Dómstólar. Atvinnuréttindi. EES-samningurinn.

(Mál nr. 1919/1996)

A kvartaði yfir því, að stjórnvöld hefðu ekki tekið af skarið um starfsvettvang tannsmiða og yfir því að brotin hefðu verið samkeppnislög þar sem tannlæknar hefðu með ólögmætum hætti ákveðið að sniðganga einstaka tannsmiði. Í bréfi sínu til A vísaði umboðsmaður til þess að tilefni kvörtunarinnar væri tiltekinn dómur Hæstaréttar. Umboðsmaður gæti ekki fjallað um dóminn þar eð dómsathafnir féllu utan starfssviðs hans samkvæmt 2. gr. laga nr. 13/1987, um umboðsmann Alþingis, og 4. tölul. 3. gr. reglna nr. 82/1988, um störf og starfshætti umboðsmanns Alþingis. Brysti því lagaskilyrði til þess að hann fjallaði frekar um þennan þátt málsins. Vegna þess þáttar kvörtunarinnar, sem snerti samráð tannlækna um að sniðganga þjónustu tiltekinna tannsmiða, benti umboðsmaður á, að lög nr. 13/1987 gerðu ekki ráð fyrir því að það væri í verkahring umboðsmanns að láta í té almennar álitsgerðir, heldur að fjalla um kvartanir út af því, að stjórnvöld hefðu ekki í ákveðnum tilvikum farið að lögum, eða eigi fylgt vönduðum stjórnsýsluháttum í störfum sínum. Af kvörtuninni yrði ekki ráðið, hvort og með hvaða hætti stjórnvöld hefðu haft afskipti af framangreindu máli. Væru skilyrði laga nr. 13/1987 því ekki uppfyllt til þess að umboðsmaður gæti haft afskipti af honum. Samkvæmt samkeppnislögum nr. 8/1993 gæti A hins vegar borið þennan þátt málsins undir þau stjórnvöld, sem annist daglega stjórnsýslu á sviði samkeppnismála. A hafði vísað til þess í kvörtun sinni, að í nálægum löndum hefðu tannsmiðir rétt til þess að smíða tennur í fólk án þess að vera undir handleiðslu tannlækna. Í bréfi sínu tók umboðsmaður fram, að með lögum nr. 83/1993, um viðurkenningu á menntun og prófskírteinum, hefðu verið settar reglur um það, hvernig standa skuli að gagnkvæmri viðurkenningu á menntun ríkisborgara í aðildarríkjum Evrópska efnahagssvæðisins og á Norðurlöndum til starfsréttinda á Íslandi, sem falla undir tilskipanir Evrópusambandsins nr. 48/1989 og 51/1992. Í lögunum sé kveðið á um rétt einstaklinga, sem uppfylli skilyrði þeirra, til þess að stunda lögverndaða starfsgrein hér á landi með sömu skilmálum og við eigi um íslenska ríkisborgara. Ákvæði laganna og þeirra tilskipana, sem þeim sé ætlað að innleiða, mæli hins vegar ekki fyrir um það, hvaða reglur skuli gilda um viðkomandi starfsstétt, þ.á m. um starfssvið hennar. Umboðsmaður taldi því ekki ástæðu til þess að athuga þennan þátt kvörtunar A frekar. Í bréfi mínu til A, dags. 28. janúar 1997, sagði: "1. Af kvörtun yðar verður ráðið, að tilefni hennar sé dómur Hæstaréttar frá 7. desember 1995 (Hrd. 1995, bls. 3059). Í dóminum eru rakin lagaákvæði, sem snerta störf tannlækna og tannsmiða. Segir í forsendum dómsins, að tannsmiðum verði "að óbreyttum lögum ekki heimiluð" vinna í munnholi manna "í því skyni að setja í þá gervitennur eða tanngarða, nema samkvæmt undantekningarákvæðum laga nr. 34/1932 og nr. 62/1947". Í dómsorði segir síðan, að gagnáfrýjanda sé "... óheimil vinna í munnholi manna í því skyni að setja í þá gervitennur eða tanngarða". Í kvörtun yðar og þeim gögnum, sem þér hafið lagt fram, koma fram viðhorf yðar til niðurstöðu Hæstaréttar og að nauðsynlegt sé, að kveðið verði með skýrum hætti á um starfsvettvang tannsmiða. Um niðurstöðu nefnds dóms Hæstaréttar get ég ekki fjallað, þar sem dómsathafnir falla utan starfssviðs umboðsmanns Alþingis samkvæmt 2. gr. laga nr. 13/1987, um umboðsmanns Alþingis, og 4. tölul. 3. gr. reglna nr. 82/1988, um störf og starfshætti umboðsmanns Alþingis. Að því er snertir rétt tannsmiða til þess að stunda sjálfstæða starfsemi skal upplýst, að á Alþingi, 120. löggjafarþingi 1995-1996, var heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra spurður um, hvort hann hygðist "beita sér fyrir lagabreytingum til það taka af tvímæli um að tannsmiðir hafi rétt til að starfa sjálfstætt". Í svari ráðherrans kom fram, að verið væri að vinna að heildarendurskoðun á réttindamálum heilbrigðisstétta og yrðu réttindamál stoðstétta, svo sem tannsmiða þar til athugunar. Á hinn bóginn væri ekki tímabært að segja til um niðurstöður þess, hvort heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra myndi beita sér fyrir lagabreytingum í þá átt, sem fyrirspurnin lyti að (Alþt. 1995, A-deild, bls. 5078). 2. Síðari liður kvörtunar yðar lýtur að því, að tannlæknar hafi með samráði ákveðið að sniðganga þjónustu tiltekinna tannsmiða meðal annars vegna samnings, sem þeir hafi gert við Tryggingastofnun ríkisins um viðgerðir og smíði á gervitönnum. Af þessu tilefni bendi ég yður á, að lög nr. 13/1987, um umboðsmann Alþingis, gera ekki ráð fyrir því, að það sé í verkahring umboðsmanns að láta í té almennar álitsgerðir, heldur að fjalla um kvartanir út af því, að stjórnvöld hafi ekki í ákveðnum tilvikum farið að lögum eða eigi fylgt vönduðum stjórnsýsluháttum í störfum sínum. Af kvörtun yðar verður ekki ráðið, hvort og þá með hvaða hætti stjórnvöld hafi haft afskipti af framangreindu máli. Þar sem ekki verður séð, að síðari liður kvörtunar yðar lúti að tilteknum ákvörðunum stjórnvalda, eru ekki uppfyllt skilyrði laga nr. 13/1987 til þess að ég geti haft afskipti af honum. Ég vek athygli yðar á því, að samkvæmt 1. gr. samkeppnislaga nr. 8/1993 er markmið laganna meðal annars að efla virka samkeppni í viðskiptum með því að vinna gegn óhæfilegum hindrunum og takmörkunum á frelsi í atvinnurekstri. Í 2. gr. laganna er tekið fram, að lögin taki til hvers konar atvinnustarfsemi, svo sem framleiðslu, verslunar og þjónustu. Samkvæmt 5. gr. laganna annast samkeppnisráð, Samkeppnisstofnun og áfrýjunarnefnd samkeppnismála daglega stjórnsýslu á því sviði, sem lögin taka til. Getið þér því leitað með mál það, er snertir síðari lið kvörtunar yðar, til framangreindra stjórnvalda. 3. Í kvörtun yðar vísið þér einnig til þess, að í nálægum löndum, þ. á m. í Danmörku, hafi tannsmiðir rétt til þess að smíða tennur í fólk, án þess að þurfa að vera undir handleiðslu tannlækna, sbr. Lov om kliniske tandteknikere nr. 100 frá 14. mars 1979. Með lögum nr. 83/1993, um viðurkenningu á menntun og prófskírteinum, sbr. lög nr. 76/1994, voru sett ákvæði um, hvernig standa skyldi að gagnkvæmri viðurkenningu á menntun ríkisborgara í aðildarríkjum Evrópska efnahagssvæðisins og á Norðurlöndum til starfsréttinda á Íslandi, sem falli undir tilskipanir Evrópusambandsins nr. 48/1989 og nr. 51/1992. Í 2. gr. laga nr. 83/1993 er tekið fram, að þeir ríkisborgarar í aðildarríkjum Evrópska efnahagsvæðisins, sem uppfylli skilyrði framangreindra tilskipana, "... eigi rétt á að gegna hér á landi starfi, sem löggildingu, leyfi eða aðra jafngilda viðurkenningu þarf til hvort heldur er sjálfstætt eða sem launþegar, með sömu skilmálum og gilda um íslenska ríkisborgara". Lög þessi, sem aðlaga ákvæði íslensks réttar að nefndum tilskipunum, sbr. 30. gr Samningsins um evrópska efnahagssvæðið og viðauka VII við þann samning, sbr. lög nr. 2/1993, um Evrópska efnahagssvæðið, mæla fyrir um rétt einstaklinga, sem uppfylla skilyrði ákvæðanna, til þess að stunda lögverndaða starfsgrein hér á landi með sömu skilmálum og eiga við um íslenska ríkisborgara. Ákvæði laganna og ákvæði þeirra tilskipana, sem þeim er ætlað að innleiða, mæla hins vegar ekki fyrir um það, hvaða reglur skuli gilda um viðkomandi starfsstétt þ.m.t. um starfssvið viðkomandi starfsstéttar. Með hliðsjón af þessu og tilvísun til þess, sem áður er sagt um dóm Hæstaréttar frá 7. desember 1995, gefa áðurnefndar athugasemdir í kvörtun yðar ekki tilefni til nánari athugunar af minni hálfu. 4. Samkvæmt framansögðu er niðurstaða mín sú, að skilyrði bresti til þess, að ég geti haft frekari afskipti af kvörtun þeirri, sem þér hafið borið fram. Þá gefur kvörtun yðar að öðru leyti ekki tilefni til nánari athugunar af minni hálfu, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 13/1987, um umboðsmann Alþingis."