Ákvörðun um að stöðva meðferð máls, sem lagt hafði verið fyrir dómstóla.

(Mál nr. 1311/1994)

A bar upp erindi við heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið í apríl 1993. Í nóvember sama ár höfðaði A mál á hendur ríkissjóði og heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu. Var í erindinu byggt á sömu eða svipuðum málsástæðum og í dómsmálinu. Umboðsmaður taldi það ekki aðfinnsluvert, að ráðuneytið stöðvaði meðferð málsins, sem kærumáls eftir að A hafði borið það undir dómstóla. Í bréfi mínu til A, dags. 18. apríl 1995, sagði meðal annars: "Ég vísa til þeirrar kvörtunar, sem þér báruð fram með bréfi, dags. 23. desember 1994, yfir því að heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið hefði ekki lagt formlegan úrskurð á mál, sem þér skutuð til þess með bréfi, dags. 28. janúar 1993. Í kvörtun yðar skýrið þér svo frá málsatvikum: "Undirrituð er matvælaörverufræðingur og starfaði sem slíkur á rannsóknastofu Hollustuverndar ríkisins þar til mér var sagt upp störfum með bréfi dagsettu 25. september 1992. Ég tel að um brottvikningu úr starfi hafi verið að ræða í kjölfar kynferðislegrar áreitni í minn garð af hendi yfirmanns míns... Því bað ég um að mál mitt væri rannsakað með bréfi til heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis dags. 28.01.1993. [Kvörtun sú] sem ég ber fram er að mér hefur ekki borist svar frá ráðuneytinu við beiðninni um að mál mitt væri rannsakað." Hinn 29. desember 1994 ritaði ég heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra bréf og óskaði eftir því, með vísan til 7. gr. laga nr. 13/1987, um umboðsmann Alþingis, að mér yrðu veittar upplýsingar um, hvað liði afgreiðslu á erindi yðar. Mér bárust svör ráðuneytisins með bréfi, dags. 1. febrúar 1995, og segir þar meðal annars: "Varðandi erindi [A] þá leit ráðuneytið ekki svo á að það væri til kærumeðferðar hjá ráðuneytinu. Í bréfi [A] til ráðuneytisins dags. 28. janúar 1993 kemur fram að hún óskar eftir því að ástæður þær sem leiddu til uppsagnar hennar hjá Hollustuvernd ríkisins verði rannsakaðar og uppsögnin dregin til baka. Ráðuneytið kannaði ráðningarform [A] sem var ráðningarsamningur með þriggja mánaða gagnkvæmum uppsagnarfresti. [A] var tjáð munnlega að ráðuneytið gæti ekkert aðhafst í máli hennar þar sem um gagnkvæman uppsagnarfrest væri að ræða og að ráðuneytið gæti ekki gefið fyrirmæli um að uppsögn yrði dregin til baka gegn eindregnum vilja forstöðumanna Hollustuverndar ríkisins. Ráðuneytið bendir á að um mál þetta hefur nú gengið dómur í Héraðsdómi Reykjavíkur og vill leyfa sér að líta svo á að með fyrri afskiptum sínum af málinu, megi draga þá ályktun að um ígildi úrskurðar hafi verið að ræða. Ráðuneytið vekur athygli á, að á þessum tíma höfðu stjórnsýslulög ekki tekið gildi." Hinn 22. apríl 1994 gekk dómur í Héraðsdómi Reykjavíkur í máli, þar sem þér höfðuð stefnt m.a. ríkissjóði og heilbrigðisráðherra til greiðslu skaðabóta vegna ólögmætrar uppsagnar. Í málinu var ríkissjóður sýknaður af kröfum yðar. Í málinu liggur fyrir, að þér báruð upp erindi við heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið hinn 28. janúar 1993. Þá liggur einnig fyrir, að þér höfðuðuð mál á hendur ríkissjóði og heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra með stefnu birtri 3. nóvember 1993 þar sem byggt var á sömu eða svipuðum málsástæðum og þér byggðuð á í umræddu erindi yðar til heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins. Með þetta í huga tel ég ekki aðfinnsluvert, að ráðuneytið stöðvaði meðferð málsins sem kærumáls, eftir að þér höfðuð borið það undir dómstóla með þessum hætti, hafi á annað borð átt að líta á erindi yðar til ráðuneytisins sem kæru, enda var yður heimilt, en ekki skylt, að bera lögmæti uppsagnarinnar undir ráðuneytið, áður en þér lögðuð mál yðar fyrir dómstóla. Gefur kvörtun yðar því ekki tilefni til frekari athugana af minni hálfu."