Námslán og námsstyrkir. Endurgreiðsla námslána. Tekjur maka. Jafnræðisregla. Lagaskil.

(Mál nr. 1013/1994)

Máli lokið með bréfi, dags. 19. apríl 1994.

A kvartaði við umboðsmann yfir þeirri ákvörðun Lánasjóðs íslenskra námsmanna að tekið skyldi tillit til tekna eiginkonu hans við útreikning endurgreiðslna námsláns. Lán til A var veitt samkvæmt lögum nr. 57/1976, um námslán og námsstyrki, en samkvæmt þeim lögum réð hjúskaparstaða við endurgreiðslu því við hvaða tekjur væri miðað. Í bréfi til A lýsti umboðsmaður því að þótt litið væri á hjón og sambýlisfólk sem einstaklinga varðandi endurgreiðslu námslána samkvæmt nýrri lögum, nr. 72/1982, giltu þau lög eingöngu um lán sem veitt væru samkvæmt þeim. Önnur niðurstaða hefði verið lántakendum í óhag. Þá tók umboðsmaður það fram, í tilefni af kvörtun A, að það væri í samræmi við jafnræðissjónarmið að gera ekki greinarmun á stöðu hjóna eftir ríkisfangi. Þar sem afgreiðsla Lánasjóðs íslenskra námsmanna hefði byggst á skýrri heimild eldri laga og verið í samræmi við hana taldi umboðsmaður ekki ástæðu til frekari afskipta af kvörtun A.

Í bréfi mínu til umboðsmanns A, dags. 19. apríl 1994, vegna kvörtunar hans yfir ákvörðun Lánasjóðs íslenskra námsmanna, um endurgreiðslu námsláns A, sagði:

"Ég vísa til kvörtunar þeirrar, sem þér báruð fram fyrir hönd A 14. febrúar 1994 yfir þeirri ákvörðun Lánasjóðs íslenskra námsmanna frá 22. október 1993, að synja því, að endurgreiðslur námslána hans miðuðust eingöngu við tekjur hans, en ekki tekjur eiginkonu hans líka. Þér teljið, að óréttlátt sé að tekjur eiginkonu A skipti máli við útreikning endurgreiðslnanna þar sem hún sé erlendur ríkisborgari, og þau bæði búsett erlendis.

Lán það, sem um er að ræða, var veitt skv. lögum nr. 57/1976 um námslán og námsstyrki. Í þeim lögum segir í 2. og 3. mgr. 8. gr.:

"Hafi lánþegi haft hærri vergar tekjur til skatts, sbr. 25. gr. laga nr. 68/1971, sbr. og 9. gr. laga nr. 11/1975, næsta ár á undan afborgunarári en nemur viðmiðunartekjum þess árs, sbr. 9. gr., skal hann greiða aukaafborgun skv. 3. mgr. 9. gr. auk afborgunar skv. 1. mgr. þessarar greinar. Aukaafborgunin skal þó aldrei vera svo há að samanlögð upphæð afborgunar skv. 1. mgr. og aukaafborgunar nemi meiru en 10% vergra tekna til skatts.

Við útreikning aukaafborgana skal miðað við vergar tekjur hjóna samanlagðar. Ákvæði þessarar málsgreinar eiga einnig við um sambýlisfólk sem skattlagt er skv. 1. málslið 5. mgr. B-liðar 25. gr. laga nr. 68/1971, sbr. 9. gr. laga nr. 11/1975."

Í 1. og 2. mgr. 9. gr. laganna eru svohljóðandi ákvæði:

"Viðmiðunartekjur skv. 2. mgr. 8. gr. skulu fyrir einhleyping vera helmingur "grunntölu framfærslukostnaðar". "Grunntala framfærslukostnaðar" svarar í þessu sambandi til heildarútgjalda skv. A- og B-hlutum í grundvelli vísitölu framfærslukostnaðar í maíbyrjun árið áður en aukaafborgun skv. 2. mgr. 8. gr. skal fara fram.

Viðmiðunartekjur hjóna skulu á sama hátt nema þrem fjórðu hlutum "grunntölu framfærslukostnaðar". Að auki skal bætt við viðmiðunartekjur lánþega einum áttunda af "grunntölu framfærslukostnaðar" fyrir hvert barn sem hann hefur á framfæri sínu, sbr. C-lið 25. gr. laga nr. 68/1971, sbr. 9. gr. laga nr. 11/1975, og eigi er fullra 16 ára í byrjun þess árs er aukaafborgun skal fara fram."

Samkvæmt framangreindum lagaákvæðum ræður hjúskaparstaða við endurgreiðslu úrslitum, en ekki hvort maki eða sambýlismaður hafi einnig notið góðs af námslánunum. Ekki skiptir ríkisfang maka eða sambýlismanns máli, og er það í samræmi við jafnræðissjónarmið að gera ekki greinarmun á stöðu hjóna eftir ríkisfangi annars þeirra.

Í greinargerð með frumvarpi því, sem varð að lögum nr. 57/1976, er ekki að finna skýringar á þeim sjónarmiðum, sem búa því að baki, að tekið skuli tillit til tekna beggja hjóna (Alþt. 1975-76, A-deild, bls. 1289). Í lögum nr. 72/1982 um námslán og námsstyrki er horfið frá því að tengja endurgreiðslur lánþega við tekjur maka. Um þá breytingu segir í athugasemdum við 8. gr. frumvarpsins:

"Í samræmi við nútíma jafnréttishugmyndir er litið á hjón, svo og sambýlisfólk, sem sjálfstæða einstaklinga þegar um er að ræða endurgreiðslur námslána.

Óréttlæti, sem af því kynni að hljótast, yrði unnt að leiðrétta með því að veita öðru hjóna eða báðum undanþágu frá fastri ársgreiðslu" (Alþt. 1981-82, A-deild, bls. 1039).

Lög 72/1982 gilda eingöngu um lán, sem veitt eru samkvæmt þeim lögum. Um lán, sem fyrr eru tekin, gilda eftir sem áður lög 57/1976. Önnur niðurstaða hefði að mestu leyti verið lántakendum stórlega í óhag, þar sem greiðslur voru hækkaðar og endurgreiðslutími styttur með lögum nr. 72/1982. Þá voru umrædd ákvæði laga nr. 57/1976 einnig í greiðsluskilmálum skuldabréfsins, sem A undirritaði. Löggjafinn tók þá ákvörðun að hrófla ekki við greiðsluskilmálum eldri lána að þessu leyti. Það er almennt ekki í verkahring umboðsmanns Alþingis að fjalla um kvartanir út af lögum, sem Alþingi hefur sett, þar sem starfssvið hans tekur til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga, sbr. 2. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis.

Það er því niðurstaða mín í þessu máli, að afgreiðsla Lánasjóðs íslenskra námsmanna byggist á skýrri lagaheimild og sé í samræmi við hana. Tel ég því ekki ástæðu til frekari afskipta minna af því, sbr. a-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis."