Lífeyrismál. Breytingar á löggjöf varðandi útreikning ellilífeyris.

(Mál nr. 82/1989)

Máli lokið með áliti, dags. 4. október 1991.

A gegndi fullu starfi tæp 20 ár og rúmlega 12 ár hálfu starfi. Ákvarðaði Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins lífeyrisprósentu A 1% á ári vegna hluta starfstímabilsins. Var sú ákvörðun kvörtunarefni A. Taldi A sig hafa átt rétt á að hljóta 2% fyrir hvert ár til útreiknings lífeyris síns og bar fyrir sig upplýsingar árið 1974 frá starfsmanni lífeyrissjóðsins um að hún héldi óskertri lífeyrisprósentu, þar eð hún minnkaði vinnu vegna heilsubrests. Umboðsmaður gaf stjórn lífeyrissjóðsins kost á að skýra viðhorf sitt til kvörtunar A. Í bréfi stjórnar lífeyrissjóðsins kom þá fram sú skoðun að valdsvið umboðsmanns tæki ekki til málefna lífeyrissjóðsins. Þrátt fyrir þessa niðurstöðu ákvað sjóðsstjórn að afhenda umboðsmanni öll gögn er málið varðaði, en taldi ekki ástæðu til að skýra sjónarmið sín frekar til málsins. Umboðsmaður taldi ekki vafa á því að valdsvið umboðsmanns Alþingis tæki til lífeyrissjóðsins, a.m.k. að því er varðaði úrlausnir hans um réttindi og skyldur sjóðfélaga, en af þeim toga væri mál A. Umboðsmaður tók fram, að þótt ekki væri til að dreifa sérstökum ákvæðum í lögum og reglum um umboðsmann Alþingis um lausn deilna um takmörk starfssviðs hans, yrði sú ályktun ekki dregin, að það bæri undir viðkomandi stjórnvald að skera úr slíku álitaefni. Ákvað umboðsmaður að fjalla um málið og tilkynnti stjórn sjóðsins þessa ákvörðun sína.

A hóf töku lífeyris 1. júlí 1986 og giltu lög nr. 47/1984 því um lífeyrisrétt hennar. Fram kom, að fyrir gildistöku laga nr. 47/1984 hefði ákvörðun lífeyris farið fram með þeim hætti, að hann hefði miðast við þau laun, sem fylgt hefðu starfi, er starfsmaður gegndi síðast. Hins vegar hefði starfshlutfall starfsmanns ekki haft áhrif á lífeyrisprósentuna, sem reiknast hefði 2% fyrir hvert ár. Samkvæmt þessu hefði A hlotið kr. 9.974 í ellilífeyri við upphaf töku hans, eftir hinum eldri reglum. Með lögum nr. 47/1984 breyttust reglurnar með þeim hætti að lífeyrisréttur skyldi miðaður við meðaltalsstarfshlutfall yfir starfsævina. Skyldi hundraðshlutinn fara eftir iðgjaldagreiðslutíma og starfshlutfalli, sem væri 2% fyrir hvert ár í fullu starfi, en hlutfallslega lægri fyrir minna starfshlutfall. Samkvæmt hinum nýju reglum hlaut A kr. 16.082 í lífeyri, er hún hóf töku lífeyris. Þar sem A hlaut hærri lífeyri samkvæmt ákvæðum laga nr. 47/1984, taldi umboðsmaður að lífeyrisréttindum A væri þannig háttað, að 67. gr. stjórnarskrárinnar væri því ekki til fyrirstöðu, að löggjafinn breytti reglum um fjárhæð lífeyris með þeim hætti sem gert var. Þá vék umboðsmaður að því, að stjórnvaldi væri í ýmsum tilvikum skylt að veita einstaklingum upplýsingar um, hvaða afleiðingar athafnir eða ráðstafanir, sem þeir hefðu áform um, hefðu að lögum á starfssviði stjórnvaldsins. Gætu rangar upplýsingar varðað bótaskyldu. Hann tók fram, að upplýsingar þær, sem A fékk, hefðu verið réttar miðað við þágildandi lög. Ekki taldi umboðsmaður nægilega upplýst, að A hefði haft ástæðu til að leggja þann skilning í skýringar starfsmannsins, að gildandi reglum yrði ekki breytt með lögum, enda hefði hann ekki verið bær um það.

