Fæðingarorlof. Skilyrði orlofsréttar vegna töku barns í fóstur.

(Mál nr. 1602/1995)

A kvartaði yfir synjun fjármálaráðuneytisins um greiðslu í orlofi vegna töku barns í fóstur. Í rökstuðningi fjármálaráðuneytisins var til þess vísað, að fósturráðstöfun hafi verið staðfest eftir að barnið náði fimm ára aldri. Réttur til greiðslna í orlofi samkvæmt 8. gr. reglugerðar nr. 410/1989, sbr. 5. gr. laga nr. 57/1987, væri því ekki fyrir hendi. Umboðsmaður taldi það vera skilyrði réttar til fæðingarorlofs vegna fósturbarns, að orlof væri tekið í tengslum við töku barns í fóstur, sem jafnframt væri yngra en fimm ára þegar fósturráðstöfun ætti sér stað. Með hliðsjón af því að A sótti fyrst um orlof 15. febrúar 1991 vegna barns, sem fætt var í október 1984, taldi umboðsmaður ekki ástæðu til frekari athugasemda vegna málsins. Í niðurlagi bréfs míns til A, dags. 12. júní 1996, sagði: "Réttur til fæðingarorlofs er lögfestur í lögum nr. 57/1987, um fæðingarorlof. Þar er kveðið á um þær reglur, sem gilda skulu um þennan rétt, sem skilgreindur er í 1. gr. laganna sem leyfi frá launuðum störfum vegna meðgöngu og fæðingar. Lög um almannatryggingar kveða hins vegar á um rétt foreldra til greiðslna úr almannatryggingum í fæðingarorlofi og reglur þar að lútandi. Um starfsmenn ríkisins gildir jafnframt reglugerð nr. 410/1989, um barnsburðarleyfi starfsmanna ríkisins, þar sem kveðið er á um rétt þeirra til fæðingarorlofs og launa í slíku orlofi, sbr. 1. gr. reglugerðarinnar, þar sem segir, að vegna barnsburðar skuli fastráðin kona, sem starfað hafi í þjónustu ríkisins samfellt í 6 mánuði fyrir barnsburð, eiga rétt á leyfi í 5 mánuði [6 mánuði frá 1. janúar 1990, sbr. 2. mgr.] með þeim dagvinnulaunum, sem stöðu hennar fylgja. Samkvæmt 8. gr. á ættleiðandi móðir, uppeldis- eða fósturmóðir, sbr. 5. gr. laga um fæðingarorlof, rétt á leyfi með þeim dagvinnulaunum, sem stöðu hennar fylgja, vegna töku barns yngra en 5 ára. Framangreind reglugerð, sem á við yður sem opinberan starfsmann, tekur því mið af lögum um fæðingarorlof hvað rétt til barnsburðarleyfis varðar. Sérreglur gilda hins vegar um rétt þeirra til greiðslna í slíku orlofi. Eins og áður hefur komið fram, teljið þér ákvæði 8. gr. reglugerðarinnar takmarka rétt yðar sem fósturmóður til fæðingarorlofs, sem þér annars ættuð samkvæmt svohljóðandi ákvæði 5. gr. laga um fæðingarorlof: "Ættleiðandi foreldrar, uppeldis- eða fósturforeldrar eiga með sama hætti rétt til þriggja mánaða fæðingarorlofs (fjögurra mánaða frá 1. jan. 1989 og fimm mánaða frá 1. jan. 1990) vegna töku barns að fimm ára aldri þess. Töku fæðingarorlofs samkvæmt grein þessari má hefja er fyrir liggur staðfesting barnaverndarnefndar eða sveitarfélags um fósturráðstöfun eða leyfi til ættleiðingar eftir því sem við á...." Samkvæmt 3. gr. reglugerðar um barnsburðarleyfi starfsmanna ríkisins skal kona, sem rétt á til barnsburðarleyfis samkvæmt reglugerðinni, ekki njóta lakari réttar en hún ætti kost á skv. lögum um fæðingarorlof. Ég er því sammála því, sem fram kemur í úrlausn fjármálaráðuneytisins, að líta beri til laga um fæðingarorlof, hvað rétt yðar til fæðingarorlofs varðar, að því marki sem réttur samkvæmt þeim kann að vera rýmri. Fyrsti málsl. 5. gr. laga nr. 57/1987, um fæðingarorlof, eins og 8. gr. reglugerðarinnar, kveður á um rétt til fæðingarorlofs vegna töku fósturbarns að fimm ára aldri þess. Annar málsl. gerir það hins vegar að skilyrði, að staðfesting barnaverndarnefndar eða sveitarfélags á fósturráðstöfun liggi fyrir við upphaf fæðingarorlofs. Teljið þér, að hér sé um tvö sjálfstæð skilyrði að ræða og að þér eigið rétt á fæðingarorlofi, þar sem barnið hafi komið til yðar fyrir fimm ára aldur þess og fósturráðstöfun nú verið staðfest. Fæðingarlof er, eins og áður er getið, skilgreint sem leyfi frá launuðum störfum vegna meðgöngu og fæðingar. Réttur samkvæmt reglugerð um barnsburðarleyfi starfsmanna ríkisins tengist sömuleiðis barnsburði. Fellur hann niður að því leyti sem hann er ekki nýttur, sbr. 11. gr. reglugerðarinnar og 3. mgr. 27. gr. reglugerðar nr. 546/1987, hvað varðar fæðingarorlof samkvæmt lögum um almannatryggingar. Ákvæði 5. gr. laga um fæðingarorlof og 8. gr. reglugerðar nr. 410/1989 kveða síðan á um sambærilegan rétt fósturforeldra/mæðra til orlofs. Með vísan til framangreinds tel ég ljóst, að tilgangur laganna sé að tryggja foreldrum leyfi frá störfum í tengslum við fæðingu barns og, þegar um fósturbarn eða ættleiðingu er að ræða, töku þess í fóstur. Tel ég, að skýra beri framangreind ákvæði í samræmi við þennan tilgang þeirra, enda verði réttur til orlofs vegna töku fósturbarns samkvæmt 5. gr. laganna eða 8. gr. umræddrar reglugerðar ekki víðtækari en réttur vegna fæðingar barns að þessu leyti. Í þessu sambandi bendi ég á, að samkvæmt 3. mgr. 1. gr. reglugerðar nr. 546/1987 skal töku fæðingarorlofs ætíð ljúka innan árs frá fæðingu barnsins. Með vísan til framangreinds tel ég ljóst, að réttur til fæðingarorlofs vegna fósturbarns sé bundinn því skilyrði, að það sé nýtt í tengslum við töku barns í fóstur, sem jafnframt er yngra en fimm ára, þegar fósturráðstöfun á sér stað. Samkvæmt framansögðu er það skoðun mín, að hvorki 8. gr. reglugerðar nr. 410/1989 né 5. gr. laga nr. 57/1987 veiti rétt til fæðingarorlofs, sem ekki hefur verið tekið í tengslum við fósturráðstöfun, án tillits til þess, hvaða ástæður lágu þar að baki. Verður því ekki séð, að 8. gr. reglugerðar nr. 410/1989 takmarki rétt yðar til fæðingarorlofs umfram það, sem leiðir af ákvæði 5. gr. laga um fæðingarorlof. Með vísan til framanritaðs og þess að fyrst var sótt um orlof til launaskrifstofu ríkisins 15. febrúar 1991, vegna barnsins, sem er fætt í októbermánuði 1984, tel ég ekki ástæðu til frekari athugasemda vegna þessa máls yðar."