Styrkir. Jafnræðisregla.

(Mál nr. 1838/1996)

A kvartaði yfir því, að aðeins þeir smábátar, sem stundað hefðu veiðar með aflamarki og væru minni en 10 brl. skyldu geta sótt um tiltekna styrki. Í bréfi sínu til A rakti umboðsmaður, að með fjáraukalögum fyrir árið 1994 hefði verið ákveðið að verja 20 m.kr. til stuðnings Byggðastofnunar við útgerðir smábáta með aflamark, sem sætt hefðu mikilli skerðingu á aflaheimildum. Sömu fjárhæð hefði verið varið til sama verkefnis á fjárlögum ársins 1995. Í lögskýringargögnum væri ekki að finna skýringar á orðinu smábátur en vísað væri til þess, að taka ætti tillit til greiðslna, sem Fiskveiðasjóður veitti útgerðum aflamarksbáta. Umboðsmaður vísaði til þess að Fiskveiðasjóður veitti ekki lán vegna báta minni en 10 brl. og til þeirrar niðurstöðu sinnar í tilefni annarrar kvörtunar, að sú regla Fiskveiðasjóðs hefði næga lagastoð, að bátar minni en 10 brl. ættu ekki kost á fyrirgreiðslu úr sjóðnum. Taldi hann að miða yrði við það, að mismunandi reglur giltu um rétt báta til fyrirgreiðslu hjá Fiskveiðasjóði eftir því hvort þeir væru stærri en 10 brl. eða ekki. Umboðsmaður taldi því, að fengnum skýringum Byggðastofnunar, ekki tilefni til þess að hann hefði frekari afskipti af kvörtun A. Í bréfi mínu til umboðsmanns A, dags. 17. febrúar 1997, sagði: "Ég vísa til kvörtunar þeirrar, sem þér hafið borið fram fyrir hönd A. Kvörtun A lýtur að þeirri ákvörðun Byggðastofnunar, að þeir smábátar, sem stundað höfðu veiðar með aflamarki og voru minni en 10 brl, skyldu einir koma til greina við ráðstöfun á 20 m.kr., sem ákveðnar voru í fjáraukalögum fyrir árið 1994 og á 20 m.kr. í fjárlögum fyrir árið 1995. 1. Í bréfi Byggðastofnunar til Landssambands íslenskra útvegsmanna 16. febrúar 1995 er því lýst, að ákveðið hafi verið að ráðstafa umræddum fjármunum til smábátaútgerða vegna skerðingar á aflaheimildum smábáta með aflamarki. Þá er gerð grein fyrir ummælum í framhaldsnefndaráliti meirihluta fjárlaganefndar um framangreinda ráðstöfun. Síðan segir í bréfi stofnunarinnar: "Í samræmi við þetta unnu starfsmenn stofnunarinnar tillögu að vinnulagi sem stjórnin samþykkti á fundi sínum þann 10. janúar s.l. Samþykkt stjórnarinnar fylgir bréfinu. Það er von mín að bréfið og meðfylgjandi gögn séu fullnægjandi upplýsingar um forsendur þær sem stofnunin hyggst byggja úthlutunina á. Til viðbótar er þó rétt að geta þess að skýring á því hvers vegna tillögurnar gera ráð fyrir því að takmarka styrkveitinguna við þá báta í smábátaflokkunum sem eru minni en 10 tonn er sú að nokkuð er um að smábátar hafi verið stækkaðir án þess að þeir hafi verið fluttir yfir í aðra útgerðarflokka. Stofnuninni er hins vegar að fullu ljóst að brúttólestamælikvarðinn orkar tvímælis." Í nefndum tillögum, sem stofnunin samþykkti á fundi sínum 10. janúar 1995, kemur fram, að við það skyldi miða, að styrkhæfir teldust þeir bátar, sem Fiskistofa hefði skilgreint sem smábáta á aflamarki og fengið hefðu úthlutað aflaheimildum á fiskveiðiárinu 1994-1995. Þá skyldu þilfarsbátar ekki njóta styrks, ef þeir væru stærri en 10 brl. Með