Opinberir starfsmenn. Ofgreidd laun. Skilyrði endurkröfu. Skilyrði skuldajafnaðar.

(Mál nr. 665/1992)

Máli lokið með áliti, dags. 2. maí 1994.

A kvartaði yfir endurkröfu fjármálaráðuneytisins á hendur henni vegna ofgreiddra launa. A höfðu fyrir mistök verið ofgreidd laun í október árið 1988, en af hálfu fjármálaráðuneytisins var brugðist við mistökunum með því að skuldajafna orlofslaunum við hin ofgreiddu laun í desember 1988. Í apríl 1992 var A síðan krafin um endurgreiðslu eftirstöðva hinna ofgreiddu launa.

Umboðsmaður taldi að þegar laun væru ofgreidd vegna misskilnings launagreiðanda yrðu þau yfirleitt ekki endurheimt úr hendi grandlauss viðtakanda. Þá yrði að krefjast þess að launagreiðandi sýndi ekki verulegt tómlæti um endurkröfu sína. Vegna aðstæðna í máli þessu yrði naumast fullyrt að A hefði mátt vera ljóst að henni hefðu verið ofgreidd laun eða að hún hefði átt þátt í því að svo var gert. Taldi umboðsmaður að fjármálaráðuneytið hefði ekki öðlast endurkröfu á hendur A og að þegar af þeirri ástæðu væri ekki grundvöllur fyrir kröfum á hendur A.

Um skuldajöfnuð á orlofslaunum við endurkröfu fjármálaráðuneytisins tók umboðsmaður fram að almenn skilyrði skuldajafnaðar hefðu ekki verið fyrir hendi þar sem krafan um orlofslaun var ekki fallin í gjalddaga, sbr. 7. gr. orlofslaga nr. 30/1987, en auk þess taldi umboðsmaður almennt óheimilt að nota orlofslaun til skuldajafnaðar, vegna eðlis orlofsréttinda og þeirra meginreglna sem 13. gr. og 2. mgr. 2. gr. orlofslaga væru byggðar á.

I.

Hinn 1. september 1992 barst mér kvörtun A, yfir því að fjármálaráðuneytið hefði með bréfum, dags. 6. apríl og 11. ágúst 1992, krafið hana um greiðslu á kr. 11.395, þar sem henni hefðu verið ofgreidd laun á árinu 1988.

II.

Málavextir eru þeir, að hinn 14. október 1988 voru A fyrir mistök ofgreidd laun. Af hálfu starfsmannaskrifstofu fjármálaráðuneytisins var brugðist við þessum mistökum hinn 1. desember 1988 með því að taka þau orlofslaun, sem A hafði áunnið sér frá 1. maí 1988, og láta þau ganga upp í þá fjárhæð, sem ofgreidd var. Með bréfi, dags. 6. apríl 1992, krafði starfsmannaskrifstofan síðan A um endurgreiðslu eftirstöðva hinna ofgreiddu launa, að fjárhæð kr. 11.395. Í bréfi þessu segir m.a. svo:

"Skuld þessi stafar af því að þér fenguð greidd mánaðarlaun til 30.09.1988 í stað þess að falla út af launaskrá frá og með 05.09.1988. Nam ofgreiðslan kr. 40.920.- að frádregnum lífeyrissjóði kr. 1.637.- og félagsgjöldum kr. 307.- eða samtals kr. 38.976.- er voru dregnar út af orlofsreikningi yðar hjá póstgíróstofunni þann 01.12.1988. Innistæðan dugði ekki fyrir ofgreiðslunni, svo eftir eru kr. 11.395.-."

Krafan um endurgreiðslu var síðan ítrekuð með bréfi, dags. 11. ágúst 1992.

III.