I. Kvörtun og málavextir.

Hinn 25. janúar 1989 leitaði A til mín og kvartaði yfir synjun stjórnar Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins um endurskoðun og endurmat lífeyrisgreiðslna og lífeyrisprósentu hennar.

A gegndi í tæp 20 ár fullu starfi og rúmlega 12 ár hálfu starfi. Þann tíma greiddi hún iðgjöld til Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins. Þegar A hóf vinnu hálfan daginn, kvaðst hún hafa fengið þær upplýsingar hjá lífeyrissjóðnum að hún héldi óskertri lífeyrisprósentu, þar sem hún minnkaði vinnu vegna heilsubrests.

Á fundi stjórnar Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins 15. desember 1988 var fjallað um erindi A. Á fundi þessum var gerð eftirfarandi bókun:

"Rætt um lífeyrisrétt [A]. [A] var í hlutastarfi síðustu starfsár sín vegna heilsubrests. - Ekki er talið heimilt að taka tillit til þess við ákvörðun lífeyrisprósentu að [A] var í hlutastarfi vegna heilsubrests. Hins vegar verði kannað hvort hún hafi átt rétt á örorkulífeyri."

II. Athugun umboðsmanns Alþingis.

Í tilefni af kvörtun A ritaði ég Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins bréf, dags. 15. febrúar 1989. Þar óskaði ég eftir ýmsum upplýsingum og sagði svo um það í bréfinu:

a. Eftir hvaða lögum og lagaákvæðum hefur verið farið við ákvörðun á lífeyrisrétti [A], sbr. 23. gr. laga nr. 29/1963?

b. Hvenær fékk [A] aðild að sjóðnum og hvenær var sjóðnum fyrst tilkynnt um breytingar á störfum [A] vegna heilsubrests?

c. Í hvaða mæli er heimilt samkvæmt þeim lögum, sem gilda um lífeyrisrétt [A], að taka tillit til heilsubrests, sem þó telst ekki vera örorka, og ef svo er hvað skortir á til að [A] geti notfært sér þá heimild?

...

Jafnframt leyfi ég mér að óska eftir, að Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins láti mér í té þau gögn, sem sjóður hefur um iðgjaldagreiðslur vegna [A] og ákvörðun lífeyrisréttinda hennar."

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins svaraði með bréfi, dags. 29. ágúst 1989. Það er svohljóðandi:

"Vísað er til bréfa þinna varðandi mál [A].

Beðist er velvirðingar á þeim drætti sem orðið hefur á að svara erindi þessu.

[A] greiddi iðgjöld í Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins (LSR) í 32 ár og 3 mánuði á tímabilinu 1.10.38-30.6.86. Þar af var hún í 50% starfi 1.1.74-1.7.86. Lífeyrisprósenta [A] er 52%. Hún hefur fengið greiddan ellilífeyri úr LSR frá 1.7.86.Ég mun nú leitast við að svara þeim spurningum sem fram koma í bréfi þínu frá 15. febrúar s.l.:

a. Við ákvörðun lífeyrisréttar [A] var farið eftir 6. mgr. 12. gr. laga nr. 29/1963, sbr. 4. gr. laga nr. 47/1984. Breytingarlögin nr. 47/1984 gilda um þá sem hefja töku lífeyris eftir gildistöku þeirra, sbr. gildistökuákvæði breytingarlaganna. [A] hóf töku lífeyris 1.7.1986 og því á þessi lagagrein við í hennar tilfelli.

Samkvæmt lagagreininni fer lífeyrisprósenta eftir iðgjaldagreiðslutíma og starfshlutfalli sjóðfélagans og er 2% fyrir hvert ár í fullu starfi sem iðgjöld hafa verið greidd fyrir, en hlutfallslega lægri fyrir minna starfshlutfall. [A] var í 19 ár og 9 mánuði í fullu starfi. Fyrir það ávann hún sér 39,5%. Síðan var hún í 12 ár og 6 mánuði í hálfu starfi og ávann sér 12,5% á þeim tíma. Lífeyrisprósenta [A] er þannig reiknuð 52%.

b. [A] fékk fyrst aðild að LSR 1.1.54. Hún greiddi þá í sjóðinn frá 1.1.54 til 28.2.55. Þá hætti hún greiðslu í sjóðinn og fékk þessar greiðslur endurgreiddar. Hún hóf síðan aftur greiðslu í sjóðinn 1.7.63. Á árinu 1975 keypti hún réttindi aftur í tímann fyrir tímabilin 1.10.38-31.12.40, 1.7.41-31.1.44, 1.1.58-31.8.60 og 1.10.61-30.6.63.