bréfi, dags. 4. júlí 1995, fór A þess á leit, að honum yrði gefinn kostur á að sækja um nefnda styrki. Byggðastofnun hafnaði beiðni A með bréfi, dags. 5. júlí 1995. Í bréfinu sagði meðal annars: "Í samþykkt stjórnar Byggðastofnunar um úthlutunarreglur vegna fjárveitingar til smábáta á aflamarki er tekið fram að hún sé ætluð bátum í þessum útgerðarflokki sem eru innan við 10 brl. að stærð. Þannig var flokkurinn upphaflega skilgreindur en í honum eru í dag nokkrir bátar sem voru í honum upphaflega en hafa síðan verið stækkaðir. Þannig hefur [X] bæði verið breikkaður og lengdur samkvæmt upplýsingum Skipaskrár. Við vitum ekki hvers vegna bátar hafa ekki verið færðir úr flokki smábáta hjá Fiskistofu." 2. Með bréfi, dags. 1. ágúst 1996, fór ég þess á leit, að Byggðastofnun skýrði viðhorf sitt til kvörtunar A og léti mér í té gögn málsins. Í skýringum Byggðastofnunar frá 14. október 1996 er rakið, með hvaða hætti stofnunin hafi komið að meðferð fjárlaganefndar Alþingis á frumvarpi því, er varð að fjáraukalögum fyrir árið 1994, og frumvarpi því, sem varð að fjárlögum fyrir árið 1995. Síðan segir í skýringum stofnunarinnar: "Fiskistofa notar flokkun á bátum í upplýsingum sínum sem í grunninn byggir á eldri lögum um fiskveiðistjórnun (nr. 3/1988) en þar giltu aðrar reglur um úthlutun veiðileyfa fyrir báta sem voru undir 10 brl. en fyrir þá sem stærri voru. Þessari flokkun Fiskistofu mun hafa verið haldið áfram eftir að ný lög tóku gildi enda þótt fyrri viðmiðanir hefði ekki lengur neina þýðingu við stjórn fiskveiða. Svo virðist til dæmis sem bátar séu áfram skráðir smábátar enda þótt þeir hafi verið stækkaðir og það jafnvel verulega. Allt um það lítur Byggðastofnun þó ekki svo á að flokkun Fiskistofu á fiskiskipum sé opinber skráning eða hafi lagagildi sem skapi einhvern rétt sem henni ber að virða. Að því leyti sem hægt er að byggja á flokkun Fiskistofu þá styður hún við þá niðurstöðu Byggðastofnunar að miða við 10 brl. Flokkunin auðveldaði mjög að afla upplýsinga um þá báta sem hér var verið að fjalla um. Í síðari vinnslum var sá hópur sem styrkveitingin var látin ná til minnkaður verulega, m.a. með tilliti til báta sem höfðu verið stækkaðir. Í lögum nr. 24/1986 um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins eru smábátar skilgreindir sem "opnir þilfarsbátar og bátar sem eru innan við 10 lestir". Fiskveiðasjóður lánar ekki til smábáta og miðar þar við 10 brl. Almenn málvenja er einnig sú að smábátar séu innan við 10 tonn (Steingrímur Sigfússon: Róið á ný mið, 1996, bls 31). Byggðastofnun var því ekki í neinum vafa þegar ákveðið var að takmarka styrkveitinguna við þá báta sem voru innan við 10 tonn þegar úthlutunin fór fram. Ýmsar aðrar takmarkanir voru á því hverjir kæmu til greina við úthlutunina en þær skipta ekki máli í þessu sambandi. Þessi aðferð var ákveðin vegna þess að hún var sú eina rökrétta. Allmargir litlir bátar eru gerðir út sem eru stærri en 10 brl. en þó ekki stærri en svo að sumir fyrrverandi smábátar hafa verið stækkaðir þannig að þeir eru nú jafnstórir og jafnvel stærri en