Stjórnun fiskveiða. Aflahlutdeild smábáta með takmarkaða veiðireynslu. Lagareglur um stjórn fiskveiða.

(Mál nr. 521/1991)

Máli lokið með áliti, dags. 9. október 1992.

A kvartaði yfir skerðingu á aflaheimildum fiskibátsins T, sem varð við ákvörðun veiðiheimilda bátsins fyrir árið 1991 samkvæmt lögum nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða. A kvaðst hafa fengið þær upplýsingar í sjávarútvegsráðuneytinu á árinu 1987, að veiðiheimildir báts af stærðinni 9,29 brl. yrðu 100 tonn, sem yrðu varanlegar. Að fengnum þessum upplýsingum kvaðst A hafa keypt bátinn T og var hann sjósettur sumarið 1988. A hélt því fram, að á árinu 1991 hefðu aflaheimildir T verið gróflega skertar umfram heildarskerðingu á þorskkvóta fiskiskipaflotans í prósentum talið. Ástæða þess hefði verið ný lög, sem komu til framkvæmda á árinu 1991, en samkvæmt þeim hafi ekkert tillit verið tekið til bilana, veikinda, reynsluleysis eða nokkurs þess, sem hindrað gat sjósókn og afla á svonefndum viðmiðunarárum. Þá vísaði A til þess, að nýir bátar af sömu gerð hefðu fengið tvöfaldan kvóta miðað við T og að ýmis dæmi væru til þess, að bátar hefðu fengið leiðréttingu og úthlutun kvóta eftir á. Umboðsmaður benti á, að T hefði á sínum tíma fengið veiðileyfi með sérstöku aflahámarki skv. C-lið 10. gr. laga nr. 3/1988 um stjórn fiskveiða 1988-1990, sem ákveðið hefði verið árlega í reglugerð. Verulegur munur hefði verið á aflahámarki þessu og aflamarki bátsins, sem honum hefði verið úthlutað miðað við aflahlutdeild í samræmi við ákvæði laga nr. 38/1990. Yrði þessi munur fyrst og fremst rakinn til beinna fyrirmæla laga nr. 38/1990. Tók umboðsmaður fram, að honum væri almennt ekki ætlað að fjalla um löggjafarstarf Alþingis heldur stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga, sbr. 2. gr. laga nr. 13/1987, um umboðsmann Alþingis. Brysti því skilyrði til þess, að dómi umboðsmanns, að unnt væri að taka afstöðu til kvörtunar A að því leyti, sem hún beindist í raun að breyttum reglum laga nr. 38/1990. Umboðsmaður tók fram, að samkvæmt 7. mgr. II. bráðabirgðaákvæðis laga nr. 38/1990 væri gert ráð fyrir því, að sérstök samstarfsnefnd yrði skipuð til þess, að fjalla um málefni nýrra smábáta, er ekki hefðu tveggja ára veiðireynslu á árunum 1987-1989, sem væri viðmiðun skv. 4. mgr. bráðabirgðaákvæðisins. Ennfremur hefði nefndinni borið að fjalla um önnur álitaefni og á þeim grundvelli tekið til meðferðar vanda ýmissa báta, sem höfðu af sérstökum ástæðum aflað illa á viðmiðunarárunum 1987-1989. Um störf nefndarinnar hefðu gilt reglur 8. mgr. nefnds bráðabirgðaákvæðis. T hefði verið meðal þeirra báta, er samstarfsnefnd tók til sérstakrar athugunar. Umboðsmaður kannaði hvernig aflahlutdeild T hefði verið ákveðin og bar hana saman við úthlutun til annarra báta, sem samstarfsnefnd hafði tekið til umfjöllunar á sama grundvelli. Umboðsmaður tók fram, að um þá báta, sem komu til veiða í fyrsta sinn á árinu 1990, hefðu gilt sérstakar reglur skv. 5. mgr. II. bráðabirgðaákvæðis laga nr. 38/1990. Hefðu bátar þessir haft sérstöðu að lögum og því hefði það litla þýðingu að bera saman úthlutun þeirra og tillagna samstarfsnefndar á fyrrgreindum grundvelli 7. og 8. mgr. bráðabirgðaákvæðisins. Umboðsmaður gerði grein fyrir bréfum og gögnum, sem honum höfðu borist frá sjávarútvegsráðuneytinu um störf og starfshætti samstarfsnefndar og vörðuðu einkum þá ákvörðun nefndarinnar, að beita svonefndri uppreikningsaðferð við ákvörðun aflahlutdeildar tilgreindra báta, sem af ýmsum ástæðum höfðu ekki haft aflareynslu í tvö ár á viðmiðunarárunum. Umboðsmaður benti á, að T hefði verið í hópi nýrra báta, sem hefðu komið til umfjöllunar samstarfsnefndar. Báturinn hefði einnig verið í hópi báta, sem fengið hefðu aukna aflahlutdeild vegna "uppreiknings" sökum tíðra vélarbilana. Í niðurstöðum sínum tók umboðsmaður fram, að sjávarútvegsráðuneytið hefði að lögum verið settar þröngar skorður um úthlutun aflaheimilda og að takmarkaður afli hafi verið til skipta milli báta minni en 10 brl. Yrði sjávarútvegsráðuneytið í máli eiganda T ekki sakað um að hafa gengið skemur til móts við hann en lög leyfðu. Þá taldi umboðsmaður, að athugun sín hefði ekki leitt það í ljós, að hallað hefði verið á T við úthlutun aflaheimilda, þegar úthlutun til bátsins væri borin saman við úthlutun til annarra báta og hefðu þá m.a. verið hafðir í huga þeir bátar aðrir, sem urðu fyrir vélarbilunum á viðmiðunarárunum. Umboðsmaður hafði einnig á sama tíma til meðferðar erindi frá Landssambandi smábátaeigenda. Gaf erindið og kvörtun A tilefni til þess, að umboðsmaður athugaði frekar, hvort II. bráðabirgðaákvæði laga nr. 38/1990 veitti sjávarútvegsráðuneytinu óhæfilega lítið svigrúm til að taka tillit til sérstakra og óviðráðanlegra atvika umsækjenda. Er nánar gerð grein fyrir þeirri umfjöllun á bls. 257 í skýrslu þessari.