Í áliti mínu gerði ég eftirfarandi grein fyrir bréfaskriftum mínum við fjármálaráðuneytið, og svörum ráðuneytisins:

"Ég ritaði fjármálaráðherra bréf, dags. 14. september 1992, og óskaði þess að ráðuneytið skýrði viðhorf sitt til kvörtunar A og léti mér gögn málsins í té. Ég óskaði þess sérstaklega að ráðuneytið skýrði, á grundvelli hvaða laga það teldi sig hafa haft heimild til þess að taka greiðslu af orlofsreikningi A hjá póstgíróstofunni hinn 1. desember 1988 upp í hin ofgreiddu laun. Með bréfum, dags. 4. desember 1992, 29. desember 1992, 26. janúar 1993 og 26. febrúar 1993, ítrekaði ég þessi tilmæli mín til ráðuneytisins.

Með bréfi, dags. 12. mars 1993, kvaðst ráðuneytið ekki enn hafa fengið öll gögn málsins í hendur, en gerði ráð fyrir að gagnaöflun lyki innan þriggja vikna.

Svör ráðuneytisins bárust mér með bréfi, dags. 29. apríl 1993, og segir þar:

"Málavextir eru þeir að í tengslum við skipulagsbreytingar á rekstri mötuneytis við [...] var [A] sagt upp störfum, með bréfi dags. 13. maí 1988, mótteknu af henni 16. maí 1988. Í því bréfi kemur fram að starfslok hennar verði þann 31. ágúst 1988. Starfsmannaskrifstofu fjármálaráðuneytis var ekki kunnugt um þessa uppsögn.

Starfsmannaskrifstofu var aftur á móti send tilkynning um veikindaforföll, dags. 07.07. 1988, ásamt læknisvottorði sem dags. var 08.06. 1988. Hóf starfsmannaskrifstofa þá að greiða henni laun vegna vinnuslyss eins og vottorðið bar með sér. Samkvæmt því vottorði átti hún rétt til launa til og með 04.09. 1988, skv. kjarasamningi starfsmannafélagsins Sóknar sem hún tók laun eftir. Vegna misskilnings þess starfsmanns sem afgreiddi laun hennar var hún einungis talin eiga rétt til launa til og með 07.08. 1988 og féllu launagreiðslur til hennar niður frá og með 08.08. 1988.

Þann 17.08. 1988 berst svo starfsmannaskrifstofu fjármálaráðuneytis tilkynning um brotthvarf úr starfi, þar sem fram kemur að [A] láti af störfum þann 31.08. 1988. Þann 05.10. 1988 berst starfsmannaskrifstofu svo vottorð læknis dags. 28.09. 1988 þar sem hún er sögð óvinnufær til og með 03.09. 1988. Vegna þeirrar túlkunar Vinnuveitendasambands Íslands að starfsmaður sem slasast við vinnu skuli njóta fullra veikindaréttinda óháð ráðningarslitum (sjá bækling VSÍ um laun í veikindum útgefinn í desember 1990) átti [A] rétt til launa lengur en sem nam uppsagnarfresti. Þann 14.10. 1988 voru því laun hennar leiðrétt miðað við seinna læknisvottorðið en þá tókst ekki betur til en svo að henni voru greidd laun út september 1988 í stað þess að greiða henni laun frá og með 08.08. 1988 til og með 04.09. 1988. Voru henni því ofgreidd laun sem svöruðu til 85% af mánaðarlaunum hennar. Það var svo leiðrétt þann 01.12. 1988. Í þeirri leiðréttingu voru svo gerð þau mistök að láta orlofsuppgjör, vegna þess orlofs sem hún hafði áunnið sér frá 01.05. 1988, ganga upp í þá skuld sem til hafði komið við fyrri mistök. Starfsmannaskrifstofu fjármálaráðuneytis er ljóst að ekki var rétt staðið að uppgjöri og hefur gert ráðstafanir til að slíkt endurtaki sig ekki.

Hvað varðar þá kvörtun [A] að hún skuli endurkrafin um ofgreidd laun, þá telur starfsmannaskrifstofa fjármálaráðuneytis að slík kvörtun sé ekki réttmæt. [A] var, eða mátti vera ljóst, með vísan til þess sem að ofan er rakið, að hún átti ekki rétt á þeim launum sem henni voru greidd þann 14.10. 1988."