Fyrsta tilkynning sem liggur fyrir hjá sjóðnum um breytingar á störfum [A] vegna heilsubrests er vottorð [X] læknis dags. 1.4.82, þar sem hann vottar að [A] hafi "hætt heilsdagsvinnu fyrir átta árum vegna heilsubrests."

c. Í lögum þeim, sem gilda um lífeyrisrétt [A], er engin heimild til að taka tillit til heilsubrests, sem þó telst ekki vera örorka...."

Með bréfi, dags. 4. september 1989, gaf ég A kost á að gera athugasemdir í tilefni af bréfi Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins, dags. 29. ágúst 1989, hvort sem væri bréflega eða með munnlegri skýrslu. Hinn 5. október 1989 kom A á skrifstofu mína vegna kvörtunar sinnar. Var hún innt eftir því, hvenær og hvernig henni hefði verið greint frá því, að hún myndi áfram njóta fullra lífeyrisréttinda úr Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins miðað við fullt starf þrátt fyrir veikindi hennar. Um þetta atriði gaf A skýrslu, sem bókuð var eftir henni.

Kvaðst A hafa á árinu 1974 fengið þær upplýsingar hjá E, starfsmanni lífeyrissjóðsins, að lífeyrir hennar myndi ekki skerðast við það að fara í hlutastarf, þar sem ástæðuna mætti rekja til veikinda. Hefði E bent henni á að afla læknisvottorðs.

III.

Með bréfi, dags. 1. desember 1989, óskaði ég eftir því við stjórn Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins, að hún skýrði viðhorf sitt til kvörtunar A, að því leyti sem stjórnin teldi nauðsynlegt til viðbótar fyrri upplýsingum, sbr. 9. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis. Ég tók fram, að ég teldi þó nauðsynlegt að stjórnin tæki afstöðu til þeirrar staðhæfingar A, að E hefði tjáð henni, að lífeyrisréttur hennar myndi ekki skerðast, þótt hún vegna heilsubrests gegndi starfi að hluta. Þá óskaði ég eftir að sérstaklega yrði upplýst, hvort þessi skoðun hefði einhvern tíma verið ráðandi hjá fyrirsvarsmönnum lífeyrissjóðsins og ef svo hefði verið, hvort dæmi væru um, að slíkri skoðun hefði verið fylgt í framkvæmd. Jafnframt mæltist ég til þess, að stjórn lífeyrissjóðsins lýsti áliti sínu á því, hvort slík skoðun hefði samrýmst lögum um lífeyrissjóðinn.

Hinn 11. apríl 1990 barst mér bréf frá stjórn Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins, dags. 10. apríl 1990, þar sem reifað var það sjónarmið stjórnarinnar, að starfssvið mitt samkvæmt lögum nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis tæki ekki til lífeyrissjóðsins með því að hann gæti ekki talist hluti af stjórnsýslu ríkisins. Bréf þetta er svohljóðandi:

"Stjórn Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins hefur að undanförnu haft til umfjöllunar tvö erindi frá yður, herra umboðsmaður, varðandi kvartanir [A] og [...]. Á fundi stjórnar LSR þann 9. apríl sl. var eftirfarandi bókun samþykkt samhljóða vegna framangreindra erinda:

"Samkvæmt upplýsingum Tryggingastofnunar ríkisins hefur Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins borist eftirfarandi erindi frá umboðsmanni Alþingis:

1. Bréf dags. 15. febrúar 1989 varðandi kvörtun [A]. Erindinu var svarað með bréfi dags. 29. ágúst 1989.

...