I. Kvörtun og málavextir.

Hinn 1. nóvember 1991 lagði A fram kvörtun yfir þeirri skerðingu á aflaheimildum bátsins T, sem orðið hefði við ákvörðun veiðiheimilda bátsins fyrir árið 1991.

A greindi svo frá, að í októbermánuði 1987 hefði hann leitað til sjávarútvegsráðuneytisins til þess að fá upplýsingar um, hvaða aflaheimild fengist handa nýsmíðuðum bát af tiltekinni gerð, sem hann hafði í hyggju að kaupa. Hefði honum þá verið tjáð, að báturinn fengi 100 tonna aflaheimild, sem yrði varanleg. Sá fyrirvari hefði þó verið gerður, að kæmi til skerðingar á aflaheimildum, myndu þær ganga jafnt yfir allan flotann. Á grundvelli þessara upplýsinga hefði hann síðan ákveðið að kaupa umræddan bát. Var smíðasamningur undirritaður í október 1987 og var báturinn sjósettur 19. júlí 1988. Báturinn er 9,29 brl.

A tók ennfremur fram, að aflaheimildir T hefðu, miðað við óslægðan fisk, verið sem hér segir. Á árinu 1988: 100 tonn, á árinu 1989: 90 tonn, á árinu 1990: 85 tonn, á tímabilinu janúar til september 1991: 30 tonn og á tímabilinu september 1991 til september 1992: 30 tonn. Þannig hafi aflaheimildir bátsins fyrstu þrjú árin reynst vera í samræmi við fyrri upplýsingar. Á hinn bóginn hefðu aflaheimildir bátsins á árinu 1991 verið gróflega skertar umfram heildarskerðingu á þorskkvóta fiskiskipaflotans í prósentum talið. Ástæða þess hefðu verið ný lög, sem sett hefðu verið á árinu 1990 og komið til framkvæmda um áramótin 1991. Samkvæmt þeim lögum hefði ekkert tillit verið tekið til bilana, veikinda, reynsluleysis eða nokkurs þess, sem hindrað gæti sjósókn og afla á svonefndum viðmiðunarárum. A skýrði ennfremur svo frá, að á tveggja ára tímabili í tæpa 11 mánuði hefði sér ekki tekist að halda bátnum til veiða, en þar af hefðu frátafir vegna bilana verið tæpir 6 mánuðir. Þá vísaði A til þess, að nýir bátar, sem hefðu komið til veiða á árinu 1990, hefðu fengið tvöfaldan kvóta miðað við T. Hefði þar þá verið um báta sömu gerðar að ræða og raunar hefðu þeir engan kvóta átt að fá. Einnig taldi A ýmis dæmi þess, að bátar hefðu fengið leiðréttingar og úthlutun kvóta eftir á.

II. Athugun umboðsmanns Alþingis.

Með bréfi, dags. 28. nóvember 1991, óskaði ég eftir því, sbr. 7. og 9. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis, að sjávarútvegsráðuneytið skýrði afstöðu sína til kvörtunar A og léti mér í té þau gögn, sem hana snertu. Upplýsingar og skýringar sjávarútvegsráðuneytisins bárust mér með bréfi ráðuneytisins, dags. 13. febrúar 1992, sem er svohljóðandi:

"Ráðuneytið vísar til bréfs umboðsmanns Alþingis frá 28. nóvember 1991, varðandi kvörtun [A], vegna skertra aflaheimilda t/b [T].

