Opinberir starfsmenn. Uppsögn ríkisstarfsmanns. Málefnaleg sjónarmið.

(Mál nr. 881/1993)

Máli lokið með bréfi, dags. 25. júlí 1994.

A kvartaði yfir starfslokum sínum hjá Orðabók Háskólans. A var sagt upp störfum, með þriggja mánaða fyrirvara, í samræmi við ákvæði í ráðningarsamningi. A taldi hins vegar að staðan hefði verið lögð niður í sparnaðarskyni og fór fram á greiðslu biðlauna. Í vottorði vinnuveitanda kom fram að A hefði látið af störfum vegna endurskipulagningar, en jafnframt kom fram í skýringum Orðabókar Háskólans að annar starfsmaður hefði verið ráðinn til Orðabókarinnar, sem talinn hefði verið hæfari.

Í bréfi til A lýsti umboðsmaður þeirri skoðun sinni að af gögnum málsins, fyrrgreindu vottorði, ráðningarsamningum og uppsagnarbréfum, yrði ekki dregin sú ályktun að staðan hefði verið lögð niður. Þá benti umboðsmaður á að heimilt hefði verið samkvæmt ráðningarsamningi að segja A upp störfum með þriggja mánaða fyrirvara. Ákvörðun um slíka uppsögn yrði þó að vera byggð á málefnalegum sjónarmiðum. Það sjónarmið að segja starfsmanni upp störfum til að ráða mætti annan hæfari varð samkvæmt grundvallarreglum stjórnsýsluréttar ekki talið ómálefnalegt. Þar sem könnun umboðsmanns hafði ekki leitt í ljós að niðurstaða Háskólans væri að öðru leyti reist á ómálefnalegum sjónarmiðum taldi umboðsmaður ekki ástæðu til athugasemda í tilefni af kvörtun A.

Í bréfi mínu til A, dags. 25. júlí 1994, lýsti ég athugun minni á kvörtun hans, sem laut að starfslokum hjá Orðabók Háskólans. Í bréfinu segir:

"1.

Málavextir eru þeir, að 10. janúar 1991 gerðuð þér ráðningarsamning við utanríkisráðuneytið. Orðabók Háskólans sagði þeim samningi upp 23. september sama árs, frá og með 1. janúar 1992, með þessum skýringum: "Á þessu stigi er ekki ljóst hvort samningurinn [við utanríkisráðuneytið] verður endurnýjaður en ef svo verður er fullvíst að um verulegan samdrátt í þýðingarstarfinu verður að ræða." Hinn 17. október 1991 var undirritaður nýr ráðningarsamningur milli yðar og Orðabókar Háskólans með gagnkvæmum þriggja mánaða uppsagnarfresti og tekið fram að starfið hefjist 1. janúar 1992. Hinn 25. september 1992 er yður sagt upp með svohljóðandi bréfi: "Í samræmi við ákvæði í ráðningarsamningi þínum við Orðabók Háskólans dagsettum 1.1.1992 um gagnkvæman þriggja mánaða uppsagnarfrest er þér [hér] með sagt upp störfum frá og með 1. janúar 1993 að telja. Við þökkum þér ánægjulegt samstarf."

Hinn 11. júní 1993 óskið þér með bréfi úrskurðar Háskólaráðs um það, hvort staða yðar hafi verið lögð niður. Ástæða uppsagnarinnar hafi ekki verið tilgreind og því sé það óljóst. Teljist staðan hafa verið lögð niður í sparnaðarskyni, viljið þér vita, hvort þér eigið ekki rétt á biðlaunum. Kæra yðar var afgreidd á háskólaráðsfundi 26. ágúst 1993. Segir í bókun fundarins:

"Upp var tekið frá síðasta fundi mál [A], fyrrum starfsmanns Orðabókar Háskólans. Inn á fundinn kom [...], formaður stjórnar Orðabókar Háskólans, og greindi frá málinu frá sjónarhóli stjórnarinnar. Háskólaráð féllst á þá skýringu sem fram kom í bréfi stjórnar Orðabókar Háskólans, dags. 11. júlí sl., og fól rektor að svara bréfi [A]."

Í bréfi frá Orðabók Háskólans til rektors, dags. 13. júlí 1993, segir:

"Með vísan til að [A] hefur snúið sér til Háskólaráðs skal eftirfarandi tekið fram:

1. [A] var sagt upp með þriggja mánaða fyrirvara í samræmi við ákvæði þar að lútandi í ráðningarsamningi hans.

2. Annar starfsmaður, [B], BA, var ráðin í stað [A] og hóf störf á Orðabók Háskólans 1.1.1993. Þessi ráðstöfun breytti engu um fjölda stöðugilda við Orðabók Háskólans.

3. Af framansögðu er ljóst að kröfur [A] til biðlauna eiga ekki rétt á sér."

2.

