Utanríkisþjónusta. Aðstoð starfsmanns íslensks sendiráðs erlendis.

(Mál nr. 973/1993)

Máli lokið með bréfi, dags. 26. apríl 1994.

A kvartaði yfir framkomu eins starfsmanns sendiráðs Íslands í London. A hafði verið á ferðalagi í Glasgow ásamt föður sínum. Á hóteli, sem þeir dvöldu á, lentu þeir í handalögmálum og voru handteknir af lögreglu. Eftir 66 klukkustundir var A sleppt úr haldi. Hafði hann þá samband við sendiráð Íslands í London og gerði sendiráðsfulltrúa grein fyrir því að hann kynni ekki ensku og væri félítill. A hélt því m.a. fram að sendiráðsfulltrúinn hefði svarað því til að sendiráðið hefði þær reglur að þeir sem lentu í klandri kæmu sér sjálfir úr því. Í bréfi umboðsmanns Alþingis til A kom fram að misræmi væri í frásögn hans af umræddum atburðum. Þó virtist mega ráða að hann hefði ekki beðið sendiráðið að grípa til neinna ákveðinna aðgerða. Þá taldi umboðsmaður að sendiráðsfulltrúinn hefði mátt gera ráð fyrir að A væri ekki í teljandi vandræðum þar sem hann var á heimleið daginn eftir og naut aðstoðar félagsráðgjafa. Umboðsmaður Alþingis benti á að skv. 28. gr. laga nr. 38/1954 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins skyldi starfsmaður gæta kurteisi, lipurðar og réttsýni í starfi sínu. Þar sem málsatvik voru hins vegar mjög óljós og framburður A reikull taldi umboðsmaður að ekki væri ljóst að sendiráðsfulltrúinn hefði brotið reglur þessar í símtali sínu við A.

A leitaði til mín hinn 27. desember 1993 og kvartaði m.a. yfir viðbrögðum sendiráðs Íslands í London. Í bréfi, dags. 26. apríl 1994, gerði ég A svofellda grein fyrir athugunum mínum á máli hans:

"Málavextir eru þeir, að í maímánuði árið 1993 voruð þér og faðir yðar, X, staddir í Glasgow. Aðfaranótt 21. maí voruð þér feðgar handteknir á hóteli yðar af lögreglu vegna gruns um óspektir. Voruð þér færðir í fangaklefa og vistaðir þar fram á mánudag. Voru þér þá færðir í dómssal, en að yðar sögn voruð þér ekki sjálfir færðir fyrir dómara, heldur sleppt úr haldi síðdegis þann dag án sakargifta. Faðir yðar var hins vegar úrskurðaður í gæsluvarðhald og ákærður fyrir óspektir og fyrir að hafa ráðist á lögreglumann.

Í bréfi yðar, dags. 27. desember 1993, kemur eftirfarandi frásögn fram:

"Ég vil kvarta undan slæmri framkomu [S] hjá sendiráði Íslands í London er ég stóð uppi einn í miðborg Glasgow eftir að hafa setið inni í 66 klst. í bresku fangelsi (Stuart fangelsið). Ég og faðir minn vorum þar á ferð og gistum á Central hotel í miðborg Glasgow. Flugleiðir skipulögðu þessa ferð fyrir okkur og var gisting greidd fyrirfram á Íslandi. Við urðum fyrir árás í anddyri hótelsins er við vorum á leið út. Faðir minn bað um að lögregla væri kvödd á staðinn. Við vorum báðir slasaðir eftir barsmíðar og spörk. Ég tala ekki ensku. Ég fór upp á herbergi en kom svo niður og beið í sófa í anddyri hótelsins. Þegar löggan kom skipaði starfsfólk hótelsins þeim að fjarlægja okkur. Ég var rifinn upp úr sófanum og handjárnaður við föður minn. Við máttum dúsa inni í 66 tíma og þola illa meðferð af löggunni, barsmíðar og flr. Okkur var neitað um vatn og mat var hent inn í klefana um lúgu eins og í hundakofa. Ég var látinn laus á mánudagskvöld um kl. 6 úr dómshúsinu en það er hinum megin við Clyde fljótið. Þeir höfðu ekkert á mig. Ég gekk að hótelinu og þar var dót okkar í geymslu. Svo fann ég gamalt hótel er faðir minn hafði bent mér á. Ég fékk þar herbergi fyrir 21 pund. Síðan hringdi ég úr símaboxi til íslenska sendiráðsins. Konan sem ég talaði við sagði að ekkert væri hægt að gera. Ég sagði henni að ég væri mállaus í stórborg og félítill því mestur hluti okkar peninga var í ávísun á föður minn sem ég gat ekki skipt. Hún sagði að sendiráðið hefði þær reglur að þeir sem lentu í klandri kæmu sér sjálfir úr þeim. Síðan var lagt á. Kvöldið fór í að koma okkar dóti á milli staða. Kona sem er félagsráðgjafi um 55 ára kom á hótelið og athugaði hvort ég væri þar. Hún hafði talað við föður minn fyrr um daginn. Hún hafði miklar áhyggjur af mér. Hennar vinnutími var aðeins til 6 og hennar vinnusvæði náði aðeins til dómshússins þannig að hún kom í sínum eigin tíma, 9 um kvöldið og það tók hana 60 mín. að aka hvora leið. Þetta þótti mér vænt um, að hún skyldi koma til mín en ég skammaðist mín fyrir að vera Íslendingur við svona aðstæður. Ég vil að starfsfólk sendiráðsins verði látið að standa fyrir máli sínu. Einnig óska ég eftir að utanríkisráðuneytið láti kanna málsókn fyrir að mér var haldið í 66 tíma saklausum í einangrun sem hafði slæm áhrif á andlega heilsu mína svo og líkamlega þar sem ég svaf á örþunnri dýnu á köldu steingólfinu."