Hinn 12. ágúst 1993 ritaði ég fjármálaráðuneytinu á ný og óskaði eftir upplýsingum um það, í hverju þær ráðstafanir starfsmannaskrifstofu fjármálaráðuneytisins væru fólgnar, sem hefðu verið gerðar til þess að ekki endurtækju sig þau mistök, að láta orlofsuppgjör ganga upp í skuldir. Jafnframt óskaði ég að ráðuneytið upplýsti, hvort það hygðist fylgja eftir fjárkröfum sínum á hendur A. Þessar óskir ítrekaði ég með bréfi, dags. 12. október 1993.

Svar ráðuneytisins barst mér með bréfi, dags. 21. desember 1993. Í því kom m.a. eftirfarandi fram:

"Í hverri viku er haldinn fundur deildarstjóra starfsmannaskrifstofu, þar sem fyrir eru tekin mál er varða rekstur skrifstofunnar og framkvæmd launaafgreiðslu. Á fundi þann 02.04.1993, sem fylgir í myndriti, var m.a. á dagskrá reglur vegna afturköllunar launa úr banka og af orlofsreikningum Vegna máls [A] var talið eðlilegt að afturköllun af orlofsreikningum yrði felld undir sömu reglur og bankareikningar og var deildarstjóra launaafgreiðslu falið að tilkynna starfsmönnum sínum það, þannig að þeir færu strax að starfa í þeim anda, en formlegar vinnureglur yrðu svo settar um leið og sambærilegar reglur yrðu settar varðandi bankareikninga.

Fjármálaráðuneytið mun innheimta hin ofgreiddu laun samkvæmt þeim vinnureglum sem mótaðar hafa verið í samvinnu og samkvæmt fyrirmælum ríkisbókhalds og ríkisendurskoðunar.""

Hinn 12. ágúst 1993 og 24. febrúar 1994 ritaði ég Póst- og símamálastofnuninni bréf og óskaði eftir því, að mér yrðu veittar tilteknar upplýsingar, er snertu meðferð Póstgíróstofunnar á orlofsreikningum. Svör Póst- og símamálastofnunarinnar bárust mér með bréfum, dags. 18. október 1993 og 10. mars 1994.

Í forsendum og niðurstöðu álits míns, dags. 2. maí 1994, sagði:

"IV.

Eins og hér að framan greinir, voru A fyrir mistök ofgreidd laun að fjárhæð kr. 40.920 hinn 14. október 1988. Af því tilefni voru þau orlofslaun, sem A hafði áunnið sér frá 1. maí 1988, látin ganga upp í þá fjárhæð, sem ofgreidd var. A hefur síðan verið krafin um endurgreiðslu eftirstöðva hinna ofgreiddu launa, kr. 11.395. Kvartar A yfir því að fjármálaráðuneytið sé að krefja hana um eftirstöðvar hinna ofgreiddu launa, þar sem svo langt sé um liðið frá greiðslu þeirra.

Þegar laun eru ofgreidd vegna misskilnings launagreiðanda um staðreyndir, verða þau yfirleitt ekki endurheimt úr hendi grandlauss launþega. Hafi launþegi aftur á móti verið grandsamur um ofgreiðsluna, getur launagreiðandi átt rétt til endurheimtu þess fjár, sem ofgreitt var. Það sama á við, hafi launagreiðandi ofgreitt laun vegna rangra upplýsinga frá launþega eða annarra sambærilegra tilvika. Vegna eðlis launagreiðslna og þess aðstöðumunar, sem almennt er á milli launagreiðanda og launþega við uppgjör og útreikninga launa, verður þó að gera þá kröfu, að ekki verði verulegur dráttur á endurheimtu ofgreiddra launa. Verður að ganga út frá því að verulegt tómlæti launagreiðanda í þessu efni leiði til brottfalls endurkröfu hans. Loks ber að hafa í huga, að samkvæmt 5. tölul. 3. gr. laga nr. 14/1905, um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda, fyrnast á fjórum árum kröfur um endurgjald á því, sem greitt hefur verið í rangri ímynd um skuldbindingu.

