Dagsleyfi fanga. Leyfi bundið skilyrðum. Skylda stjórnvalda til að úrskurða í kærumáli.

(Mál nr. 1614/1995 og 1654/1996)

Dagsleyfi fangans A var bundið þeim skilyrðum að hann ræddi ekki við fjölmiðla eða fulltrúa þeirra á meðan á leyfinu stæði. Þá var A gert að hringja í fangelsið á 3 klukkustunda fresti. Í tilefni af kæru A tók dóms- og kirkjumálaráðuneytið fram að heimilt væri að setja slík viðbótarskilyrði í dagsleyfi. Ávallt væri álitamál hversu langt mætti ganga, en þar sem leyfið hefði þegar verið tekið væri ekki tilefni til frekari umfjöllunar um þennan þátt í kæru A. Umboðsmaður tók fram að leyfi til dvalar utan fangelsis sætti ákveðnum skilyrðum sem tiltekin væru í 10. gr. reglugerðar nr. 440/1992, um leyfi afplánunarfanga til dvalar utan fangelsis, auk þess sem heimilt væri að setja skilyrði samkvæmt 11. gr., svo sem að fangi sætti töku öndunar-, þvag- og blóðsýna, að fangi gengist undir líkamsleit við endurkomu í fangelsi og að banna mætti fanga að koma á ákveðna staði eða hafa samband við ákveðna menn í leyfinu. Umboðsmaður tók fram að ekki virtist gert ráð fyrir að leyfi væru bundin öðrum skilyrðum. Hins vegar væri gert ráð fyrir að settar væru reglur um leyfið "að öðru leyti", m.a. skv. 21. gr. reglugerðarinnar. Með vísan til þess að skilyrði dagsleyfa væru föngum jafnan ekki ljós fyrr en skömmu áður en þau eru veitt og því óhægt um vik að kæra þau og fá úrlausn dóms- og kirkjumálaráðuneytisins fyrir töku leyfisins, taldi umboðsmaður að ráðuneytinu bæri að fjalla um slíkar kærur jafnvel þótt leyfið hefði þá verið tekið.