Kvörtun [A] lýtur að því, "að aflakvóti báts míns [T] var gróflega skertur umfram þá prósentuskerðingu, sem fiskiskipaflotinn fékk á sig um síðustu áramót".

Kvörtun sína um skerðingu aflaheimilda byggir [A] á því, að hann hafi á árinu 1988 haft heimild til veiða á 100 lestum sem lækkað hafi í 90 lestir 1989 og síðan í 85 lestir 1990, og því hafi aflaheimildir þær sem báti hans var úthlutað í ársbyrjun 1991 verið skertar stórlega umfram almenna skerðingu á veiðiheimildum fiskveiðiflotans.

Þegar litið er til þessa atriðis verður að hafa í huga að í ársbyrjun 1991 var tekið upp annað kerfi við úthlutun veiðiheimilda til báta undir 10 brl. en gilti á árunum 1988-1990.

Samkvæmt 10. gr. laga nr. 3, 8. janúar 1988, um stjórn fiskveiða 1988-1990 voru veiðar báta 6 brl. og stærri háðar sérstökum veiðileyfum. Áttu aðilar sem gerðu út bát stærri en 6 brl. en minni en 10 brl. kost á eftirgreindum veiðiheimildum fyrir báta sína:

1. Leyfi til línu- og handfæraveiða með tilteknum sóknartakmörkunum en án aflamarks, sbr. 1. mgr. B liðar 10. gr.

2. Leyfi til netaveiða með sérstöku aflahámarki sbr. C lið 10. gr. Þessi leyfi voru með sérstöku aflahámarki sem ákveðið var í reglugerð árlega, sbr. reglugerð nr. 17/1988, reglugerð nr. 552/1988 og reglugerð nr. 587/1989.

3. Veiðileyfi með aflamarki, sem byggðist á fyrri reynslu samkvæmt nánari ákvörðun ráðherra. Samkvæmt reglugerðum þeim sem settar voru um veiðar smábáta á árunum 1988-1990, og vísað er til hér að ofan, byggðist það aflahámark á meðalafla tveggja bestu áranna 1985-1987 eða afla ársins 1987 sbr. 6. gr. tilvitnaðra reglugerða.

Á árunum 1988, 1989 og 1990 valdi [A] kost 2 fyrir bát sinn, [T], eða netaveiðileyfi með sérstöku föstu aflahámarki.

Aflahámark þetta var almennt fast aflahámark sem ákveðið var árlega, skv. því sem rakið er í lið 2 hér að ofan, og við ákvörðun þess var eingöngu tekið tillit til stærðar báts en ekki veiðireynslu hlutaðeigandi. Aflahámark þetta hafði verið sett í því skyni að tryggja að afli þeirra báta sem netaveiðar stunduðu færi ekki langt fram úr því aflahámarki, sem bátar 10 brl. og stærri urðu að sæta, er þeir stunduð veiðar í sóknarmarki, sbr. 1. tl. 8. gr. reglugerðar nr. 585/1989. Verður hér að hafa í huga þá þróun sem varð í fjölda og gerð smábáta, en vegna þess sveigjanleika sem var á reglum um mælingar báta, var hægt að byggja mjög afkastamikla báta, enda þótt þeir mældust undir 10 brl.

Við gildistöku laga nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða, sem komu til framkvæmda í ársbyrjun 1991 er tekið upp nýtt kerfi við stjórnun fiskveiða báta undir 10 brl. og þó einkum báta undir 10 brl. en stærri en 6 brl. Í stað þess að gefa þeim kost á þrenns konar veiðiheimildum eins og hafði gilt í gildistíma laga nr. 3/1988, um stjórn fiskveiða 1988-1990, er hverjum báti úthlutað veiðiheimildum á grundvelli aflareynslu ákveðið árabil.

Jafnhliða því að fellt var niður fast aflahámark fyrir netabáta undir 10 brl. var með gildistöku laga nr. 38/1990 felld úr gildi heimild báta yfir 10 brl. til að velja sóknarmark í stað aflamarks, en aflahámark í sóknarmarki gegndi sama hlutverki og aflahámark í veiðum smábáta.

Þeim bátum sem á grundvelli laga nr. 3/1988 höfðu á árinu 1990 valið um veiðileyfi, sem byggði á aflareynslu sbr. tl. 3 hér að framan, var úthlutað aflahlutdeild sem miðaðist við forsendur þess aflamarks, sbr. 3. mgr. ákvæðis II til bráðabirgða við lög nr. 38/1990. Þeir bátar sem á árunum 1990 höfðu aftur á móti valið veiðiheimildir skv. tl. 1-2 hér að framan, áttu aðeins kost á veiðileyfi með aflahlutdeild, sem byggði á aflareynslu áranna 1987-1989, þannig að byggt væri á meðalafla tveggja bestu áranna sbr. 4. mgr. ákvæðis II til bráðabirgða.

