Almannatryggingar. Þátttaka almannatrygginga í tannréttingum barna. Frestir.

(Mál nr. 849/1993)

Máli lokið með bréfi, dags. 29. mars 1994.
A kvartaði yfir synjun tryggingaráðs um greiðslu kostnaðar við tannréttingar barna hans. Fram kom, að A hafði sótt um endurgreiðslu eftir að frestur til þess rann út, samkvæmt bráðabirgðaákvæði í lögum nr. 1/1992, um ráðstafanir í ríkisfjármálum, en með þeim lögum var ákvæðum 44. gr. laga nr. 67/1971, um almannatryggingar, breytt, þannig að ekki yrði lengur um að ræða almenna þátttöku almannatrygginga í tannréttingum barna. Umboðsmaður taldi, að ekki hefði annað komið fram, en að kynning Tryggingastofnunar ríkisins á lagaákvæðum þessum hefði verið í samræmi við bráðabirgðaákvæðið, og úrskurður tryggingaráðs því í samræmi við lög.

Í bréfi mínu til A, dags. 28. mars 1994, vegna kvörtunar hans er laut að endurgreiðslu Tryggingastofnunar ríkisins á kostnaði vegna tannréttinga barna, tók ég eftirfarandi fram:

"1.

Með lögum nr. 1/1992 um ráðstafanir í ríkisfjármálum á árinu 1992 var ákvæðum 44. gr. laga nr. 67/1971 um almannatryggingar breytt, þannig að ekki var lengur um að ræða almenna þátttöku almannatrygginga í tannréttingum barna (Alþt. 1991, A-deild, bls. 1566). Í IV. bráðabirgðaákvæði laga nr. 1/1992 var gert ráð fyrir ákveðnum aðlögunartíma. Í ákvæðinu segir:

"Þrátt fyrir ákvæði 20. gr. laga þessara (44. gr. laga nr. 67/1971, um almannatryggingar, með síðari breytingum) skulu þeir sem njóta eiga endurgreiðslna á árinu 1991 samkvæmt reglum nr. 63/1991 um endurgreiðslu sjúkratrygginga af tannréttingakostnaði samkvæmt lögum um almannatryggingar njóta þess réttar áfram, enda teljist sannað að þeir hafi átt þennan rétt. Tryggingastofnun ríkisins skal fyrir 15. febrúar 1992 auglýsa með áberandi hætti eftir þeim aðilum sem telja sig eiga rétt samkvæmt framansögðu og ber þeim sem ekki hafa þegar sent inn umsóknir að gera það fyrir 15. mars 1992 á eyðublöðum sem stofnunin lætur í té. Að öðrum kosti fellur rétturinn niður. Greiðslum samkvæmt bráðabirgðaákvæði þessu skal ljúka 31. desember 1993."

Lög nr. 1/1992 voru síðan birt í Stjórnartíðindum 27. janúar 1992.

2.

Með bréfi 1. október 1993 óskaði ég eftir því, sbr. 7. og 9. gr. laga nr. 13/1987, að tryggingaráð skýrði afstöðu sína til kvörtunar yðar. Sérstaklega óskaði ég eftir skýringum tryggingaráðs á eftirtöldum atriðum:

"1)

Hvernig Tryggingastofnun ríkisins hafi fullnægt því skilyrði IV. ákvæðis til bráðabirgða í lögum nr. 1/1992 um ráðstafanir í ríkisfjármálum á árinu 1992, að stofnunin skyldi fyrir 15. febrúar 1992 "... auglýsa með áberandi hætti eftir þeim aðilum...", sem teldu sig eiga rétt til endurgreiðslu tannréttingarkostnaðar samkvæmt reglum nr. 63/1991 um endurgreiðslu sjúkratrygginga á tannréttingakostnaði samkvæmt lögum um almannatryggingar.

"2)

Hvort tilfellum B og C [sona A] hafi verið þannig háttað, að þeim hafi borið endurgreiðsla samkvæmt lögum nr. 67/1971 um almannatryggingar og reglum nr. 63/1991, ef umsókn hefði borist í tæka tíð, sbr. fyrrgreint IV. ákvæði til bráðabirgða í lögum nr. 1/1992."

Skýringar tryggingaráðs bárust mér með bréfi ráðsins 19. október 1993. Fram kemur í bréfi tryggingayfirtannlæknis frá 11. október 1993, sem fylgdi bréfi tryggingaráðs, að við meðferð tannskekkju sona yðar hefði tannskekkja, "...verið metin til endurgreiðslu 35% kostnaðar [og] við matið hefði fyrirvari verið gerður um hugsanlega breytingu á prósentuhlutfalli að afloknum tannskiptum bræðranna". Þá fylgdu skýringum tryggingaráðs ljósrit fréttatilkynningar frá 11. febrúar 1992 og auglýsinga, er munu hafa birst í fjölmiðlum 12. febrúar 1992.

Með bréfi 25. október 1993 óskaði ég eftir því, að þér senduð mér þær athugasemdir, sem þér telduð ástæðu að gera í tilefni af skýringum tryggingaráðs. Mér bárust athugasemdir yðar með bréfi 26. desember 1993.

3.

Eins og rakið er hér að framan, skyldi Tryggingastofnun ríkisins, fyrir 15. febrúar 1992, auglýsa með áberandi hætti eftir þeim aðilum, sem teldu sig eiga rétt á endurgreiðslu vegna tannréttinga, og skyldu þeir, sem ekki hefðu sent inn umsóknir, gera það fyrir 15. mars 1992 á tilskildum eyðublöðum. Samkvæmt gögnum málsins lögðuð þér fram umsóknir um endurgreiðslu tannréttingakostnaðar fyrir syni yðar 22. og 26. maí 1992. Var þá liðinn framangreindur frestur IV. bráðabirgðaákvæðis laga nr. 1/1992. Þá er það skoðun mín, að ekki hafi annað komið fram en kynning Tryggingastofnunar ríkisins á framangreindum lagabreytingum hafi verið í samræmi við nefnt bráðabirgðaákvæði.

4.

Samkvæmt framansögðu er það niðurstaða mín, að úrskurður tryggingaráðs frá 7. maí 1993 hafi verið í samræmi við lög og er afskiptum mínum af kvörtun yðar því lokið hér með.

Að því leyti sem kvörtun yðar kann að lúta að einstökum fyrirmælum laga nr. 1/1992, skal bent á, að lög nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis gera almennt ekki ráð fyrir því, að umboðsmaður fjalli um lagasetningu Alþingis eða hvernig til hafi tekist með henni."