Á fundi stjórnar þann 8. júní 1989 fékk stjórnin vitneskju um bréf umboðsmanns dags. 15. febrúar 1989 varðandi kvörtun [A], án þess að það bréf sem slíkt væri lagt fyrir stjórn. Í umræðum komu þá strax upp efasemdir hjá einstökum stjórnarmönnum um að ákvarðanir stjórnar féllu undir lög um umboðsmann Alþingis nr. 13. 20. mars 1987, þar sem málefni lífeyrissjóðsins og ákvarðanir stjórnar væru ekki hluti af stjórnsýslu ríkisins. Á framangreindum fundi stjórnarinnar varð málið ekki útrætt.

Stjórn LSR fékk ekki vitneskju um að bréfi umboðsmanns varðandi [A] hefði verið svarað, af hálfu Tryggingastofnunar ríkisins, fyrr en á stjórnarfundi 12. desember sl., er lagt var fram bréf hans dags. 1. desember 1989, þar sem óskað er eftir nánari upplýsingum um málið. Þá fékk stjórnin einnig fyrst að vita um erindi umboðsmanns varðandi [...] og [...] og að þeim hefði verið svarað af hálfu Tryggingastofnunar.Stjórn LSR hefur hingað til litið svo á að störf hennar sé ekki hluti af stjórnsýslu ríkisins og fær ekki séð að ákvæði í lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins nr. 29/1963, með síðari breytingum gefi tilefni til að ætla að svo sé.

Í lögum um lífeyrissjóðinn eru ýmis ákvæði sem styðja þá skoðun að lífeyrissjóðurinn sé ekki hluti af stjórnsýslu ríkisins. Í 6. gr., sbr. 2. gr. laga nr. 98/1980 eru ákvæði um hvernig stjórn skuli skipuð. Þar segir:

"Stjórn sjóðsins skal skipuð sex mönnum. Fjármálaráðherra skipar þrjá stjórnarmenn, stjórn Bandalags starfsmanna ríkis og bæja skipar tvo stjórnarmenn og stjórn Bandalags Háskólamanna skipar einn stjórnarmann. Stjórnin kýs formann úr sínum hópi til eins árs í senn. Skipunartími stjórnarmanna er þrjú ár."

Ef lífeyrissjóðurinn teldist hluti af stjórnsýslu ríkisins væri eðlilegt að fjármálaráðherra skipaði stjórnina í heild og þá eftir atvikum hluta stjórnarmanna eftir tilnefningu hlutaðeigandi heildarsamtaka starfsmanna ríkis og bæja.

Í 7. gr. laganna segir:

"Tryggingastofnun ríkisins annast reikningshald og daglega afgreiðslu sjóðsins fyrir þóknun eftir samkomulagi hennar og stjórnar sjóðsins.

Reikningsár sjóðsins er almanaksárið. Reikningar sjóðsins skulu endurskoðaðir af ríkisendurskoðuninni án sérstakrar þóknunar."

Ef lífeyrissjóðurinn teldist hluti af stjórnsýslu ríkisins væri þessi grein óþörf.

Áður en stjórn LSR tekur afstöðu til fyrirliggjandi fyrirspurna frá umboðsmanni Alþingis, óskar stjórnin eftir því að umboðsmaður geri grein fyrir því hverjar séu forsendur hans fyrir því að taka til umfjöllunar kvartanir vegna málefna Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins og hvort málefni lífeyrissjóða almennt falli undir verksvið hans.""

Í tilefni af þessu bréfi stjórnar lífeyrissjóðsins og þeim viðhorfum, sem þar koma fram varðandi starfssvið mitt með tilliti til sjóðsins, taldi ég rétt að greina stjórn sjóðsins frá afstöðu minni í þessum efnum bæði almennt og að því er tekur til Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins sérstaklega. Ég ritaði því stjórn lífeyrissjóðsins bréf um þetta, dags. 27. apríl 1990. Með bréfi sama dag skýrði ég A frá því, hvernig stöðu mála væri háttað, og gat þess jafnframt, að af þeim sökum væri viðbúið að afgreiðsla á máli hennar drægist.

Bréf mitt til stjórnar lífeyrissjóðsins, dags. 27. apríl 1990, er svohljóðandi:

"Ég vísa til bréfs stjórnarinnar frá 10. þ.m. varðandi þá spurningu, hvort Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins falli undir starfssvið umboðsmanns Alþingis samkvæmt lögum nr. 13/1987.

