Viðurkenning iðnmeistara til að hafa umsjón með og bera ábyrgð á byggingarframkvæmdum á sínu sviði. Skilyrði um nám í meistaraskóla.

(Mál nr. 935/1993)

Byggingarnefnd X synjaði A, húsasmíðameistara, um viðurkenningu til að mega hafa umsjón með og bera ábyrgð á byggingarframkvæmdum, þar sem hann hefði ekki lokið meistaraskóla. Í 2. mgr. greinar 2.4.7. byggingarreglugerðar nr. 177/1992, var gert ráð fyrir því, að ef meistaraskóli væri ekki í næsta nágrenni byggingarnefndarumdæmis, þyrfti ekki slíkan skóla til viðurkenningarinnar. Ekki var talið að undantekningarregla þessi hefði átt við, þar sem meistaraskóli hefði verið starfræktur við framhaldsskóla á X frá árinu 1985. Húsasmíðameistarinn A sótti um viðurkenningu til þess að mega hafa umsjón með og bera ábyrgð á byggingarframkvæmdum til byggingar- og skipulagsnefndar X. Umsókn A var hafnað með bréfi, dags. 25. janúar 1993. Með úrskurði, dags. 22. júní 1993, staðfesti umhverfisráðuneytið niðurstöðu byggingarnefndar. Í niðurlagi bréfs míns til A, dags. 12. maí 1995, sagði: "Samkvæmt grein 4.1. í byggingarreglugerð nr. 177/1992 mega þeir meistarar einir hafa umsjón með og bera ábyrgð á byggingarframkvæmdum, hver á sínu sviði, sem til þess hafa hlotið viðurkenningu byggingarnefndar. Frá gildistöku byggingarreglugerðar nr. 292/1979 var meginreglan sú, að einungis þeir iðnmeistarar, sem lokið höfðu meistaraskóla, fengu viðurkenningu skv. 4. kafla reglugerðarinnar, sbr. 2. mgr. greinar 2.4.7. byggingareglugerðarinnar. Ein undantekningarregla var þó í nefndri 2. mgr. Þar kom fram, að á meðan meistaraskóli væri ekki fyrir hendi í næsta nágrenni byggingarnefndarumdæmis, þyrfti ekki meistaraskólapróf til viðurkenningarinnar. Með gildistöku reglugerðar nr. 177/1992 var ákvæðum greinar 2.4.7. breytt. Féll þá umrædd undantekningarregla niður. Í framkvæmd virðist þó hafa verið byggt á henni áfram, sbr. úrskurð ráðuneytisins í máli þessu. Með reglugerð nr. 72/1993, um breytingu á byggingarreglugerð nr. 177/1992, kom inn ný undantekningarregla og hljóðar hún svo: "Byggingarnefnd veitir iðnmeisturum sem eru starfandi í iðn sinni og hafa lokið meistaraskóla eða hlotið hliðstæða menntun, viðurkenningu samkvæmt IV. kafla, og einnig öðrum iðnmeisturum sem hafa að staðaldri haft umsjón með og borið ábyrgð á byggingarframkvæmdum í a.m.k. þrjú ár eftir viðurkenningu byggingarnefndar þar sem ekki var meistaraskóli í byggingarnefndarumdæmi eða næsta nágrenni..." ... Af gögnum málsins er ljóst, að þér höfðuð ekki lokið meistaraskóla, er þér sóttuð um viðurkenningu byggingarnefndar [X]. Samkvæmt því, sem hér að framan er rakið, kom því aðeins til greina að veita yður umrædda viðurkenningu, að meistaraskóli væri ekki fyrir hendi í næsta nágrenni byggingarnefndarumdæmis. Upplýst hefur verið að meistaraskóli hefur verið starfræktur við [framhaldsskólann á X] frá árinu 1985. Verður því að telja að umrædd undantekningarregla hafi ekki átt við yður. Af þessum sökum tel ég ekki tilefni til athugasemda við niðurstöðu byggingarnefndar [X] og umhverfisráðuneytisins í máli yðar."