Viðurkenning starfsheitis. Viðurkenning á menntun og prófskírteinum. EES-samningurinn. Sálfræðingar.

(Mál nr. 1268/1994)

A hafði lokið námi í Noregi, sem "special pedagogikk" og með því hlotið rétt til að kalla sig "candidata Paedagogiae specialis". A sótti um leyfi til þess að mega kalla sig "uppeldis- og sálfræðiráðgjafa", en samkvæmt norskum rétti uppfyllti hún skilyrði til þess að hljóta ráðningu sem "pedagogisk-psykologisk rådgiver". Menntamálaráðuneytið hafnaði umsókn A þar sem hún var ekki sálfræðingur, og samkvæmt 1. gr. laga nr. 40/1976, um sálfræðinga, hefðu ekki aðrir rétt á því að kalla sig sálfræðinga en þeir sem hlotið hefðu til þess leyfi menntamálaráðuneytisins. Í bréfi til A tók ég fram, að starfsheitið "uppeldis- og sálfræðiráðgjafi", væri ekki löggilt hér á landi og væri A því óheimilt að nota það samkvæmt gildandi lögum vegna ákvæða 2. mgr. 1. gr. laga nr. 40/1976, um sálfræðinga, þrátt fyrir að starfsheitið væri þýðing á hinu norska starfsheiti. Ég benti A á að þessi niðurstaða hefði á hinn bóginn ekki sjálfkrafa í för með sér, að komið væri í veg fyrir að A mætti starfa hér á landi á því sviði, sem hún væri menntuð á. Vísaði ég þar til 75. gr. stjórnarskrárinnar, sem fjallar um um atvinnufrelsi, og benti A á að rita bæði menntamálaráðuneytinu og heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu bréf og spyrjast fyrir um, hvort lög tálmuðu því á einhvern hátt að þeirra dómi, að A mætti vinna þau störf hér á landi sem féllu undir starfssvið hennar í Noregi. Í bréfi, er ég ritaði A 30. apríl 1996 tók ég meðal annars fram: "Erindi yðar, sem þér báruð fram við menntamálaráðuneytið hinn 4. apríl 1993, skil ég svo, að þér hafið ekki verið að sækja um löggildingu sem sálfræðingur, sbr. lög nr. 40/1976, um sálfræðinga, heldur um leyfi til þess að fá að bera starfsheitið uppeldis- og sálfræðiráðgjafi, í samræmi við hið norska starfsheiti "paedagogisk-psykologisk rådgiver". Til stuðnings máli yðar hafið þér vísað til samnings milli Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar um norrænan vinnumarkað fólks með minnst þriggja ára æðri menntun, sem veitir starfsréttindi. Þar sem umræddur samningur hefur ekki enn öðlast gildi með bindandi hætti fyrir íslenska ríkið, kemur hann ekki til nánari athugunar í máli þessu. Ennfremur hafið þér vísað til samningsins um Evrópska efnahagssvæðið máli yður til stuðnings. Samkvæmt 2. gr. laga nr. 2/1993, um Evrópska efnahagssvæðið, skal meginmál EES-samningsins hafa lagagildi hér á landi. 30. gr. samningsins hljóðar svo: "Til að auðvelda launþegum og sjálfstætt starfandi einstaklingum að hefja og stunda starfsemi skulu samningsaðilar í samræmi við VII. viðauka gera nauðsynlegar ráðstafanir varðandi gagnkvæma viðurkenningu á prófskírteinum, vottorðum og öðrum vitnisburði um formlega menntun og hæfi, svo og samræmingu ákvæða í lögum og stjórnsýslufyrirmælum samningsaðila varðandi rétt launþega og sjálfstætt starfandi einstaklinga til að hefja og stunda starfsemi." Í tilefni af lögfestingu EES-samningsins voru sett lög nr. 83/1993, um viðurkenningu á menntun og prófskírteinum, sbr. lög nr. 76/1994, en þau gilda um störf sem löggildingu, leyfi eða aðra jafngilda viðurkenningu þarf til og falla undir tilskipanir 89/48/EBE og 92/51/EBE. 2. gr. laganna, með síðari breytingum, hljóðar svo: "Ríkisborgarar í aðildarríkjum Evrópska efnahagssvæðisins, svo og norrænir ríkisborgarar sem uppfylla skilyrði þessara tilskipana eða samninga sem falla undir 1. gr., eiga rétt á að gegna hér á landi starfi sem löggildingu, leyfi eða aðra jafngilda viðurkenningu þarf til, hvort heldur er sjálfstætt eða sem launþegar, með sömu skilmálum og gilda um íslenska ríkisborgara." Í athugasemdum í greinargerð með frumvarpi því, er varð að lögum nr. 83/1993, um viðurkenningu á menntun og prófskírteinum, er vikið nánar að tilskipun ráðsins 89/48/EBE frá 21. desember 1988, um almennt kerfi til viðurkenningar á prófskírteinum, sem veitt eru að lokinni sérfræðimenntun og starfsþjálfun á æðra skólastigi sem staðið hefur að minnsta kosti í þrjú ár. Þar segir meðal annars svo: "Tilskipunin tekur aðeins til löggiltra starfa í ríkjum Evrópska efnahagssvæðisins. Samkvæmt 