Málsaðild. Stjórnvöld geta ekki skotið ágreiningi sín í milli til umboðsmanns.

(Mál nr. 1849/1996)

Hreppsnefnd óskaði álits míns á réttmæti úrskurðar umhverfisráðuneytisins um að fella úr gildi ákvörðun byggingarnefndar hreppsins um að synja fjármálaráðuneytinu um leyfi til að rífa tiltekið íbúðarhús. Í bréfi mínu til hreppsnefndarinnar, hinn 7. nóvember 1996, sagði meðal annars svo: "Samkvæmt 2. gr. laga nr. 13/1987, um umboðsmann Alþingis, er það hlutverk umboðsmanns að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga á þann hátt, sem nánar greinir í lögunum, og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins. Skal umboðsmaður gæta þess, að jafnræði sé í heiðri haft í stjórnsýslunni og að hún fari að öðru leyti fram í samræmi við lög og vandaða stjórnsýsluhætti. Í 1. gr. reglna nr. 82/1988, um störf og starfshætti umboðsmanns Alþingis, er hlutverk hans nánar skilgreint svo, að hann skuli gæta þess, að stjórnvöld virði rétt einstaklinga og samtaka þeirra. Hefur umboðsmaður í því skyni eftirlit með því, að jafnræði sé virt í stjórnsýslustörfum og að stjórnsýsla sé að öðru leyti í samræmi við lög og vandaða stjórnsýsluhætti. ... Kvörtun yðar lýtur ... að meginstefnu til að skiptum tveggja stjórnvalda í meðferð stjórnsýsluvalds. Samkvæmt 2. og 5. gr. laga nr. 13/1987 getur sá borið fram kvörtun við umboðsmann, sem telur stjórnvöld hafa beitt sig rangindum. Stjórnvöld geta því ekki sjálf skotið til umboðsmanns ágreiningi sínum við önnur stjórnvöld út af meðferð þess valds, er þau fara með sem slík. Af þessum ástæðum getur [hreppurinn] ekki borið fram kvörtun út af umræddri ákvörðun umhverfisráðuneytisins."