Í 2. gr. laga nr. 13/1987 er svo kveðið á, að hlutverk umboðsmanns Alþingis sé að hafa eftirlit með "stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga" og tryggja rétt borgaranna gagnvart "stjórnvöldum landsins". Skal umboðsmaður gæta þess að jafnræði sé í heiðri haft "í stjórnsýslunni" og að "hún" fari að öðru leyti fram í samræmi við lög og góða stjórnsýsluhætti.

Ég tel að orðalag 2. gr. laga nr. 13/1987 styðji ekki þrönga skýringu á starfssviði umboðsmanns og tilgangur 2. gr. og laga nr. 13/1987 bendir að mínum dómi til þess, að skýra beri ákvæði laganna um starfssvið umboðsmanns fremur rúmt og þá einkum sú tilætlan, að umboðsmaður tryggi rétt borgaranna og jafnræði í stjórnsýslunni. Af 2. gr. laga nr. 13/1987 verður að mínum dómi fyrst og fremst dregin sú ályktun, að umboðsmanni sé ekki ætlað að hafa afskipti af löggjafarstarfi, dómstörfum eða athöfnum einkaaðila.

Ég lít svo á, að tvennt skipti meginmáli, þegar marka á starfssvið umboðsmanns Alþingis samkvæmt lögum nr. 13/1987. Í fyrsta lagi varðar miklu hvaða aðili á í hlut, þar sem umboðsmanni er fyrst og fremst ætlað að fjalla um starfsemi aðila, sem byggja tilvist sína á lögum eða öðrum ákvörðunum handhafa ríkisvalds og fara með vald, sem sótt er til slíkra heimilda. Að öllu jöfnu ber að leggja upp úr því, í hve ríkum mæli gætir áhrifa og afskipta handhafa ríkisvalds að því er tekur til skipulags og starfshátta þess aðila, sem um er að ræða. Almennt nær verksvið umboðsmanns því ekki til einstaklinga eða samtaka eða stofnana, sem byggjast á samningum eða öðrum ákvörðunum einstaklinga. Í öðru lagi skiptir máli, hvaða starfsemi á í hlut. Meðferð valds, sem byggist á lögum og einkum felur í sér heimild til að taka ákvarðanir, er binda einstaklinga, getur að mínum dómi heyrt undir starfssvið umboðsmanns, þótt það hafi verið fengið sjálfstæðum aðilum, svo sem nefndum, ráðum, sjálfseignarstofnunum eða jafnvel einstaklingum eða samtökum þeirra.

Að því er sérstaklega varðar Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, þá er í mínum huga ekki vafi á því, að starfssvið umboðsmanns Alþingis tekur til hans, a.m.k. að því er tekur til úrlausna hans um réttindi og skyldur sjóðfélaga, en ég læt hér liggja milli hluta, hvað gildi um aðra þætti í starfi sjóðsins. Sjóðurinn byggist á og starfar samkvæmt sérstökum lögum. Nánari ákvæði um skipulag sjóðsins og starfsemi hans skal setja með reglugerð, er fjármálaráðherra staðfestir, en stjórn sjóðsins semur. Fjármálaráðherra skipar þrjá af sex stjórnarmönnum sjóðsins. Dæmi eru um önnur bein afskipti fjármálaráðherra af starfsemi sjóðsins. Ríkissjóður ábyrgist greiðslu lífeyris úr sjóðnum og hefur samkvæmt 25. gr. laga nr. 29/1963 reitt af hendi veruleg fjárframlög umfram lögboðnar greiðslur iðgjalda. Réttindi og skyldur sjóðfélaga eru lögákveðnar og er þar um að ræða veigamikinn þátt í réttindum og skyldum ríkisstarfsmanna. Ágreiningur milli ríkisins og starfsmanna um þessi réttindi og skyldur er tvímælalaust almennt á starfssviði umboðsmanns. Það er meðal annars hlutverk stjórnar Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins, að úrskurða um réttindi sjóðfélaga og skyldur þeirra við sjóðinn og tel ég ekki eðlilegt, að aðrar reglur gildi um afskipti umboðsmanns af þessum þætti í réttindum og skyldum ríkisstarfsmanna en almennt gildir um réttarstöðu þeirra. Ég hef hér að framan gert í aðalatriðum grein fyrir sjónarmiðum mínum varðandi málefni það, sem um ræðir í fyrrgreindu bréfi frá 10. þ.m. Ég er fús til að ræða við stjórn Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins um málið, ef hún óskar þess."

