Almennt og sérstakt hæfi.

(Mál nr. 2038/1997)

A kvartaði yfir því að trúnaðarlæknar Flugmálastjórnar væru skyldir. Í bréfi sínu til A vísaði umboðsmaður til þess, að Flugmálastjórn teldist til stjórnsýslu ríkisins í skilningi stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og að ákvörðun um útgáfu og endurnýjun skírteina skv. reglugerð nr. 344/1990, um skírteini gefin út af Flugmálastjórn, væri stjórnvaldsákvörðun í skilningi 2. mgr. 1. gr. laganna. Af þeim sökum yrðu starfsmenn Flugmálastjórnar, þ.m.t. trúnaðarlæknar, sem kæmu að undirbúningi, meðferð og úrlausn slíkra mála, að uppfylla hæfisskilyrði II. kafla stjórnsýslulaga. Þannig mætti trúnaðarlæknir samkvæmt 3. gr. stjórnsýslulaga t.d. ekki taka þátt í meðferð máls ef hann eða náinn venslamaður hans óskaði eftir skírteini. Umboðsmaður benti hins vegar á að ekkert ákvæði væri í 3. gr. stjórnsýslulaga, sem skýrt hefði verið svo að starfsmaður mætti ekki vinna með skyldmennum sínum á sama stjórnsýslustigi að undirbúningi og úrlausn mála. Það væri almennt ekki talið ólöglegt að skyldir menn ynnu saman sem hliðsettir starfsmenn nema lög mæltu sérstaklega svo fyrir, en slíkt ákvæði væri t.a.m. í 2. mgr. 5. gr. laga nr. 75/1973, um Hæstarétt Íslands. Þar sem ekkert slíkt ákvæði hefði verið sett um trúnaðarlækna Flugmálastjórnar taldi umboðsmaður ekki tilefni til athugasemda við það að trúnaðarlæknar Flugmálastjórnar væru skyldir.