A kvartaði yfir skipun B, forstjóra [kvikmyndahúss], til setu í stjórn Norræna kvikmynda- og sjónvarpssjóðsins. Í bréfi, er ég ritaði A 3. ágúst 1995, tók ég fram, að ég liti svo á að hann teldi B vanhæfan til setu í stjórn sjóðsins, vegna hagsmunatengsla við kvikmyndaframleiðendur. Í kvörtun sinni benti A á, að hagsmunatengsl þessi væru fólgin í því, að fyrirsvarsmenn kvikmyndahúsa væru viðsemjendur kvikmyndaframleiðenda um sýningar á kvikmyndum þeirra síðarnefndu. Algengt væri að kvikmyndahúsaeigendur semdu um sýningar á kvikmyndum áður eða á meðan þær væru í framleiðslu. Þá væri það eitt af skilyrðum þess að styrkur fengist úr sjóðnum að dreifingarsamningar hefðu verið gerðir um hlutaðeigandi kvikmynd.
Með bréfi 13. september 1994 leitaði ég, sbr. 7. gr. laga nr. 13/1987, um umboðsmann Alþingis, eftir upplýsingum frá menntamálaráðuneytinu um, hvenær tilnefning B hefði átt sér stað í sjóðinn. Mér bárust umbeðnar upplýsingar með bréfi ráðuneytisins, dags. 1. janúar 1995. Í bréfi mínu til A, dags. 3. ágúst 1995, sagði meðal annars:
"Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. reglna fyrir Norræna kvikmynda- og sjónvarpssjóðinn, settum af Norrænu ráðherranefndinni 27. nóvember 1989, skal stjórn sjóðsins skipuð af Norrænu ráðherranefndinni.
Norræna ráðherranefndin starfar eftir ákvæðum samstarfssamnings milli Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar, sem undirritaður var 23. mars 1962. Skv. 2. mgr. 62 gr. samstarfssamningsins fer sérhvert aðildarríki með eitt atkvæði í ráðherranefndinni og skulu ákvarðanir hennar samþykktar samhljóða, sbr. 3. mgr. 62. gr. samningsins.
Stjórnarnefnd ráðherranefndarinnar um menningar- og fjölmiðlamál gerir sameiginlega tillögu um skipan stjórnar Norræna kvikmynda- og sjónvarpssjóðsins til Norrænu ráðherranefndarinnar. Eiga öll Norðurlönd fulltrúa í þeirri nefnd. Tillögurnar eru síðan teknar til umfjöllunar og ákvörðun um skipan sjóðsins tekin af Norrænu ráðherranefndinni.
Samkvæmt 2. gr. laga nr. 13/1987, um umboðsmann Alþingis, er hlutverk hans að hafa eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga. Með vísan til þess, er greinir hér að framan, er ljóst, að tilnefning og skipun í stjórn Norræna kvikmynda- og sjónvarpssjóðsins er í höndum stofnana, sem starfa eftir og á grundvelli fjölþjóðlegra samninga. Íslensk stjórnvöld taka þannig hvorki sjálfstæða ákvörðun um tilnefningu í stjórn sjóðsins eða um skipun hennar. Því er niðurstaða mín sú, að kvörtun yðar falli ekki innan starfssviðs míns.
Samkvæmt framansögðu og með hliðsjón af a-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 13/1987, um umboðsmann Alþingis, er afskiptum mínum af kvörtun yðar hér með lokið."