Skattar og gjöld. Kæra til skattstjóra. Frestir til afgreiðslu mála.

(Mál nr. 934/1993)

Máli lokið með bréfi, dags. 17. febrúar 1994.

Samkvæmt 99. gr. laga nr. 75/1981 skal skattstjóri hafa úrskurðað um kærur innan tveggja mánaða frá lokum kærufrests. Samkvæmt 118. gr. sömu laga er fjármálaráðherra heimilt að framlengja umræddan afgreiðslufrest. Í tilefni af meðferð þessa máls var tekin ákvörðun af skattyfirvöldum um að slík framlenging á afgreiðslufresti skyldi hér eftir auglýst í Lögbirtingablaði.

Í bréfi mínu til A og B, dags. 17. febrúar 1994, sagði meðal annars:

"Ég vísa til kvörtunar yðar frá 15. nóvember 1993. Hún beinist að því, að skattstjórinn í Reykjanesumdæmi hafi ekki lokið á réttum tíma afgreiðslu máls, sem þér kærðuð til hans. Lok kærufrests hafi verið 30. ágúst 1993 og hafi afgreiðslu málsins því átt að hafa verið lokið innan tveggja mánaða frá þeim tíma, sbr. 99. gr. laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt.

Hinn 17. nóvember 1993 ritaði ég skattstjóranum í Reykjanesumdæmi bréf og óskaði eftir því að mér yrðu látnar í té upplýsingar um, hvað liði afgreiðslu máls yðar. Svör skattstjórans bárust mér með bréfi, dags. 23. nóvember 1993, en þar upplýsti hann, að úrskurðar í máli yðar væri að vænta mjög fljótlega. Einnig upplýsti hann, að með bréfi ríkisskattstjóra, dags. 28. október 1993, hefði frestur skattstjórans í Reykjanesumdæmi til að ljúka afgreiðslu kæra vegna álagningar opinberra gjalda gjaldárið 1993 verið framlengdur til og með 13. desember 1993, sbr. 118. gr. laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt. Þessi breyting á áður auglýstum afgreiðslufresti hafði aftur á móti ekki verið auglýst í Lögbirtingablaði, þar sem ekki er venja til þess. Af þessu tilefni hélt ég fund með ríkisskattstjóra hinn 10. febrúar s.l. Tjáði ríkisskattstjóri mér þá, að framkvæmd yrði breytt þannig í framtíðinni, að frestir til þess að ljúka afgreiðslu á kærum á grundvelli 118. gr. laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt yrðu auglýstir í Lögbirtingablaði. Dragist afgreiðsla máls fram yfir auglýstan afgreiðslufrest, yrði gjaldanda aftur á móti tilkynnt um tafir á afgreiðslu máls í samræmi við ákvæði 3. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, en þar segir: "Þegar fyrirsjáanlegt er að afgreiðsla máls muni tefjast ber að skýra aðila máls frá því. Skal þá upplýsa um ástæður tafanna og hvenær ákvörðunar sé að vænta."

Að framansögðu athuguðu og með vísan til þess, að úrskurður hefur verið kveðinn upp í máli yðar, sbr. samtal er starfsmaður minn átti við yður, tel ég ekki ástæðu til frekari afskipta minna af máli því, sem kvörtun yðar laut að."