Starfssvið umboðsmanns Alþingis og skilyrði til þess að umboðsmaður fjalli um kvörtun. Málsaðild. Starfssvið tollgæslumanna.

(Mál nr. 1083/1994)

Máli lokið með bréfi, dags. 13. september 1994.

Tollvarðafélag Íslands leitaði til mín og kvartaði yfir því, að fjármálaráðherra hefði verið óheimilt að veita almennum póststarfsmönnum, með reglugerð nr. 310/1992 um tollmeðferð póstsendinga, heimild til tollskoðunar á einkavarningi fólks er það flytur milli landa. Taldi félagið, að tollgæslumenn hefðu samkvæmt lögum einir heimild til slíkrar tollskoðunar. Því var m.a. haldið fram, að reglugerð nr. 310/1992 hefði ekki næga lagastoð að þessu leyti.

Hinn 13. september 1994 ritaði ég félaginu bréf og sagði þar meðal annars svo:

"Samkvæmt 2. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis, sbr. 1. gr. reglna nr. 82/1988 um störf og starfshætti umboðsmanns Alþingis, er hlutverk umboðsmanns að fjalla um kvartanir út af því, að stjórnvöld hafi eigi í ákveðnum tilvikum farið að lögum eða fylgt vönduðum stjórnsýsluháttum í störfum sínum. Þá er það skilyrði samkvæmt 2. mgr. 5. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis og 5. gr. reglna nr. 82/1988, að kvörtun sé borin fram af þeim aðila, sem telur sig misrétti beittan, eða í umboði hans.

Af kvörtuninni verður ekki ráðið, að umræddar athafnir stjórnvalda snerti svo einstaklega og verulega lögverndaða hagsmuni tollvarða, að þeir verði taldir eiga aðild í máli þessu. Með hliðsjón af þessu svo og hlutverki umboðsmanns Alþingis, svo sem því hefur verið að framan lýst, er það álit mitt, sbr. 10. gr., sbr. 2. mgr. 5. gr. laga nr. 13/1987, að kvörtun yðar uppfylli ekki skilyrði laga til þess að um hana verði fjallað samkvæmt lögum nr. 13/1987."