Starfssvið umboðsmanns Alþingis og skilyrði þess að umboðsmaður fjalli um kvörtun. Ársfrestur. Veiðileyfi bundið skilyrðum.

(Mál nr. 829/1993)

Máli lokið með bréfi, dags. 26. júlí 1993.

A bar fram kvörtun vegna meðferðar sjávarútvegsráðuneytisins á máli, er snerti kaup A á nýju skipi, X, í stað Y, er sökk 14. júlí 1988.

Með bréfi sjávarútvegsráðuneytisins 11. apríl 1991 var A tilkynnt, að ráðuneytið hefði ákveðið að veita X veiðileyfi til 15. júlí 1991, með nánar tilgreindum skilyrðum, og yrði þeim ekki fullnægt fyrir þann tíma, félli veiðileyfi X niður. Af gögnum með kvörtun A varð ekki annað ráðið en að sjávarútvegsráðuneytið hefði í óverulegu vikið frá skilyrðunum, þrátt fyrir óskir A um slíkt sumarið 1991. Þegar A bar fram kvörtun sína voru liðin rétt um tvö ár frá því að framangreind atvik áttu sér stað. Í bréfi mínu til A, dags. 26. júlí 1993, benti ég á, að samkvæmt 2. mgr. 6. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis skyldi kvörtun borin fram við umboðsmann innan árs frá því að "stjórnsýslugerningur sá, er um ræðir, var til lykta leiddur". Þar skipti ekki máli, þótt A hefði með bréfi 17. desember 1992 óskað eftir skýringum sjávarútvegsráðuneytisins á meðferð þess á málinu og ráðuneytið hefði gefið sínar skýringar með bréfi 14. janúar 1993. Yrði að telja, að mál það, er kvörtun A lyti að, hefði í skilningi 2. mgr. 6. gr. laga nr. 13/1987 verið til lykta leitt á árinu 1991. Í bréfi mínu til A greindi ég A frá því, að skilyrði brysti til þess, að ég gæti tekið kvörtun A til frekari athugunar.