Í tveimur bréfum stjórnar lífeyrissjóðsins til mín, dags. 26. febrúar 1991, staðfesti stjórnin þá skoðun sína, að starfssvið mitt tæki ekki til málefna Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins.

Annað bréfið fjallar um þetta álitaefni almennt og er það svohljóðandi:

"Stjórn Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins hefur í nokkur skipti fjallað um þessi samskipti. Á fundi stjórnar sjóðsins 5. febrúar s.l., var samþykkt eftirfarandi bókun:

"Stjórn LSR telur að Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins sé ekki hluti af "stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga" eða að valdsvið hennar sé hluti af "stjórnsýslunni" í skilningi 2. gr. laga um umboðsmann Alþingis nr. 13/1987.

Stjórn LSR hefur í samræðum við umboðsmann haft frumkvæði að því að reyna að finna leiðir til að skera úr ágreiningi um framangreinda lagatúlkun, en án árangurs.

Stjórn LSR er ljóst að umboðsmaður mun ekki víkja frá þeirri sannfæringu sinni, að starfssvið hans nái til málefna lífeyrissjóðsins, a.m.k. að því er tekur til úrlausna hans um réttindi og skyldur sjóðfélaga og að hann mun taka til efnislegrar úrlausnar kvartanir varðandi málefni lífeyrissjóðsins.

Stjórn LSR heimilar starfsmönnum sjóðsins að afhenda umboðsmanni gögn, sem eru í vörslum sjóðsins, varðandi málefni þeirra sjóðfélaga, sem kvartað hafa til umboðsmanns varðandi réttarstöðu þeirra gagnvart sjóðnum.

Með hliðsjón af því að stjórnin telur að starfssvið umboðsmanns taki ekki til málefna lífeyrissjóðsins, telur stjórnin ekki ástæðu til að skýra sjónarmið sín sérstaklega, þótt umboðsmaður gefi kost á því, sbr. 9. gr. laga nr. 13/1987. Þegar erindum frá umboðsmanni er svarað, skal jafnan geta þess að stjórn sjóðsins telji að starfssvið hans taki ekki til málefna lífeyrissjóðsins.

Umboðsmanni Alþingis skal kynnt framangreind bókun."

Í samræmi við þessa bókun sendi ég þér því gögn um þau mál, sem þú hefur sent til sjóðsins til umsagnar."

Hitt bréfið víkur sérstaklega að kvörtun A og hljóðar svo:

"...

Jafnframt vísa ég til samþykktar stjórnar lífeyrissjóðsins frá 5. febrúar s.l., þar sem fram kemur sú afstaða, að starfssvið umboðsmanns taki ekki til málefna lífeyrissjóðsins.Umboðsmanni Alþingis hafa verið send öll gögn varðandi mál [A]. Af hálfu stjórnar lífeyrissjóðsins er því ekki talin ástæða til að skýra frekar sjónarmið í þessu máli."

Hinn 14. mars 1991 ritaði ég A bréf, þar sem ég gerði henni grein fyrir bréfum stjórnar lífeyrissjóðsins, dags. 26. febrúar 1991, og lét henni í té ljósrit af þeim. Ég gat þess sérstaklega, að samkvæmt bréfum þessum hafnaði stjórn lífeyrissjóðsins því, að starfssvið umboðsmanns Alþingis næði til sjóðsins en stjórnin ætlaði engu að síður að láta í té umbeðin gögn. Á hinn bóginn myndi stjórn sjóðsins ekki láta í té skýringar á afstöðu sinni til kvartana, sbr. 9. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis, og gæti það valdið umboðsmanni erfiðleikum við úrlausn einstakra mála. Þá tjáði ég A, að ég myndi fjalla áfram um mál hennar þrátt fyrir nefnd viðhorf stjórnar Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins og láta hana vita jafnskjótt og niðurstaða lægi fyrir af minni hálfu um framhald málsins.

