps, enda starfi lífeyrissjóðurinn skv. sérstökum lögum eða reglugerð, sem staðfest hefur verið af fjármálaráðuneytinu."

Í bréfi mínu til A, dags. 29. mars 1993, sagði m.a. svo:

"Af tilvitnuðu ákvæði verður ráðið, að lífeyrissjóðir, sem orðið hafa til með samningi milli vinnuveitanda og launþega, starfa samkvæmt reglugerðum, sem aðilar hafa komið sér saman um. Núgildandi reglugerð fyrir Lífeyrissjóð starfsmanna Áburðarverksmiðju ríkisins, þar sem mælt er fyrir um réttindi og skyldur sjóðfélaga, er því grundvölluð á kjarasamningi launþega og vinnuveitanda.

Samkvæmt 2. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis og 2. gr. reglna nr. 82/1988 um störf og starfshætti umboðsmanns Alþingis tekur starfssvið umboðsmanns til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga. Utan starfssviðs hans falla afskipti af samningum einstaklinga. Með hliðsjón af framangreindum ákvæðum laga og reglugerða um starfssvið umboðsmanns fellur það utan starfssviðs umboðsmanns að hafa afskipti af samningum milli Áburðarverksmiðju ríkisins og starfsmanna hennar. Þá tel ég, að framangreint ákvæði reglugerðar Lífeyrissjóðs starfsmanna Áburðarverksmiðju ríkisins séu ekki andstæð lögum nr. 55/1980 eða öðrum réttarreglum. Sú ákvörðun fjármálaráðuneytisins að staðfesta reglugerðina gefur því ekki tilefni til athugasemda af minni hálfu.

Samkvæmt framansögðu tel ég mig ekki geta aðhafst neitt frekar í þessu máli yðar."