Það skal áréttað hér að væri báti úthlutað aflahlutdeild á grundvelli 4. mgr. ákvæðis II til bráðabirgða, skipti engu máli hvaða veiðiheimildir báturinn hefði haft fyrir gildistöku laganna.

Eins og áður er rakið valdi [A] netaveiðileyfi með aflahámarki fyrir bát sinn [T] á árinu 1990 og því bar að úthluta honum aflahlutdeild á grundvelli veiðireynsluáranna 1987-1990, þannig að byggt væri á meðalafla tveggja bestu áranna. Aflahlutdeild tók ekkert mið af því aflahámarki, sem verið hafði á veiðum netabáta á árunum 1988-1990.

Í árslok 1990 var útgerðaraðilum báta undir 10 brl. send svokölluð "tilraunaúthlutun" á grundvelli 9. mgr. ákvæðis II til bráðabirgða. Í tilraunaúthlutun þessari kom fram hvert hefði orðið aflamark hlutaðeigandi báts, miðað við heildarúthlutun ársins 1990, byggt á úthlutunarreglum þeim sem ákveðnar eru í 2.-5. mgr. ákvæðis II til bráðabirgða.

Ráðuneytinu bárust athugasemdir frá á sjöunda hundrað útgerðaraðilum og lutu þær flestar að því að hlutaðeigandi bátur hefði orðið fyrir töfum frá veiðum vegna bilana á viðmiðunartímabilinu eða vegna veikinda eigenda. Í athugasemdum flestra þessara aðila kom fram sú fullyrðing að yrði aflahlutdeild bátsins ekki hækkuð, þá væru brostnar rekstrarforsendur fyrir bátinn og afkomumöguleikum manna stefnt í hættu. Jafnframt kom fram hjá fjölmörgum að þeir hefðu treyst á að aflahámarkið yrði ávallt lagt til grundvallar og enginn bátur fengi skerðingu umfram fyrra aflamark nema hlutfallslega miðað við lækkun heildarafla hverju sinni.

Ráðuneytið getur út af fyrir sig ekki dregið í efa að einhverjir aðilar hafi staðið í þeirri trú að ekki kæmi til lækkunar umfram aflahámark. En slíkt hefði verið gjörsamlega óraunhæft því miðað við fjölda smábáta og það hversu aflahámarkið hafði verið hátt, hefði slík úthlutun leitt til þess að hlutur smábáta hefði farið úr böndum en það var aldrei ætlun löggjafans að hlutur smábáta í heildarafla ykist með því móti, heldur þvert á móti að hlutur þeirra yrði ekki á kostnað báta stærri en 10 brl., eins og fram kemur í 2. mgr. ákvæðis II til bráðabirgða. Einnig var það tilgangur löggjafans að hverjum báti væri úthlutað aflahlutdeild sem byggðist á eigin veiðireynslu og því nyti sá þess sem hefði góða reynslu í veiðum.

Með hliðsjón af þessum ákveðnu reglum um heildaraflahlutdeild báta undir 10 brl. og ákveðnum úthlutunarreglum til þeirra, sem alfarið skyldu byggjast á veiðireynslu ákveðið tímabil, er í raun ekkert svigrúm til þess að taka tillit til ýmissa atriða sem sannanlega höfðu dregið úr aflareynslu á viðmiðunartímum og er í 8. mgr. ákvæðis II til bráðabirgða sá skilningur áréttaður.

Í 2. (sic) mgr. ákvæðis II til bráðabirgða er sérstakri samráðsnefnd falið að fjalla sérstaklega um málefni þeirra aðila, sem keypt höfðu nýja báta eftir 31. janúar 1988 og höfðu því ekki fulla aflareynslu til að byggja á skv. 4. mgr. Í bréfi ráðuneytisins frá 3. desember 1991 vegna kvörtunar [...] hefur ráðuneytið ítarlega gert grein fyrir því með hvað hætti var fjallað um mál þeirra aðila sem ekki höfðu fulla viðmiðunarreynslu.

Varðandi mál [A], varð niðurstaðan sú, að honum var reiknaður afli mánuðina mars til júlí 1988 sbr. meðfylgjandi. Tók sá uppreikningur mið af úthaldi sömu mánaða 1989 og með þeim uppreikningi fékk bátur hans [T] fulla viðmiðun á árunum 1988-1989. Þessi uppreikningur vegur í raun þungt í aflahlutdeild [T] og sýnir það eitt hversu erfitt slíkt mat er, sbr. það sem rakið er hér síðar."

Með bréfi 17. febrúar 1992 gaf ég A kost á að koma á framfæri athugasemdum við ofangreinda greinargerð sjávarútvegsráðuneytisins. Athugasemdir hans bárust mér 8. apríl 1992.