Ég ritaði utanríkisráðherra bréf, dags. 31. janúar 1994, og fór þess á leit, samkvæmt 7. og 9. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis, að ráðuneytið skýrði afstöðu sína til kvörtunar yðar og léti mér gögn málsins í té. Svar ráðuneytisins barst mér með bréfi, dags. 15. febrúar 1994, og var þar vísað í bréf sendiráðsins til ráðuneytisins frá 13. desember 1993. Auk þess er tekið fram í bréfinu, að almennar reglur um aðstoð við Íslendinga erlendis í sambærilegum tilvikum miði einkum að því að tryggja réttarstöðu viðkomandi með milligöngu sendiráða og ræðisskrifstofa og að ráðuneytið telji þeirri meginreglu hafa verið fylgt í máli þessu, en bréfið var svar við fyrirspurnum mínum bæði varðandi mál yðar og föður yðar.

Í bréfi sendiráðsins til utanríkisráðuneytisins frá 13. desember 1993 segir eftirfarandi um mál yðar:

"Hinn 24. maí sl. hringdi í sendiráðið [M], félagsmálafulltrúi í Glasgow. Hjá henni var staddur ungur Íslendingur [A], sem hafði verið látinn laus úr fangelsi fyrr um daginn og átti í erfiðleikum með að skilja og tjá sig á ensku. Sendiráðsfulltrúi ræddi því við [A], sem virtist vera í afar miklu uppnámi. Hann lýsti óförum sínum og föður síns, [X], og atvikum helgarinnar, en þeir feðgar voru handteknir af lögreglu í Glasgow og færðir í fangelsi. Aðspurður kvaðst hann ekki skorta fé og hafði bæði vegabréf og flugfarseðil til heimferðar næsta dag. Ekki minntist hann á hótelvandræði í símtalinu. Aðaláhyggjuefni [A] virtust vera aðstæður og heilsa föður hans og að koma til hans lyfjum. Einnig var honum mikið í mun að einhver annaðist flutning bifreiðar föður hans til Íslands. Þá leitaði hann ásjár sendiráðsins við að koma föður sínum til aðstoðar, en [X] hafði þá um daginn verið úrskurðaður í varðhald þar til réttarhöld færu fram 23. júní. Sendiráðsfulltrúi sagðist takmarkað geta aðhafst frá London þennan dag, en benti honum á að setja sig í samband við ræðismann Íslands í Glasgow, sem myndi fá fyrirmæli sendiráðsins um að hjálpa þeim feðgum svo sem unnt væri. Stóð símtal sendiráðsfulltrúa og [A] alllengi og virtist hann í lok þess mun rólegri og skiljanlegri. Loks ræddi sendiráðsfulltrúi aftur við félagsmálafulltrúann og endurtók við hana að ræðismaðurinn í Glasgow gæti aðstoðað ef með þyrfti og veitti allar upplýsingar varðandi heimilisfang og símanúmer ræðismannsins. Að símtalinu loknu hringdi sendiráðsfulltrúi í ræðisskrifstofuna í Glasgow og talaði þar við aðstoðarmann ræðismannsins, því hann sjálfur var fjarverandi, skýrði frá málavöxtum og gaf fyrirmæli um að málið yrði kannað og feðgarnir aðstoðaðir eftir megni. Skv. upplýsingum ræðismannsins í Glasgow var ekki haft samband við skrifstofu hans frekar vegna [A] og ekki heyrði sendiráðið frekar frá honum né félagsmálafulltrúanum."

