Álagning og innheimta vatnsgjalds. Almenn sjónarmið um innheimtu og ráðstöfun vatnsgjalds.

(Mál nr. 1555/1995)

A kvartaði yfir álagningu vatnsgjalds í X-bæ, sem hann taldi of hátt. Félagsmálaráðuneytið lýsti lagaviðhorfum sínum til réttarreglna um ákvörðun á fjárhæð þjónustugjalda svo og ráðstöfun þeirra. Með tilliti til afstöðu ráðuneytisins svo og til þess, að athugun þess á málinu var enn ekki lokið, taldi umboðsmaður ekki tilefni til þess að fjalla frekar um málið að svo stöddu. A kvartaði yfir álagningu vatnsgjalds í X-bæ, sem hann taldi of hátt. Í bréfi er ég ritaði A 20. nóvember 1995 gerði ég honum grein fyrir bréfaskiptum, sem ég hafið átt við félagsmálaráðherra og viðræðum, sem ég hafði átt við ráðuneytisstjóra og deildarstjóra í ráðuneytinu út af máli A. Í bréfi mínu til A sagði meðal annars: "Í bréfaskiptum mínum við félagsmálaráðuneytið og viðræðum mínum við starfsmenn þess kom fram sú afstaða ráðuneytisins, að almennt væri óheimilt að leggja á hærra vatnsgjald en nægði til að standa straum af stofnkostnaði og rekstri vatnsveitu, sbr. 7. gr. laga nr. 81/1991, um vatnsveitur sveitarfélaga. Yrði tekjuafgangur vegna atvika, sem ekki væri séð fyrir við útreikning vatnsgjalds, taldi ráðuneytið jafnframt óheimilt að verja mismuninum til annarra verkefna en til stofn- og rekstrarkostnaðar vatnsveitu á næsta gjaldatímabili, þar sem ekki væri fyrir að fara sérstakri skattlagningarheimild, sbr. 2. mgr. 78. gr., 77. gr. og 40. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 15. og 16. gr. stjórnskipunarlaga nr. 97/1995. Þá kom fram, að ákveðið hefði verið að endurskoða reglur um reikningsskil vatnsveitna, svo að glöggt lægi fyrir hverju sinni, hver stofn- og rekstrarkostnaður vatnsveitu væri. Loks kom fram, að ráðuneytið hefði enn ekki lokið athugun sinni á máli því, er snertir gjaldtöku vatnsveitu X. Að lokinni endurskoðun á reglum um reikningsskil vatnsveitna yrði því fylgt eftir að gjaldtaka vatnsveitu X yrði í samræmi við lög nr. 81/1991, um vatnsveitur sveitarfélaga. Með tilliti til afstöðu félagsmálaráðuneytisins svo og til þess, að athugun ráðuneytisins á málinu er enn ekki lokið, tel ég, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 13/1987, um umboðsmann Alþingis, að ekki sé tilefni til þess að taka málið til nánari athugunar að svo stöddu. Að lokinni athugun félagsmálaráðuneytisins á málinu getið þér leitað til mín á ný, ef þér teljið að þér séuð enn beittir rangindum."