III. Álit umboðsmanns Alþingis.

Í áliti mínu, dags. 9. október 1992, vék ég fyrst að þeirri kerfisbreytingu, sem gerð var með lögum nr. 38/1990 varðandi stjórnun fiskveiða báta undir 10 brl. Sagði svo um þetta í áliti mínu:

"Samkvæmt gögnum málsins fékk T á sínum tíma leyfi til netaveiða með sérstöku aflahámarki skv. C-lið 10. gr. laga nr. 3/1988 um stjórn fiskveiða 1988-1990. Aflahámark þetta var ákveðið árlega í reglugerð. Með lögum nr. 38/1990 um stjórn fiskveiða, sem komu til framkvæmda í ársbyrjun 1991, varð veruleg breyting á reglum um úthlutun veiðiheimilda. Þannig var afnumin heimild til að velja bátum stærri en 10 brl. sóknarmark. Sömuleiðis var fellt niður fast aflahámark fyrir netabáta undir 10 brl., en það hafði T samkvæmt framansögðu haft.

Í II. bráðabirgðaákvæði laga nr. 38/1990 eru fyrirmæli um, hvernig ákvarða skuli afla báta undir 10 brl. Samkvæmt 2. mgr. ákvæðisins skal samanlögð aflahlutdeild allra báta minni en 10 brl. í leyfilegum heildarafla allra botnfisktegunda, sem úthlutað er til einstakra báta, vera jöfn aflahlutdeild þeirra í ársafla sömu botnfisktegunda árið 1989. Síðar í II. bráðabirgðaákvæðinu eru fyrirmæli um, hver skuli vera aflahlutdeild einstakra báta í þessum heildarafla. Sú aflahlutdeild er síðan grundvöllur árlegrar úthlutunar aflamarks viðkomandi báta, sbr. 10. mgr. II. bráðabirgðaákvæðisins.

Verulegur munur er á aflahámarki því, sem T var ákveðið á grundvelli C-liðar 10. gr. laga nr. 3/1988, og aflamarki bátsins, sem bátnum hefur verið úthlutað miðað við aflahlutdeild þá, er hann hefur fengið í samræmi við ákvæði laga nr. 38/1990. Þennan mun, sem kvörtun A lýtur að, er fyrst og fremst að rekja til beinna fyrirmæla laga nr. 38/1990. Umboðsmanni Alþingis er almennt ekki ætlað að fjalla um löggjafarstarf Alþingis, heldur stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga, sbr. 2. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis. Þess vegna brestur lagaskilyrði fyrir því, að ég taki afstöðu til umræddrar kvörtunar, að því leyti sem hún í raun beinist að breyttum reglum laga nr. 38/1990.

Kvörtun A er einnig um það, að af hálfu sjávarútvegsráðuneytisins hafi honum verið tjáð, að báturinn fengi 100 tonna aflaheimild, sem yrði varanleg. Sá fyrirvari hafi þó verið gerður, að kæmi til skerðingar á aflaheimildum, myndu þær ganga jafnt yfir allan flotann. Sjávarútvegsráðuneytið hafði ekki vald til að binda löggjafann með slíkum yfirlýsingum og það hefur heldur ekki gengist við þessum yfirlýsingum. Get ég því ekki byggt á því, að fyrirheit af þessu tagi hafi verið gefin af hálfu sjávarútvegsráðuneytisins.

Nýir bátar, sem voru minni en 10 brl. og höfðu verið keyptir eftir 31. janúar 1988, gátu ekki haft tveggja ára veiðireynslu á árunum 1987-1989, svo sem miðað var við í reglu 4. mgr. II. bráðabirgðaákvæðis. Af því tilefni var ákveðið í 7. mgr. II. bráðabirgðaákvæðis, að sérstök samstarfsnefnd skyldi fást við málefni þessara báta.

Ofangreind samstarfsnefnd skyldi og fjalla um önnur álitaefni, sem upp kynnu að koma, og gera tillögur til sjávarútvegsráðherra um aflahlutdeild viðkomandi báta, sbr. lokaákvæði 7. mgr. II. bráðabirgðaákvæðis. Á grundvelli þessa síðastgreinda ákvæðis tók samstarfsnefndin til meðferðar vanda ýmissa báta, sem höfðu af sérstökum ástæðum aflað illa á viðmiðunarárum 1987-1989.

Um ofangreinda úthlutun veiðiheimilda á grundvelli 7. mgr. II. bráðabirgðaákvæðis laga nr. 38/1990 voru settar nánari reglur í 8. mgr. sama ákvæðis. Það hljóðar svo:

"Ráðherra skal með reglugerð setja nánari reglur um úthlutun þessa, þar á meðal um stærðarflokkun báta. Úthlutunin skal taka mið af þeim reglum sem giltu um úthlutun aflamarks til skipa 10 brl. og stærri á árinu 1984, sbr. rg. nr. 44/1984, eftir því sem við verður komið. Þó skulu reglur um frátafir frá veiðum og skipstjóraskipti undanskildar.""