Starfsmaður minn hafði samband við yður í síma þann 1. apríl 1994 og spurði yður nánar um atvik málsins og þá sérstaklega símtal yðar við sendiráðsfulltrúann.

Samkvæmt frásögn yðar höfðuð þér samband við sendiráð Íslands í London og sögðuð farir yðar feðga ekki sléttar og spurðuð, hvort það væri ekki eitthvað sem sendiráðið gæti gert. Tjáðuð þér jafnframt sendiráðsfulltrúanum, sem fyrir svörum varð, að þér kynnuð lítið í ensku, skilduð nokkuð, en ættuð erfitt með að tjá yður. Þér væruð ekki velkominn á hótelið yðar aftur og að aðalvandamálið væri að finna annað hótel. Fulltrúinn hafi hins vegar sífellt verið að benda yður á, að það væri öðruvísi í útlöndum og heima og þýddi ekkert að haga sér eins og þar.

Meðan á símtalinu stóð, var staddur félagsráðgjafi hjá yður, sem einnig ræddi við sendiráðsfulltrúann, en þér kváðust ekki vita, hvað þeim fór á milli.

Þér sögðuð sendiráðsfulltrúann hafa reynt að ná í ræðismann Íslands í Glasgow, en ekki tekist. Þér sögðust ekki hafa fengið uppgefið símanúmer ræðismannsins, enda tæpast verið raunhæft, þar eð þér hefðuð verið á förum daginn eftir til Íslands.

Þér segið, að félagsráðgjafinn hafi reynt að aðstoða yður við að finna annað hótel, með því að hringja, en án árangurs. Þá hafið þér tjáð henni, að þér vissuð af hóteli, sem þér ætluðuð að kanna. Þér hafið síðan farið þangað sjálfur og fengið inni, en hefðuð mátt hringja í félagsráðgjafann, ef það hefði ekki gengið.

Kvörtunin lýtur, samkvæmt símtali starfsmanns míns við yður, að þeim svörum, sem þér fenguð frá sendiráðinu. Segið þér sendiráðsfulltrúa hafa skammað yður og sagt, að það þýddi ekkert að hegða sér eins í útlöndum og heima. Þér hefðuð viljað fá hughreystingu og ráðleggingar.

Samkvæmt gögnum frá ræðismanni Íslands í Glasgow er félagsráðgjafinn nú látinn, þannig að ekki reyndist unnt að afla skýrslna hans.

Allnokkurt misræmi er á milli bréfs yðar og þess, sem þér tjáðuð starfsmanni mínum. Þá er hvorug sagan í fullu samræmi við frásögn sendiráðsins. Þó virðist mega ráða, að þér hafið ekki beðið sendiráðið að grípa til neinna ákveðinna aðgerða eða að mótmæla sérstaklega handtöku og varðhaldi yðar. Þá mátti sendiráðsfulltrúi gera ráð fyrir, að þér væruð ekki í teljandi vandræðum, enda voruð þér á heimleið daginn eftir og félagsráðgjafinn var yður innan handar. Kom og á daginn, að þér voruð færir um að finna yður hótel fyrir nóttina og komast heim daginn eftir. Ég tel því, að ekki hafi verið brotinn á yður réttur.

Gögn málsins bera með sér, að sendiráðið hefur fylgst með máli föður yðar og hann notið aðstoðar ræðismannsins í Glasgow. Samkvæmt 28. gr. laga nr. 38/1954 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins skal starfsmaður gæta kurteisi, lipurðar og réttsýni í starfi sínu. Þar sem atvik eru mjög óljós og framburður yðar sjálfs reikull, tel ég ekki sýnt fram á, að sendiráðsfulltrúinn hafi brotið reglur þessar í símtali sínu við yður.

Niðurstaða mín er því sú, að ekki sé tilefni til frekari afskipta minna af máli þessu, sbr. a-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis."