Einkaréttarleg lögskipti. Lífeyrissjóðir.

(Mál nr. 2044/1997)

A kvartaði yfir tilgreindum reglum tveggja lífeyrissjóða. Í bréfi sínu til A vísaði umboðsmaður til þess að af 2. gr. laga nr. 55/1980, um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, yrði ráðið, að lífeyrissjóðir, sem hefðu orðið til með samningi milli vinnuveitenda og launþega, störfuðu samkvæmt reglugerð sem aðilar hefðu komið sér saman um. Reglugerðir fyrir sjóðina, sem um ræddi, grundvölluðust því á kjarasamningum launþega og vinnuveitanda. Samkvæmt 2. gr. laga nr. 13/1987, um umboðsmann Alþingis, tæki starfssvið umboðsmanns til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga. Afskipti af einstaklingum og samtökum þeirra féllu hins vegar utan starfssviðs hans. Umboðsmaður taldi því ekki vera fyrir hendi skilyrði laga fyrir því að hann gæti tekið kvörtun A til frekari athugunar.