IV.

Þá fjallaði ég um úthlutun aflaheimilda til báta undir 10 brl., um störf og starfshætti svonefndrar samstarfsnefndar svo og starfsreglur nefndarinnar m.a. varðandi svonefndan uppreikning og tók jafnframt fyrir ákvörðun aflaheimildar T í þessu sambandi. Sagði svo um þetta í álitinu:

"T var meðal þeirra báta, sem samráðsnefnd tók til sérstakrar athugunar á grundvelli 7. mgr. og 8. mgr. II. bráðabirgðaákvæðis laga nr. 38/1990. Hef ég kannað, hvernig aflahlutdeild T var ákveðin að því leyti og borið þá ákvörðun saman við úthlutun til annarra báta, sem samráðsnefnd tók til meðferðar á sama grundvelli. Tekið skal fram, að um aflahlutdeild báta, sem komu í fyrsta sinn til veiða á árinu 1990, gilda sérstakar reglur skv. 5. mgr. II. bráðabirgðaákvæðis laga nr. 38/1990. Bátar þessir höfðu sérstöðu og um þá giltu sérreglur að lögum. Af þeim sökum tel ég þýðingarlítið að bera saman úthlutun aflahlutdeildar til þessara báta og úthlutun samráðsnefndar á fyrrgreindum grundvelli (sjá III. kafla hér að framan).

Sjávarútvegsráðuneytið hefur í bréfi til mín 3. desember 1991 gert grein fyrir störfum samráðsnefndar. Þar segir:

"Eins og fram kemur í 7. mgr. ákvæðis II til bráðabirgða, sem fjallar um störf sérstakrar samstarfsnefndar, "skal (nefndin) sérstaklega fjalla um málefni þeirra aðila sem keypt hafa nýja báta eftir 31. janúar 1988 og hafa ekki fulla aflareynslu á viðmiðunartímabilinu til að byggja ákvörðun aflahlutdeildar á". Á grundvelli þessarar heimildar gerði nefndin þá tillögu til ráðuneytisins að beitt skyldi svokölluðum uppreikningi vegna þeirra báta sem komu til veiða eftir 31. janúar 1988 og höfðu því ekki fulla tveggja ára viðmiðun til að byggja aflareynslu sína á. Tilgangur þessarar aðferðar var að jafna stöðu þessara báta, þannig að þeir hefðu sem næst fulla tveggja ára veiðireynslu til jafns við báta sem stunduðu veiðar á árunum 1987-1989. Þetta sjónarmið helgaðist af því að heildarhlutdeild smábáta var ákvörðuð af samanlögðum ársafla þessara báta af hverri fisktegund árið 1989, sbr. 2. mgr. ákvæðis II til bráðabirgða við lögin. Því höfðu bátar sem komu í fyrsta sinn til veiða á árinu 1988 og 1989 lagt sinn skerf til þeirrar samanlögðu hlutdeildar sem smábátum var ákvarðaður samkvæmt lögunum. Með því að uppreikna afla þessara báta var því í raun verið að áætla þeim afla, þannig að þeir hefðu veiðireynslu sem ætla mætti að væri sem næst því sem viðkomandi bátur hefði haft hefði hann verið að veiðum í full tvö ár.

Aðferðin fólst í því að einstökum bátum var áætlaður afli aftur í tímann með hliðsjón af sóknarmynstri og aflareynslu þann tíma sem viðkomandi bátur var að veiðum. Þessi aðferð hafði því í för með sér, svo dæmi sé tekið, að bátur sem kom nýr til veiða í fyrsta sinn í ársbyrjun 1989 og var við veiðar allt árið fékk áætlaðan á sig afla allt árið 1988 með hliðsjón af eigin aflabrögðum og aflabrögðum sambærilegra báta. Á sama hátt var báti, sem kom til veiða í fyrsta sinn í ársbyrjun 1989 og var aðeins við veiðar í hálft ár, áætlaður afli fyrir hálft árið 1988. Í öllum tilvikum var tekið mið af afla viðkomandi báts þann tíma sem báturinn var við veiðar. Þessi aðferð hafði það í för með sér að bátur, sem kom til veiða árinu 1989 og stundaði veiðar fyrstu sex mánuði ársins og aflaði jafnt og meðaltal sambærilegra báta í sömu mánuðum, fékk metinn á sig meðalafla sambærilegra báta fyrir sömu mánuði árið 1988. Ef afli bátsins var hins vegar hærri en meðalafli sambærilegra báta var honum reiknað tiltekið hlutfall (fisknistuðull) til viðbótar afla sambærilegra báta í sömu mánuðum árið á undan. Við mat á því hvað teldust sambærilegir bátar í þessu sambandi var byggt á stærðarflokkum bátanna, sbr. 10. gr. rg. nr. 465/1990, um veiðar í atvinnuskyni. Þessi aðferð var því leið til að líkja eftir því hvernig einstakir bátar hefðu líklega aflað hefðu þeir verið að veiðum á tilteknum tíma og fiskað álíka vel og þeir fiskuðu þann tíma sem þeir voru raunverulega að veiðum.