Ég óskaði eftir gögnum málsins með bréfi til rektors Háskóla Íslands, dags. 23. september 1993. Þau bárust mér 9. desember 1993. Með bréfi, dags. 14. desember 1993, óskaði ég skýringa á eftirtöldum atriðum:

"1.

Til hvaða starfa [A] hafi verið ráðinn samkvæmt þeim ráðningarsamningum, sem við hann hafi verið gerðir, og hver hafi í reynd verið störf hans hjá Orðabók Háskólans.

"2.

Hvort starfsmaður sá, sem ráðinn var í stað [A], hafi tekið við störfum [A]. Hafi svo verið, óska ég eftir því, að gerð verði grein fyrir þeim sjónarmiðum, sem lágu til grundvallar uppsögn [A]."

Í svarbréfi, dags. 24. janúar 1994, er vísað í bréf, stjórnarformanns Orðabókar Háskólans til framkvæmdastjóra starfsmannasviðs Háskóla Íslands. Í því koma fram eftirfarandi svör við spurningum mínum:

"1) Í ráðningarsamningi [A] kemur ekki fram að hann sé ráðinn til tiltekinna starfa hjá Orðabók Háskólans og á það reyndar við um alla starfsmenn stofnunarinnar. Forstöðumaður fer með daglega verkstjórn á Orðabók Háskólans og ákvarðaði því störf [A] líkt og annarra. Á starfstíma sínum gegndi [A] ýmsum störfum, m.a. ritstjórnarvinnu, orðtöku og umsjón með textasafni.

2) Ástæða þess að annar maður var ráðinn í stað [A] var sú að það var talið þjóna hagsmunum stofnunarinnar þar sem sá er kom í hans stað var talinn hæfari en [A]."

Með bréfi 21. mars 1994 fór ég þess á leit við háskólarektor, að hann léti mér í té upplýsingar um, hvenær B hefði hafið störf hjá Orðabók og hvort hún starfaði þar enn. Jafnframt óskaði ég upplýsinga um, hvort starfsmönnum Orðabókar Háskólans hefði fækkað í kjölfar þess, að þér létuð af störfum hjá stofnuninni. Mér bárust umbeðnar upplýsingar með bréfi Háskóla Íslands 28. apríl 1994. Í bréfi Háskólans var vísað til bréfs formanns stjórnar Orðabókar Háskólans frá 30. mars 1994, en þar segir:

"1)

Samkvæmt meðfylgjandi afriti af ráðningarsamningi, dagsettum 28. október 1992, hófst það starf, sem [B] enn gegnir við Orðabók Háskólans fyrsta janúar 1993.

"2)

Samkvæmt meðfylgjandi fylgiblaði með ráðningarsamningi, dagsettu 2. nóvember 1992, kom [B] í stað [A] og hafði því ráðning hennar engin áhrif á fjölda starfsmanna á Orðabók Háskólans."

Athugasemdir yðar við framangreint bréf bárust mér 19. maí s.l. Á fundi, er ég átti með framkvæmdastjóra starfsmannasviðs Háskólans og formanni stjórnar Orðabókar Háskólans 18. júlí s.l., bárust mér frekari upplýsingar um mál það, er kvörtun yðar lýtur að.

3.

Meðal gagna málsins, sem þér hafið lagt fram, er vottorð vinnuveitanda, dags. 7. janúar 1993, undirritað af f.h. Orðabókar Háskólans. Þar kemur fram, að þér hafið látið af störfum "vegna endurskipulagningar". Vottorð þetta er gefið út í tengslum við umsókn um atvinnuleysisbætur.

Ég tel, að sú ályktun verði ekki dregin af þessu vottorði eða af öðrum gögnum málsins, ráðningarsamningum og uppsagnarbréfum, að staða yðar hafi verið lögð niður frá 1. janúar 1993. Einnig kemur fram á fylgiblaði með ráðningarsamningi B, dags. 9. nóvember 1993, að hún komi í stað yðar.

Samkvæmt ráðningarsamningi var heimilt að segja yður upp störfum með þriggja mánaða fyrirvara. Ákvörðun um slíka uppsögn varð aftur á móti að vera byggð á málefnalegum sjónarmiðum. Fram kemur í bréfi Orðabókar Háskólans til mín, dags. 24. janúar 1994, að yður hafi verið sagt upp störfum svo hægt væri að ráða starfsmann, sem talinn var hæfari. Samkvæmt grundvallarreglum stjórnsýsluréttar verður ekki talið, að þetta sjónarmið sé ómálefnalegt. Þar sem könnun mín hefur ekki leitt í ljós, að niðurstaða Háskólaráðs sé að öðru leyti reist á ómálefnalegum sjónarmiðum, tel ég ekki ástæðu til athugasemda af minni hálfu. Er afskiptum mínum af máli þessu því lokið, sbr. a-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis."