Aðild að Bjargráðasjóði. Réttur til greiðslna vegna uppskerubrests. Lagasetning Alþingis.

(Mál nr. 1039/1994)

A og B kvörtuðu yfir þeim ákvörðunum Bjargráðasjóðs að synja þeim um greiðslu styrks vegna uppskerubrests á hvítkáli á árinu 1993 og um aðild að sjóðnum. Fram kom að Stéttarsamband bænda hafði, samkvæmt beiðni Sambands garðyrkjubænda, óskað eftir því í desember 1991, að hætt yrði að innheimta gjald til Bjargráðasjóðs af garðyrkjuafurðum og að Bjargráðasjóður hefði orðið við beiðninni. Við það var miðað, að greiðslur úr Bjargráðasjóði til framleiðenda í garðyrkju og gróðurhúsarækt, að undanskilinni kartöflurækt, féllu niður miðað við 1. september 1992. Það var niðurstaða umboðsmanns, að ekki væri í lögum gert ráð fyrir því, að einstakir framleiðendur gætu greitt í sjóðinn eða fengið bætur úr honum, hefði hlutaðeigandi búgrein verið undanþegin greiðsluskyldu. Umboðsmaður tók fram, að það væri almennt ekki í verkahring umboðsmanns Alþingis, að leggja dóm á það, hvernig til hefði tekist um löggjöf, sem Alþingi hefði sett. Þar væri ekki heldur ætlast til þess, að umboðsmaður fjallaði almennt um framkvæmd laga, nema um væri að ræða nánar tilgreindar athafnir, sem kynnu að hafa skert réttindi ákveðinna einstaklinga eða samtaka þeirra. Taldi umboðsmaður að ekki væru framkomin nægileg rök til þess að fjalla um lög nr. 41/1990, um Bjargráðasjóð, á grundvelli 11. gr. laga nr. 13/1987, um umboðsmann Alþingis. 1. Ég ritaði A og B bréf 2. október 1995 og sagði þar meðal annars: "Þér greinið svo frá í kvörtun yðar, að er Samband garðyrkjubænda hafi ætlað að segja garðyrkjumenn úr sjóðnum á árinu 1991, hafið þér mótmælt því, þar sem ekki væri unnt að kaupa tryggingu annars staðar fyrir útirækt og garðplöntur. Þér bendið á, að hvergi komi fram í lögum um Bjargráðasjóð, að einstaklingar megi ekki greiða til sjóðsins og eiga aðild að honum. Þér kveðjist eigi hafa greitt til sjóðsins síðastliðin ár, þar sem þér hafið eigi verið krafin um iðgjald til hans. Þér hafið eigi orðið fyrir verulegum áföllum í garðyrkjunni eftir úrsögn garðyrkjumanna úr sjóðnum fyrr en sumarið 1993, en þá hafi orðið uppskerubrestur norðanlands á útiræktuðu grænmeti, vegna veðurfars. Þér hafið sótt um bætur til Bjargráðasjóðs vegna uppskerubrests á hvítkáli, sem sé aðaltegundin í framleiðslu yðar, en umsókninni hafi verið synjað á þeim forsendum, að búgreinin hefði eigi greitt til Bjargráðasjóðs. Þér teljið, að ekki sé heimilt að meina yður um aðild að sjóðnum, þar sem hlutverk Bjargráðasjóðs sé lögum samkvæmt að bæta tjón á uppskeru, sem ekki verði tryggð hjá tryggingafélögunum. [2.] Ég hef aflað gagna og skýringa frá Bjargráðasjóði vegna máls yðar. Í bréfi sjóðsins til mín, dags. 18. janúar 1995, segir meðal annars: "Bjargráðasjóður er sjálfstæð stofnun, sameign ríkisins, sveitarfélaga og Stéttarsambands bænda, en eignaraðilar bera ekki ábyrgð á skuldbindingum sjóðsins. Um beina aðild búgreinafélaga að búnaðardeild sjóðsins er ekki að ræða, en félagar búgreinafélaga greiða gjald til sjóðsins af framleiðsluvörum sínum, nema búgreinafélag ákveði að undanþiggja framleiðsluvörur búgreinarinnar að hluta eða að öllu leyti greiðsluskyldu með tilvísun til 6. gr. laga um Búnaðarmálasjóð nr. 41/1990. Stjórn sjóðsins er skylt að verða við beiðni Stéttarsambands bænda um niðurfellingu á greiðsluskyldu búgreina á framlagi til sjóðsins." Samkvæmt b-lið 5. gr. laga nr. 51/1972, um Bjargráðasjóð, ásamt síðari breytingum, eru árlegar tekjur Bjargráðasjóðs meðal annars 0,6% af söluvörum landbúnaðarins. Í 2. gr. laga nr. 41/1990, um Búnaðarmálasjóð, eru taldar upp þær búgreinar, sem greiða eiga búnaðarmálasjóðsgjald af vöru og leigusölu. Í 6. gr. laganna er að finna svohljóðandi undanþágureglu: "Þrátt fyrir ákvæði b-liðar 5. gr. laga um Bjargráðasjóð, nr. 51 27. maí 1972 getur stjórn Bjargráðasjóðs undanþegið framleiðsluvörur einstakra búgreina greiðsluskyldu að hluta eða öllu leyti. Komi fram beiðni um slíkt frá Stéttarsambandi bænda er stjórninni skylt að verða við því." Í reglugerð nr. 393/1990, um innheimtu gjalds til Búnaðarmálasjóðs, ásamt síðari breytingum, eru nánari ákvæði um það efni, er heiti reglugerðarinnar vísar til. Í 8. og 9. gr. reglugerðarinnar eru ákvæði um innheimtu og skiptingu þessara gjalda af vöru- og leigusölu í landbúnaði. Í 2. málsl. 2. mgr. 9. gr. reglugerðarinnar segir, að greiðslur til Bjargráðasjóðs skuli breytast, hafi stjórn sjóðsins nýtt sér heimild 8. gr. reglugerðarinnar, en samkvæmt því ákvæði skal sjóðsstjórnin taka ákvarðanir um breytta gjaldskyldu til Bjargráðasjóðs fyrir 1. september ár hvert og tilkynna þær landbúnaðarráðherra, sem auglýsir gjaldahlutfallið með auglýsingu um gjaldahlutföll til Búnaðarmálasjóðs. Óski Stéttarsamband bænda eftir breyttri gjaldskyldu fyrir hönd búgreinafélags, skal beiðni um slíkt hafa borist Bjargráðasjóði fyrir 15. ágúst ár hvert. Í bréfi Bjargráðasjóðs til mín, dags. 12. júlí 1994, kemur meðal annars fram, að Stéttarsamband bænda hafi, samkvæmt beiðni Sambands garðyrkjubænda, sett fram þá ósk með bréfi, dags. 1. desember 1991, að hætt yrði að innheimta gjald til Bjargráðasjóðs af garðyrkjuafurðum. Samkvæmt bréfi Bjargráðasjóðs hinn 17. desember 1991 hefði verið orðið við þessari beiðni. Í áliti mínu frá 21. október 1994 (mál nr. 842/1993) gerði ég grein fyrir því, að ákvæðum um fresti til ákvarðana um breytta gjaldskyldu til Bjargráðasjóðs, sbr. 8. gr. reglugerðar nr. 393/1990, hefði ekki verið fylgt, er Bjargráðasjóður varð við ósk Stéttarsambands bænda 17. desember 1991, en þá þegar hafði landbúnaðarráðuneytið auglýst breytta gjaldskyldu. Í framangreindu áliti mínu kemur meðal annars fram, að eftir að stjórn Bjargráðasjóðs gerði sér grein fyrir, að tímamörk ákvarðana um að hætta innheimtu bjargráðasjóðsgjalds af garðyrkju og gróðurhúsaafurðum orkuðu tvímælis, hefði verið ákveðið á fundi stjórnarinnar hinn 26. apríl 1993, að bæta tjón útiræktenda í greininni samkvæmt reglum frá árinu áður. Hefði jafnframt verið litið svo á, að frá 1. september 1992 ættu framleiðendur í garðyrkju- og gróðurhúsarækt, að undanskilinni kartöflurækt, ekki rétt á styrkjum úr Bjargráðasjóði. Í máli þessu taldi ég, að framangreindum forsendum gefnum, eigi tilefni til athugasemda við þá framkvæmd, að miða við 1. september 1992 um þau tímamörk, er greiðslur úr Bjargráðasjóði skyldu falla niður til framleiðenda í garðyrkju- og gróðurhúsarækt, að undanskilinni kartöflurækt. [3.] Samkvæmt framansögðu er það löggjafinn, sem hefur ákveðið að möguleiki einstakra framleiðenda til þess að greiða í Bjargráðasjóð, og þar með til að fá greiðslur úr sjóðnum vegna afurðatjóns, sé takmarkaður við að hlutaðeigandi búgrein greiði þangað af framleiðsluvörum sínum, sbr. 6. gr. laga nr. 41/1990 og 8. og 9. gr. reglugerðar nr. 393/1990. Þannig gera þær reglur, sem gerð hefur verið grein fyrir hér að framan, eigi ráð fyrir því, að einstakir framleiðendur geti greitt í sjóðinn eða fengið bætur úr honum, hafi hlutaðeigandi búgrein verið undanþegin greiðsluskyldu. Það er almennt ekki í verkahring umboðsmanns Alþingis að leggja dóm á það, hvernig til hafi tekist um löggjöf, sem Alþingi hefur sett. Ekki er heldur ætlast til þess, að umboðsmaður fjalli almennt um framkvæmd laga, nema um sé að ræða nánar tilgreindar athafnir, sem kunna að hafa skert réttindi ákveðinna einstaklinga eða samtaka þeirra. Það er skoðun mín, að eigi séu nægileg rök til þess, að ég fjalli um lög þau, sem vísað er til hér að framan, á grundvelli 11. gr. laga nr. 13/1987, um umboðsmann Alþingis. Tel ég því ekki vera skilyrði fyrir hendi til þess, að ég fjalli frekar um kvörtun yðar."