Í þeirri tilraunaúthlutun sem fram fór í nóvember 1990 var þessari aðferð einungis beitt á þá báta sem komu í fyrsta sinn til veiða eftir 31. janúar 1988. Eftir að ráðuneytinu bárust athugasemdir við tilraunaúthlutunina voru m.a. reglur um uppreikning teknar til endurskoðunar. Í fyrsta lagi var á grundvelli tillagna samstarfsnefndarinnar ákveðið að beita þessum reglum vegna báta sem skipt höfðu um eigendur síðustu mánuði ársins 1989, enda höfðu eigendaskiptin valdið verulegum breytingum á útgerð viðkomandi báta, þannig að afli varð mun meiri en þegar báturinn var í höndum fyrri eigenda. Í öðru lagi voru tilvik þar sem sala á bátum hafði gengið til baka, en óreiða verið í rekstri þeirra á viðmiðunartímanum af völdum annars aðila, sem varð þess valdandi að aflareynsla bátsins varð mun lakari en ætla hefði mátt. Í þriðja lagi voru tilvik um báta af ákveðinni gerð sem urðu fyrir óvenju tíðum bilunum, sem rekja mátti til alvarlega smíðagalla á skrokk eða vélbúnaði viðkomandi báts, sem langan tíma tókst að komast fyrir, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir eigenda. Var hér einkum um að ræða nýlega hraðfiskbáta úr trefjaplasti með aflmiklar vélar. Í fjórða lagi voru örfá tilvik þar sem endurbygging á eldri bát varð þess valdandi að lítið sem ekkert hafði aflast á bátinn á viðmiðunarárunum.

Í öllum þessum tilvikum sem nefnd voru hér að framan þurfti að fara fram mat á öllum málsatvikum. Var stuðst við innsendar upplýsingar eigenda bátanna og þær sannreyndar eftir því sem frekast var kostur. Við sjálfan uppreikninginn var að öðru leyti byggt á sömu reglum og við mat á afla þeirra báta sem komu í fyrsta sinn til veiða eftir 31. janúar 1988."

Í bréfi til mín 1. október 1992 hefur sjávarútvegsráðuneytið gefið frekari skýringar á sama efni. Í bréfi þessu segir meðal annars:

"Eftir að tilraunaúthlutunin hafði farið fram bárust samstarfsnefndinni um sjö hundruðu erindi sem snertu ýmiss atriði. Flest þessara erinda snertu aflaforsendur einstakra báta og aðferðir við að meta afla á nýja báta þ.e.a.s. uppreikning. Nokkur fjöldi erinda var einnig frá eigendum eldri báta þar sem ýmsar ástæður voru tilgreindar fyrir lakri aflareynslu. Meðal þeirra voru erindi frá útvegsmönnum sem áttu báta með tiltekinni gerð véla sem höfðu verið bilaðar meira og minna öll þau ár sem lögð voru til grundvallar við útreikning aflahlutdeildar. Einnig voru erindi frá útvegsmönnum, sem keypt höfðu báta með litla aflareynslu síðari hluta árs 1989, en eigendaskiptin orðið til þess að mikil umskipti urðu í útgerð viðkomandi báta. Þá voru erindi frá útvegsmönnum nokkurra báta þar sem margir samverkandi þættir höfðu leitt til þess að lítil sem engin aflareynsla var á bátunum á viðmiðunarárunum. Ef taka átti tillit til athugasemda af þessu tagi var ljóst að umfangsmikið mat þurfti að fara fram á öllum aðstæðum. Í því skyni safnaði nefndin ítarlegum upplýsingum um hvert einstakt tilvik. Eftir að upplýsingunum hafði verið safnað um öll tilvikin og þau sannreynd eftir því sem hægt var átti samstarfsnefndin fundi með ráðuneytinu þar sem fjallað var um þessi erindi. Nefndin lagði til á grundvelli þessarar vinnu að tilteknum bátum yrði áætlaður afli með hliðstæðum hætti og gert var varðandi nýja báta. Þessi bátar voru hins vegar með mjög óreglulega veiðireynslu og því mun vandasamara en mat á því hvaða bátar kæmu til greina. Vandinn var fyrst og fremst fólginn í því að í fæstum tilvikum var hægt að byggja á fyrri veiði þar sem útgerð bátanna hafði verið mjög óreglubundin. Þurfti því í flestum tilvikum að leggja mat á hvaða mánuði meta skyldi afla á bátana. Eftir að sú ákvörðun lá fyrir fengu flestir þessara báta meðalafla sambærilegra báta á sama tímabili þ.e.a.s. fisknistuðull þeirra var settur sem 1.0. Ef viðkomandi bátur hafði stundað nokkuð reglulega útgerð einhvert árið þá var byggt á því mynstri."

Samkvæmt þeim upplýsingum, sem fyrir liggja, fékk samtals 41 bátur aukna aflahlutdeild að tillögu samráðsnefndar á grundvelli umrædds uppreiknings, auk nýju bátanna, sem keyptir höfðu verið eftir 31. janúar 1988. Fyrrgreinda báta hefur sjávarútvegsráðuneytið flokkað þannig:

1. Flokkur 11 báta, sem höfðu lent í tíðum vélarbilunum á viðmiðunarárunum 1987-1989. Í 10 tilvikum var þar um að ræða bilun á svonefndum Iveco-vélum, en í einu tilviki á annars konar vél.

2. Í þessum flokki voru 8 bátar. Annað hvort voru það bátar, sem eigendaskipti höfðu orðið að síðari hluta árs 1989, eða bátar, sem seldir höfðu verið, en kaupin gengið til baka vegna vanskila kaupenda. Í báðum tilvikum hafði orðið gagnger breyting til batnaðar á útgerð bátanna.

3. Í þessum flokki voru 11 bátar, sem höfðu orðið fyrir ýmsum skakkaföllum á viðmiðunarárunum, t.d. sokkið eða orðið fyrir sjótjóni með öðrum hætti.

4. Í þessum flokki voru einnig 11 bátar. Þar var um að ræða eldri báta, sem höfðu verið í endurbyggingu öll viðmiðunarárin, þannig að lítið sem ekkert hafði aflast á þá þann tíma.

Á nokkrum fundum mínum og starfsmanna minna með starfsmönnum sjávarútvegsráðuneytisins hafa verið athuguð gögn um ákvörðun aflahlutdeildar þeirra 30 báta, er greinir í flokkum 1-3 hér að framan. Á þeim fundum hafa starfsmenn sjávarútvegsráðuneytisins gefið skýringar og veitt upplýsingar.

T var í hópi nýrra báta, sem 7. mgr. og 8. mgr. II. bráðabirgðaákvæðis laga nr. 38/1990 tók til. Báturinn var einnig meðal þeirra 11 báta, er greinir í flokki 1 hér að framan og fengu "uppreikning" vegna tíðra vélarbilana. Var bátnum reiknaður afli mánuðina mars til júlí 1988 og var þar tekið mið af afla bátsins sömu mánuði 1989.

Samkvæmt 8. mgr. II. bráðabirgðaákvæðis laga nr. 38/1990 skyldi umrædd úthlutun taka mið af þeim reglum, sem giltu um aflamark til skipa 10. brl. og stærri á árinu 1984, sbr. reglug. nr. 44/1984, eftir því sem við yrði komið, en þó skyldu reglur um frátafir frá veiðum og skipstjóraskipti undanskildar. Samkvæmt 7. gr. reglug. nr. 44/1984 átti að bæta við þeim afla, sem ætla mátti að skip hefði haft þann tíma, sem það kynni að hafa tafist frá veiðum. Frátafir skv. 7. gr. töldust vera fyrir hendi, ef þær höfðu varað lengur en tvær vikur samfleytt og höfðu hlotist af meiri háttar bilun eða endurbótum á skipum, enda væri það staðfest af til þess bærum aðilum. Af þessu má sjá, að sjávarútvegsráðuneytinu voru að lögum þröngar skorður settar um úthlutun aflaheimilda. Þá ber þess einnig að gæta, að takmarkaður heildarafli var til skipta milli báta minni en 10 brl., sbr. 2. mgr. II. bráðabirgðaákvæðis. Tel ég, að ráðuneytið verði í tilviki því, sem hér er til úrlausnar, ekki sakað um að hafa gengið skemur til móts við eiganda T en lög leyfðu. Þá hefur athugun mín ekki leitt í ljós, að hallað hafi verið á T við úthlutun aflaheimilda, þegar úthlutun til bátsins er borin saman við úthlutun til þeirra báta annarra, sem var ákveðin aflahlutdeild á grundvelli 7. og 8. mgr. II. bráðabirgðaákvæðis og eru þá meðal annars hafðir í huga þeir 10 bátar aðrir, sem urðu fyrir vélarbilunum á viðmiðunarárunum svo sem T."

V.

Niðurstaða mín samkvæmt framansögðu varð því sú, að ekki væri tilefni til athugasemda af minni hálfu vegna þess máls, sem kvörtun A laut að.