A leitaði til mín og kvartaði yfir því, að menntamálaráðuneytið hefði ekki fylgt þeirri ákvörðun fjárlaganefndar frá 21. febrúar 1992, að greiða sér kr. 350.000 af fjárlagalið nr. 02-983-111. Hinn 10. febrúar 1994 ritaði ég A bréf og gerði honum grein fyrir því, að samkvæmt 2. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis væri það hlutverk umboðsmanns, að hafa eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga, að tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins, að gæta þess að jafnræði væri í heiðri haft í stjórnsýslunni og að hún færi að öðru leyti fram í samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti. Samkvæmt 1. og 2. tölul. 3. gr. reglna nr. 82/1988 um störf og starfshætti umboðsmanns Alþingis næði starfssvið umboðsmanns hvorki til starfa Alþingis eða stjórnsýslu í þágu Alþingis, sem háð væri eftirliti þingforseta, né til starfa nefnda, sem Alþingi kýs og skila ættu Alþingi skýrslu til umfjöllunar. Í bréfi mínu til A sagði meðal annars svo:
"Í fjárlögum nr. 93/1991 fyrir árið 1992 er fjárlagaliður nr. 02-983-111 auðkenndur sem "styrkur til útgáfustarfa 3 000 þús. kr." Í athugasemdum við þennan fjárlagalið í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 1992 segir m.a. svo: "Fjárlagaliður þessi hefur fengið nýtt heiti en hann hét áður 983 Vísindaleg starfsemi, styrkir Fjögur viðfangsefni flytjast af öðrum fjárlagaliðum. Viðfangsefnið 1.11 Styrkur til útgáfustarfa er flutt af fjárlagalið 881 Náms- og fræðimenn, framlög og viðfangsefni" (Alþt. 1991, A-deild, bls. 302).
Hvorki virðist vikið að fjárveitingu til [A] í fjárlögum né í greinargerð, sem fylgdi með þeim. Í máli því, sem kvörtun yðar beinist að, reynir því beint á þýðingu ákvörðunar fjárlaganefndar frá 21. febrúar 1992, svo og valdsvið nefndarinnar gagnvart menntamálaráðherra. Þar sem starfssvið umboðsmanns Alþingis nær samkvæmt framansögðu ekki til Alþingis og nefnda á vegum þess, tel ég mér ekki fært að fjalla um málið og getur því ekki komið til frekari afskipta minna af því."