bátar sem aldrei hafa verið minni en 10 brl. Því var talið að brotið yrði á jafnræðisreglu gagnvart þeim með því að úthluta til báta einungis vegna þess að þeir hefðu einhvern tíma verið minni en 10 brl. Ef sú röksemdafærsla hefði verið talin góð og gild hefði úthlutunin átt að ná til allra þeirra sem einhvern tíma hefðu stundað útgerð báta undir 10 brl. stærð. Byggðastofnun telur að með þeirri reglu sem beitt var hafi eftir því sem mögulegt var verið gætt jafnræðis jafnframt því sem vilji löggjafarvaldsins hafi verið framkvæmdur." Athugasemdir A bárust mér síðan með bréfi yðar, dags. 13. nóvember 1996. 3. Með fjáraukalögum fyrir árið 1994 var ákveðið að verja 20 m.kr. til stuðnings Byggðastofnunar við útgerðir smábáta með aflamark, sem hefðu sætt mikilli skerðingu á aflaheimildum. Í framhaldsnefndaráliti meirihluta fjárlaganefndar, sem haft hafði frumvarp til nefndra fjáraukalaga til umfjöllunar, sagði: "Byggðastofnun hefur í nokkrum mæli veitt smábátaeigendum lánafyrirgreiðslu. Í ljósi mikillar skerðingar á aflaheimildum smábáta með aflamark er talið nauðsynlegt að koma til móts við þann útgerðarflokk með sérstökum aðgerðum. Í þeim tilgangi er gert ráð fyrir að veita 20 m.kr. viðbótarframlag til Byggðastofnunar. Er gert ráð fyrir að Byggðastofnun ráðstafi þeim fjármunum með því að veita styrki og lán til þeirra smábátaútgerða sem hafa aflamark. Fyrirgreiðslan taki mið af skerðingu á aflamarki í þorskígildum að teknu tilliti til breytinga á aflamarki vegna sölu á aflaheimildum og heildarafkomu hverrar útgerðar. Einnig verði tekið tillit til úthlutana Hagræðingarsjóðs. Við afgreiðslu Byggðastofnunar verði tekið tillit til þeirrar fyrirgreiðslu sem Fiskveiðasjóður mun veita útgerðum aflamarksbáta." (Alþt. 1993, A-deild, bls. 2298.) Til sama verkefnis var einnig ákveðið að ráðstafa 20 m.kr. á fjárlögum ársins 1995, sbr. Alþt. 1994, B-deild, dálk. 3287 og 3288. Ekki er að finna í lögskýringargögnum ummæli um, hvernig nánar skyldi skýra orðið smábátur. Þó er vísað til þess, að taka eigi tillit til þeirra greiðslna, sem Fiskveiðasjóður muni veita útgerðum aflamarksbáta. Samkvæmt skýringum Byggðastofnunar mun Fiskveiðasjóður ekki veita lán vegna báta minni en 10 brl. Af því tilefni skal ennfremur upplýst, að um rétt slíkra báta til fyrirgreiðslu hjá Fiskveiðasjóði fjallaði ég í áliti mínu frá 10. febrúar 1994 (SUA 1994:332). Var það niðurstaða mín, að sú regla, sem sjóðurinn hefði sett sér, að bátar minni en 10 brl. ættu ekki kost á fyrirgreiðslu úr sjóðnum, ætti sér nægilega stoð í ákvæðum 2. gr. laga nr. 44/1976, um Fiskveiðasjóð Íslands, og 1. gr. reglugerðar nr. 277/1991 fyrir Fiskveiðasjóð Íslands. Samkvæmt framansögðu verður við það að miða, að mismunandi reglur gildi um rétt báta til fyrirgreiðslu hjá Fiskveiðasjóði eftir því, hvort þeir eru stærri eða minni en 10 brl. 4. Eftir að hafa kynnt mér framkomnar skýringar Byggðastofnunar er það niðurstaða mín, að ekki sé tilefni til frekari afskipta af kvörtun A, sbr. a-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 13/1987, um umboðsmann Alþingis."