Stjórnun fiskveiða. Ákvörðun meðalaflahlutdeildar báts eftir stækkun hans.

(Mál nr. 677/1992)

Máli lokið með bréfi, dags. 12. ágúst 1993.

A kvartaði yfir ákvörðun sjávarútvegsráðuneytisins um aflahlutdeild báts, sem hann hafði keypt sem flak, eftir bruna, og endurgert. Fyrri eigandi seldi endurnýjunarrétt bátsins, en A taldi sig hafa fengið þær upplýsingar hjá ráðuneytinu að báturinn myndi halda veiðiréttindum sínum. Eftir endurbætur var báturinn mældur 9,62 brl. í stað 8,59 brl. áður. Kvartaði A yfir því að bátnum hefði verið úthlutuð meðalaflahlutdeild báta af stærðinni 8 til 9 brl. en ekki 9 til 10 brl. Umboðsmaður tók fram að bátur A hefði fengið úthlutað aflahlutdeild, án þess að sambærilegur bátur hyrfi úr rekstri og taldi umboðsmaður ekki aðra skýringu komna fram á því, en að sjávarútvegsráðuneytið hefði talið rétt að veita bátnum áfram veiðileyfi, eins og sérstaklega stóð á. Umboðsmaður féllst á það með sjávarútvegsráðuneytinu að í ákvörðun um að veita veiðileyfi hefði ekki falist að báturinn ætti kost á rýmri aflaheimildum en hann hafði haft áður en hann brann. Varð því ekki séð að réttur hefði verið brotinn á A með þeirri ákvörðun, og var ekki talið skipta máli, þótt úthlutuná árinu 1990 hefði verið miðuð við 9 til 10 brl., þar sem miða bar við skráningu bátsins eins og hún var 22. janúar 1988, sbr. 11. gr. reglugerðar nr. 587/1989 um veiðar smábáta 1990.