Eins og fram kemur í bréfi fjármálaráðuneytisins, dags. 29. apríl 1993, lét A af störfum hinn 31. ágúst 1988. Þar sem hún var þá óvinnufær, naut hún veikindaréttinda óháð starfslokum og átti hún því rétt til launa nokkru lengur en sem nam uppsagnarfresti, sbr. bréf fjármálaráðuneytisins frá 29. apríl 1993. Eins og hér stóð því á og með tilliti til þeirrar fjárhæðar, sem ofgreidd var, verður naumast fullyrt, að A hafi mátt vera ljóst, að henni hefðu verið ofgreidd laun. Þá verður heldur ekki séð, að henni verði á nokkurn hátt um það kennt, að laun voru ofgreidd. Að framansögðu athuguðu og með hliðsjón af þeim gögnum, sem fyrir mig hafa verið lögð, verður að telja, að fjármálaráðuneytið hafi ekki öðlast endurkröfu vegna hinna ofgreiddu launa. Þegar af þessari ástæðu er ekki grundvöllur fyrir endurkröfu fjármálaráðuneytisins, sem A kvartar yfir. Þá má einnig benda á, að þótt gengið væri út frá þeirri forsendu, að fjármálaráðuneytið hefði eignast endurkröfu á hendur A, væri sú krafa fyrnd, sbr. 5. tölul. 3. gr. laga nr. 14/1905, um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda.

Hinn 1. desember 1988 var ákveðið af hálfu fjármálaráðuneytisins að orlofslaun, sem A hafði áunnið sér frá 1. maí 1988, yrðu tekin upp í þá fjárhæð, sem ofgreidd var. Þó að A hafi ekki kvartað yfir þessari ráðstöfun ráðuneytisins, skal áréttað, að þótt fjármálaráðuneytið hefði átt endurkröfu á hendur A vegna hinna ofgreiddu launa, var ráðuneytinu óheimilt að skuldajafna endurkröfunni við áunnin orlofslaun A. Í fyrsta lagi er rétt að benda á, að almenn skilyrði skuldajafnaðar voru ekki einu sinni fyrir hendi, eins og hér stóð á, þar sem krafan um orlofslaun var ekki í gjalddaga fallin, sbr. 7. gr. orlofslaga nr. 30/1987. Í öðru lagi verður að telja að almennt sé óheimilt að nota orlofslaun til skuldajafnaðar vegna eðlis orlofsréttinda svo og þeirra meginreglna, sem 13. gr. og 2. mgr. 2. gr. orlofslaga nr. 30/1987 eru byggðar á.

V.

Niðurstaða

Samkvæmt framansögðu verður því að telja, að fjármálaráðuneytið hafi ólöglega tekið greiðslu af orlofslaunum A.

Það er ennfremur niðurstaða mín, að ekki séu lagaskilyrði til þess að fjármálaráðuneytið krefji A um greiðslu á kr. 11.395, og eru það tilmæli mín til ráðuneytisins, að það falli frá þessari innheimtu."

VI.

Með bréfi, dags. 4. nóvember 1994, óskaði ég eftir upplýsingum hjá fjármálaráðherra um það, hvort einhverjar ákvarðanir hefðu verið teknar í framhaldi af áliti mínu. Svar fjármálaráðuneytisins, dags. 21. nóvember 1994, hljóðar svo:

"Fjármálaráðuneyti/starfsmannaskrifstofu hefur borist bréf yðar, dags. 4. nóvember s.l. Í bréfinu er óskað eftir upplýsingum um, hvort einhverjar ákvarðanir hafi verið teknar í tilefni ef áliti yðar í máli [A] (mál nr. 665/1992).

Af því tilefni tilkynnist yður hér með að krafa á hendur [A] um endurgreiðslu á ofgreiddum launum var felld niður hjá ráðuneytinu árið 1992, í samræmi við reglur um fyrningu launakrafna og vinnureglur sem mótaðar voru í samvinnu og eftir fyrirmælum ríkisbókhalds og ríkisendurskoðunar.

Að því er varðar aðrar ákvarðanir ráðuneytisins sem teknar hafa verið vegna máls þessa, vísast til bréfs ráðuneytisins til yðar, frá 21. desember 1993."