1. gr. tilskipunarinnar er um að ræða lögverndað starf ef þess er krafist í lögum eða með ákvörðun hlutaðeigandi stjórnvalds að til þess að mega stunda starfið þurfi viðkomandi að hafa skírteini er votti að hann hafi lokið tilskilinni menntun og starfsþjálfun." (Alþt. 1992, A-deild, bls. 955.) Af framansögðu er ljóst, að lög nr. 83/1993 taka að meginstefnu aðeins til lögverndaðra starfa í framangreindum skilningi. Í þessu sambandi er rétt að minna á, að ekki er til lögverndað starfsheiti hér á landi, sem er sambærilegt hinu norska starfsheiti "pedagogisk-psykologisk rådgiver". Ákvörðun menntamálaráðuneytisins um að hafna beiðni yðar um leyfi til að mega bera starfsheitið uppeldis- og sálfræðiráðgjafi er byggð á lögum nr. 40/1976, um sálfræðinga. 1. gr. þeirra laga hljóðar svo: "Rétt til að kalla sig sálfræðinga hér á landi hafa þeir einir sem til þess hafa fengið leyfi menntamálaráðuneytisins. Öðrum aðilum er óheimilt að nota starfsheiti sem til þess er fallið að gefa í skyn að þeir hafi hlotið löggildingu sem sálfræðingar." Í athugasemdum í greinargerð við 1. gr. frumvarps þess, er varð að lögum nr. 40/1976, um sálfræðinga, segir meðal annars svo: "2. mgr. bannar notkun líkra starfsheita, ef þau eru til þess fallin að vekja ranglega hugmyndir um að viðkomandi aðili hafi hlotið löggildingu sem sálfræðingur. Ákvæðið á t.d. við starfsheiti eins og skólasálfræðingur, vinnusálfræðingur o.fl. Verði frumvarp þetta að lögum yrði notkun slíkra starfsheita eingöngu heimil þeim sem hlotið hafa löggildingu sem sálfræðingar og þá innan ramma sem skilgreindur yrði í reglugerð, sbr. 7. gr. Litið er svo á að ákvæðið sé nauðsynleg viðbót við ákvæði 1. mgr. um einkarétt á starfsheitinu sálfræðingur, m.a. til að koma í veg fyrir misskilning." (Alþt. 1975, A-deild, bls. 1078.) Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 40/1976 mega ekki aðrir kalla sig sálfræðinga en þeir sem hafa fengið til þess leyfi menntamálaráðherra skv. þeim lögum. Af ákvæðum 2. mgr. 1. gr. laganna svo og lögskýringargögnum er ljóst, að einnig er lagt bann við því að nota starfsheitið sálfræðingur í samsettum orðum, ef það er til þess fallið að vekja ranglega hugmyndir um að viðkomandi aðili hafi hlotið löggildingu sem sálfræðingur. Þeim, sem ekki hafa hlotið löggildingu skv. lögum nr. 40/1976, er því samkvæmt ummælum í lögskýringargögnum t.d. óheimilt að nota heitin skólasálfræðingur og vinnusálfræðingur. Í málinu liggur fyrir, að þér hafið ekki hlotið löggildingu sem sálfræðingur skv. lögum nr. 40/1976 eða samkvæmt norskum lögum. Með vísan til 2. mgr. 1. gr. laga nr. 40/1976 og framangreindra lögskýringarsjónarmiða, tel ég ekki tilefni til athugasemda við þá afstöðu menntamálaráðuneytisins að yður sé óheimilt að nota starfsheitið "uppeldis- og sálfræðiráðgjafi", þar sem það sé til þess fallið að gefa í skyn, að þér hafði hlotið löggildingu sem sálfræðingur. [...] Eins og hér að framan greinir er niðurstaða mín sú, að starfsheitið "uppeldis- og sálfræðiráðgjafi" sé ekki löggilt hér á landi og yður sé óheimilt að nota það að gildandi lögum vegna ákvæða 2. mgr. 1. gr. laga nr. 40/1976, um sálfræðinga, þrátt fyrir að starfsheitið sé þýðing á hinu norska starfsheiti "pedagogisk-psykologisk rådgiver". Þessi niðurstaða hefur aftur á móti ekki sjálfkrafa í för með sér, að komið sé í veg fyrir að þér megið starfa hér á landi á því sviði, sem þér eruð menntuð á. Samkvæmt 1. mgr. 75. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 13. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995, er öllum frjálst að stunda þá atvinnu, sem þeir kjósa. Þessu frelsi má þó setja skorður með lögum, enda krefjist almannahagsmunir þess. Ég tel rétt að þér skrifið bæði menntamálaráðuneytinu og heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu bréf, og spyrjist fyrir um, hvort lög tálmi því á einhvern hátt, að þeirra dómi, að þér megið vinna þau störf hér á landi, sem falla undir starfssvið "pedagogisk-psykologisk rådgiver" í Noregi. Í því sambandi er nauðsynlegt að þér leggið fram lýsingu á eðli starfsins. Ef þér verðið óánægð með svör ráðuneytanna og teljið yður beitta rangindum, er yður heimilt að leita til mín á ný með það mál."