Ríkisábyrgð á launum. Lög um ríkisábyrgð á launum. Vinnulaunakrafa framkvæmdastjóra.

(Mál nr. 1022/1994)

Máli lokið með bréfi, dags. 21. mars 1994.
A kvartaði yfir því að félagsmálaráðuneytið hefði hafnað kröfu hans um að hnekkja ákvörðun Ábyrgðarsjóðs launa, en ábyrgðarsjóðurinn hafði synjað vinnulaunakröfu A vegna gjaldþrots B hf. þar sem hann hefði verið framkvæmdastjóri fyrirtækisins. Í bréfi til A gerði umboðsmaður honum grein fyrir því að ekki væri heimilt samkvæmt d-lið 6. gr. laga nr. 53/1993 að veita undanþágu vegna framkvæmdastjóra fyrirtækis, en greinin ætti við um kröfur tiltekinna ættingja þrotamanns. Yrði því ekki annað séð en að félagsmálaráðuneytið hefði farið að lögum í málinu.

Þann 17. febrúar 1994 kvartaði A yfir þeirri niðurstöðu félagsmálaráðuneytisins, að hafna kröfu hans um að hnekkt yrði synjun stjórnar Ábyrgðarsjóðs launa um greiðslu vinnulaunakröfu A vegna gjaldþrots B h.f.

Í bréfi, dags. 21. mars, gerði ég A grein fyrir því, að ég teldi synjun félagsmálaráðuneytisins í samræmi við lög og að því væru ekki skilyrði til þess að ég tæki kvörtun hans til frekari athugunar. Í bréfinu sagði:

"Kröfu yðar var hafnað með tilvísun til c-liðar 6. gr. laga nr. 53/1993, þar sem þér hefðuð verið framkvæmdastjóri fyrirtækisins. Áður giltu lög 52/1992 og 88/1990 um þetta efni og eru ákvæði þessara laga efnislega þau sömu. Í d-lið 6. gr. laga nr. 53/1993 er undantekningarákvæði um greiðslur úr sjóðnum, sem ekki er hægt að skýra svo, að það eigi við um aðra en þá, sem um er fjallað í þeim lið. Könnun á lögskýringargögnum styður þessa niðurstöðu. Með lögum nr. 7/1990 voru gerðar breytingar á lögum nr. 23/1985 um ríkisábyrgð á launum, sem síðar voru endurútgefin sem lög nr. 88/1990. Í greinargerð með frumv. til laga nr. 7/1990 segir í athugasemdum við þá grein frumvarpsins, sem varð að 6. gr. laga nr. 88/1990:

"Hér er um að ræða undantekningar frá greiðsluskyldu ríkissjóðs. Í d-lið greinarinnar, sem fjallar um kröfur tiltekinna ættingja þrotamanns, er lagt til að tekin verði upp sérstök heimild til handa félagsmálaráðherra til að ákveða greiðslur úr ríkissjóði vegna krafna sem ella mundu falla utan ríkisábyrgðar ef sú niðurstaða þykir verulega ósanngjörn. " (Alþt. A-deild, 1989-90, bls. 2655.)

Verður samkvæmt framangreindu ekki séð að heimilt sé að gera undanþágu varðandi framkvæmdastjóra, þótt sérstaklega standi á, en sambærilegt undanþáguákvæði er ekki að finna í c-lið 6. gr. laganna.

Tekið skal fram, að sú úrlausn skiptastjóra að krafa yðar sé forgangskrafa hefur ekki áhrif á greiðsluskyldu skv. 6. gr. laganna, enda er hvort um sig sjálfstætt úrlausnarefni.

Það verður því ekki annað séð en að félagsmálaráðuneytið hafi farið að lögum í máli þessu, þar sem það hafði ekki heimild til þess að veita undanþágu fyrir framkvæmdastjóra.

Þá skal tekið fram, að umboðsmaður Alþingis fjallar almennt ekki um lagasetningu Alþingis, sbr. 2. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis og 3. gr. reglna nr. 82/1988 um störf og starfshætti umboðsmanns Alþingis.

Það er því niðurstaða mín, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis, að ekki sé tilefni til frekari athugunar á kvörtun yðar."