Frestur til að bera fram kvörtun við umboðsmann vegna aðalskipulags miðast við birtingu auglýsingar um staðfestingu skipulagsins.
A leitaði til mín og kvartaði yfir úrskurði umhverfisráðuneytisins þar sem hafnað var kröfu A um ógildingu tiltekins hluta aðalskipulags X-hrepps 1992-2012. Kvörtun A beindist annars vegar að aðalskipulagi X-hrepps 1992-2012 og undirbúningi þess en hins vegar að úrskurði umhverfisráðuneytisins frá 2. júlí 1996. Í bréfi mínu til A, dags. 20. desember 1996, sagði meðal annars:
"Samkvæmt 2. mgr. 6. gr. laga nr. 13/1987, um umboðsmann Alþingis, skal bera kvörtun fram "innan árs frá því er stjórnsýslugerningur sá, er um ræðir, var til lykta leiddur". Um gerð skipulagsuppdrátta er fjallað í IV. kafla skipulagslaga og í V. kafla sömu laga um framlagningu skipulagstillagna, samþykkt þeirra og staðfestingu. Meðal annars lúta tillögur um aðalskipulag þessum lagaákvæðum og lýkur þeirri málsmeðferð með staðfestingu ráðherra á skipulagsuppdrætti og birtingu í Stjórnartíðindum, svo sem nánar greinir í 5. mgr. 18. gr. skipulagslaga nr. 19/1964.
Ofangreind staðfesting og birting skipulags er lokaáfangi lögskipaðrar málsmeðferðar við gerð aðalskipulags og verður upphaf frests til að bera fram kvörtun samkvæmt 2. mgr. 6. gr. laga nr. 13/1987 að miðast við birtingu samkvæmt 5. mgr. 18. gr. skipulagslaga. Auglýsing um staðfestingu aðalskipulags X-hrepps 1992-2012 var birt í B-deild Stjórnartíðinda 10. nóvember 1993. Kvörtun A var borin fram 31. júlí 1996 og var þá liðinn framangreindur frestur samkvæmt 2. mgr. 6. gr. laga nr. 13/1987 til að bera fram kvörtun. Ekki verður litið svo á, að síðari umfjöllun umhverfisráðuneytisins, sem lauk með svonefndum úrskurði þess frá 2. júlí 1996, hafi falið í sér endurupptöku máls samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Verður að líta á úrskurð þennan sem svör umhverfisráðuneytisins við gagnrýni A. Slík viðbrögð geta hins vegar ekki breytt neinu um upphaf frests samkvæmt 2. mgr. 6. gr. laga nr. 13/1987.
Samkvæmt framansögðu brestur lagaskilyrði fyrir því, að ég geti fjallað nánar um þann þátt kvörtunar A, sem beinist að aðalskipulagi X-hrepps 1992-2012 sem slíku og undirbúningi þess.
[...]
Úrskurður umhverfisráðuneytisins frá 2. júlí 1996 felur í sér, eins og að framan segir, svör ráðuneytisins við gagnrýni A á umræddu aðalskipulagi [...] og á undirbúningi þess. Miðað við efni úrskurðarins að þessu leyti tel ég ekki tilefni til að fjalla sérstaklega um hann, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 13/1987. Hef ég þar einnig haft í huga, að aðalskipulag haggar ekki eitt sér við mannvirkjum eða hagnýtingu lands, sem fyrir er við gerð skipulags, enda þótt fari í bága við skipulagið."