Áfengismál. Áfengisauglýsingar. Jafnræðisreglan.

(Mál nr. 896/1993)

Máli lokið með bréfi, dags. 7. október 1993.

A leitaði til mín og kvartaði yfir því, að bannað væri að birta áfengisauglýsingar í tímaritum hér á landi, en á hinn bóginn væri heimilt að birta slíkar auglýsingar í erlendum tímaritum, sem flutt væru hingað til lands. Í bréfi mínu til A, dags. 7. október 1993, sagði meðal annars svo:

"Sá mismunur, sem þér vísið til í kvörtun yðar, byggist á undanþáguheimild í 1. tl. 3. gr. reglugerðar nr. 62/1989, en ákvæðið er svohljóðandi:

"Undanþegið banni við áfengisauglýsingum er:

1. Auglýsingar á erlendum tungumálum í erlendum prentritum, sem flutt eru til landsins, nema megintilgangur ritsins eða innflutningsins sé að auglýsa áfengi."

Í 4. mgr. 16. gr. áfengislaga nr. 82/1969 er svo fyrir mælt, að áfengisauglýsingar séu bannaðar. Í 5. mgr. ákvæðisins er síðan tekið fram, að ráðherra, þ.e. heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, skuli setja nánari ákvæði í reglugerð. Samkvæmt þessu hefur heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra heimild í lögum til þess að setja umrædda reglugerð. Útgáfa tímarita, sem gefin eru út erlendis af útlendum aðilum, er utan lögsögu íslenskra stjórnvalda, þótt svo sé ekki um flutning þeirra hingað til lands og dreifingu hérlendis. Tímarit, sem þannig hagar til um, verða því ekki lögð að jöfnu við tímarit, sem gefin eru út hér á landi. Að mínum dómi getur það ekki talist andstætt jafnréttisreglum stjórnsýsluréttar eða ákvæðum áfengislaga nr. 82/1969, að undanþiggja áfengisauglýsingar á "... erlendum tungumálum í erlendum prentritum, sem flutt eru til landsins..." frá framangreindu banni 16. gr. laganna.

Ég tjáði því A, að það væri niðurstaða mín, að ekki væri tilefni til þess, að ég hefði frekari afskipti af máli því, er kvörtun hans laut að.