Starfssvið umboðsmanns Alþingis og skilyrði til þess að umboðsmaður fjalli um kvörtun. Málskot til æðra stjórnvalds. Fóstureyðing. Kröfu eiginmanns um afhendingu gagna vegna umsóknar eiginkonu um fóstureyðingu verður skotið til landlæknis til úrlausnar.

(Mál nr. 1141/1994)

Máli lokið með bréfi, dags. 18. júlí 1994.



Vegna kvörtunar A, yfir því, að félagsráðgjafi á Kvennadeild L-spítala hefði með bréfi 16. júní 1994 synjað honum um að fá afhent gögn um umsókn eiginkonu hans um fóstureyðingu, svo og að honum hefði ekki verið tilkynnt um aðgerðina, benti ég A á það, í bréfi, dags. 18. júlí 1994, að ágreiningsmáli því, sem kvörtunin laut að yrði skotið til landlæknis. Í bréfi mínu til A sagði:

"Samkvæmt 8. gr. laga nr. 25/1975, um ráðgjöf og fræðslu varðandi kynlíf og barneignir og um fóstureyðingar og ófrjósemisaðgerðir, er fóstureyðing samkvæmt lögunum "...læknisaðgerð, sem kona gengst undir...". Tekið er fram í 13. gr. laganna, að umsókn um fóstureyðingu skuli rituð á þar til gerð eyðublöð, sem landlæknir gefur út. Í 24. gr. laga nr. 25/1975 segir, að umsókn, læknisvottorð og greinargerð, sem fylgja ber umsókn, skuli leggja með sjúkraskrá sjúklings. Um afhendingu á sjúkraskrám eru fyrirmæli í 16. gr. læknalaga nr. 53/1988, sbr. 3. gr. laga nr. 50/1990. Er þar svo fyrir mælt, að landlæknir geti ákveðið, hvort sjúkraskrá skuli afhent sjúklingi eða umboðsmanni hans. Loks er tekið fram í 5. mgr. 3. gr. laga nr. 97/1990, um heilbrigðisþjónustu, að landlækni sé skylt að sinna kvörtunum eða kærum, er varða samskipti almennings og heilbrigðisþjónustunnar.

Það er skoðun mín, að ágreiningsmál það, er kvörtun yðar lýtur að, verði skotið til landlæknis til úrlausnar. Samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis er ekki unnt að kvarta til umboðsmanns, ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds, og það hefur ekki fellt úrskurð sinn í málinu. Samkvæmt framansögðu brestur skilyrði til þess, að ég geti haft frekari afskipti af kvörtun yðar.

Ef þér teljið, að þér séuð enn órétti beittir, að fenginni úrlausn landlæknis í máli yðar, er yður heimilt að leita til mín á ný."