Starfssvið umboðsmanns Alþingis og skilyrði þess að umboðsmaður fjalli um kvörtun. Dómstólar. Réttarágreiningur, sem á undir dómstóla.

(Mál nr. 440/1991)

Máli lokið með bréfi, dags. 29. júlí 1991.
Lögmaðurinn A leitaði til mín fyrir hönd B með kvörtun, sem laut að yfirlýsingu, sem gefin var fyrir hönd ríkisstjórnar Íslands 30. júní 1970, þar sem m.a. voru felldar niður hugsanlegar kröfur, er íslenskir ríkisborgarar kynnu að gera á bandarísk stjórnvöld, vegna dvalar bandaríkjahers á tilteknum stað hér á landi. Í bréfi, er ég ritaði A 29. júní 1991, greindi ég honum frá því, að skilyrði brysti til þess að ég fjallaði um yfirlýsinguna sem slíka, þar sem svo langt væri um liðið, sbr. 2. mgr. 6. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis. Þá tók ég fram í bréfi mínu til A:

"Umbjóðandi yðar telur sig eiga bótarétt vegna spjalla, sem varnarlið Bandaríkja Norður-Ameríku hafi unnið á eign hans. Þar reynir í fyrsta lagi á skýringu á því, hvort hann geti átt slíkan rétt samkvæmt eignarheimildum sínum að þeirri eign, sem um er að ræða. Í öðru lagi reynir þar á það, hverja ábyrgð íslenska ríkið kunni að bera gagnvart umbjóðanda yðar samkvæmt varnarsamningi Íslands og Bandaríkjanna, sbr. lög nr. 110/1951 um lagagildi varnarsamnings milli Íslands og Bandaríkjanna og um réttarstöðu liðs Bandaríkjanna og eignir þess, eða vegna umræddrar yfirlýsingar ríkisstjórnar Íslands frá 30. júní 1970. Ef bótaréttur er fyrir hendi, reynir á öflun og vandasamt mat sönnunargagna fyrir tjóni og fjárhæð þess. Mál þetta er því að mínum dómi þess eðlis, að úr því verði að leysa fyrir dómstólum, en það álit mitt felur ekki á neinn hátt í sér að tekin sé afstaða til þess, hvort málsókn sé líkleg til árangurs."

Niðurstaða mín varð því sú, að ég taldi ekki rétt að fjalla frekar um málið.