IV. Niðurstaða.

Niðurstaða álits míns, dags. 4. október 1991, var tvíþætt. Annars vegar fjallaði ég um þá afstöðu stjórnar Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins, að málefni lífeyrissjóðsins féllu ekki undir starfssvið mitt og hins vegar tók ég kvörtun A til efnislegrar meðferðar. Um fyrra atriðið sagði svo:

"Svo sem fram hefur komið, telur stjórn Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins málefni lífeyrissjóðsins ekki falla undir starfssvið mitt, svo sem það er markað í lögum nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis og reglum nr. 82/1988 um störf og starfshætti umboðsmanns Alþingis. Byggir stjórn lífeyrissjóðsins þessa afstöðu sína á því, að sjóðurinn geti ekki talist til stjórnsýslu ríkisins, sbr. 2. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis. Ég hef hins vegar talið, að starfssvið mitt taki til Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins, a.m.k. að því er varðar úrlausnir sjóðsins um réttindi og skyldur sjóðfélaga, sbr. bréf mitt til sjóðsstjórnarinnar, dags. 27. apríl 1990. Af þeim toga er mál það, sem hér er til úrlausnar. Það er því ákvörðun mín að fjalla um málið og þá ákvörðun hef ég rökstutt sérstaklega fyrir stjórn sjóðsins, sbr. nefnt bréf. Allt að einu hefur sjóðsstjórnin talið það bera undir sig að ákveða starfssviðið að þessu leyti. Þótt ekki séu sérstök ákvæði í lögum og reglum um umboðsmann Alþingis um úrlausn ágreiningsefna, er upp kunna að koma um takmörk starfssviðs umboðsmannsins, verður ekki sú ályktun dregin, að það beri undir viðkomandi stjórnvald að skera úr slíku álitaefni.

Mál hefur ekki áður borið að með þeim hætti, að stjórnvald það, sem kvörtun beinist að, vefengi að það falli undir starfssvið umboðsmanns Alþingis, telji sig sjálft eiga úrlausnarvald um það og skirrist af þeim sökum við að skýra viðhorf sitt til kvörtunarinnar skv. 9. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis. Á hinn bóginn hefur stjórn lífeyrissjóðsins sinnt skyldu sinni skv. 7. gr. nefndra laga til að láta í té gögn og upplýsingar, sem málið varða. Eins og málið liggur fyrir, verður að láta við þetta sitja og taka kvörtun A til efnislegrar meðferðar samkvæmt fyrirliggjandi gögnum og skilríkjum."

V.

Um kvörtun A sérstaklega sagði svo í niðurstöðu álits míns:

"Kvörtun A lýtur að því, að lífeyrisprósenta til útreiknings ellilífeyris hennar skuli hafa verið ákvörðuð 1% á ári, þau ár er hún gegndi hlutastarfi, en hún telur sig hafa fengið þær upplýsingar á árinu 1974 hjá starfsmanni Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins, að lífeyrisprósenta hennar héldist 2%, enda þótt hún minnkaði vinnu vegna heilsubrests.

1.

Í bréfi Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins kemur fram, að við útreikning á lífeyrisrétti A hafi verið farið eftir 6. mgr. 12. gr. laga nr. 29/1963, eins og þau voru eftir breytingu skv. 4. gr. laga nr. 47/1984. Samkvæmt 9. gr. laga nr. 47/1984 gilda breytingalögin um þá, sem hefja töku lífeyris eftir gildistöku laganna. Óumdeilt er að A hóf töku lífeyris 1. júlí 1986 og gilda lög nr. 47/1984 því um lífeyrisrétt hennar. Þar sem ákvörðun stjórnar lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins á lífeyrisprósentu til útreiknings ellilífeyris A er í samræmi við reglur 6. mgr. 12. gr. laga nr. 29/1963, sbr. 4. gr. laga nr. 47/1984, var hún rétt að lögum. Eru því ekki rök til að gagnrýna þá ákvörðun.

Kemur þá til athugunar, hvort ákvæði 4. gr. laga nr. 47/1984 gangi gegn 67. gr. stjórnarskrárinnar, eins og hér stendur á.

Fyrir gildistöku laga nr. 47/1984 um breyting á lögum nr. 29/1963, um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, fór ákvörðun lífeyris fram með þeim hætti að hann miðaðist við þau laun, er fylgt höfðu starfi, sem starfsmaður gegndi síðast, sbr. 6. mgr. 12. gr. laga nr. 29/1963. Við útreikning lífeyris skipti því máli, hvort starfsmaður gegndi fullu starfi eða hlutastarfi, er hann lét af störfum. Hins vegar hafði starfshlutfall starfsmanns ekki áhrif á lífeyrisprósentuna og reiknaðist 2% fyrir hvert ár, hvort sem starfsmaður var í fullu starfi eða hlutastarfi.

Með 4. gr. laga nr. 47/1984 var 6. mgr. 12. gr. laga nr. 29/1963 um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins breytt á þann veg, að lífeyrisréttur skyldi miðaður við meðaltalsstarfshlutfall yfir starfsævina. Reiknast upphæð lífeyris sem hundraðshluti af launum, er á hverjum tíma fylgja stöðu þeirri fyrir fullt starf, sem sjóðsfélagi gegnir síðast. Skal hundraðshlutinn fara eftir iðgjaldagreiðslutíma og starfshlutfalli starfsmanns og er 2% fyrir hvert ár í fullu starfi en hlutfallslega lægri fyrir minna starfshlutfall.

Samkvæmt vottorði frá starfsmannadeild [X-stofnunar], dags. 19. júní 1986, hafði A kr. 15.464 í laun fyrir hálfsdags vinnu, skv. launaflokki 058, þrepi 8, er hún lét af störfum.

Fyrir gildistöku laga nr. 47/1984 hefði lífeyrisprósenta A verið ákvörðuð 64,5%, skv. þágildandi 6. mgr. 12. gr. laga nr. 29/1963. Hefði ellilífeyrir A því verið 64,5% af launum þeim, sem hún hafði, er hún lét af störfum, kr. 15.464. Hefði hún því hlotið kr. 9.974 í ellilífeyri við upphaf töku hans, eftir hinum eldri reglum.

Eftir gildistöku laga nr. 47/1984, var lífeyrisprósenta A ákvörðuð 52% skv. 6. mgr. 12. gr. laga nr. 29/1963, sbr. 4. gr. laga nr. 47/1984. Var ellilífeyrir A því 52% af þeim launum, sem fengist hefðu fyrir fullt starf, kr. 30.928. Hlaut A því kr. 16.082 í lífeyri, er hún hóf töku lífeyris.

Þar sem A hlaut hærri ellilífeyri eftir útreikningi á lífeyri hennar skv. 6. mgr. 12. gr. laga nr. 29/1963, sbr. 4. gr. laga nr. 47/1984, er þegar af þeirri ástæðu ljóst, að lífeyrisréttindum A var þannig háttað, að 67. gr. stjórnarskrárinnar var ekki því til fyrirstöðu, að löggjafinn breytti reglum um fjárhæð lífeyris með þeim hætti, sem gert var með 4. gr. laga nr. 47/1984.

2.

Stjórnvaldi er í ýmsum tilvikum skylt að veita einstaklingum upplýsingar um, hvaða afleiðingar athafnir eða ráðstafanir, sem þeir hafa áform um, hafi að lögum á starfssviði stjórnvaldsins. Rangar upplýsingar geta varðað bótaskyldu.

Ekki liggur nákvæmlega fyrir, hvaða svar A fékk hjá nefndum starfsmanni Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins og stjórn lífeyrissjóðsins hefur ekki fengist til að taka afstöðu til þess. Þær upplýsingar, að lífeyrisprósenta A myndi ekki skerðast, þótt hún ynni ekki fullt starf, voru réttar miðað við þágildandi lög. Tel ég ekki nægilega upplýst, að hún hafi haft ástæðu til að leggja þann skilning í skýringar starfsmannsins, að gildandi reglum yrði ekki breytt með lögum, enda var hann ekki bær um það.

Samkvæmt ofangreindu tel ég ekki tilefni til athugasemda vegna umræddra upplýsinga af hálfu lífeyrissjóðsins.

3.

Það er því niðurstaða mín, að ekki sé ástæða til athugasemda við niðurstöðu Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins í málinu."