Starfssvið umboðsmanns Alþingis og skilyrði þess að umboðsmaður fjalli um kvörtun. Dómstólar. Nauðungaruppboð. Störf uppboðshaldara.

(Mál nr. 427/1991)

Máli lokið með bréfi, dags. 2. maí 1991.

A bar fram kvörtun út af afgreiðslu dómsmálaráðuneytisins á kröfu hans um skaðabætur í tilefni af ætluðum mistökum uppboðshaldara, er húseign nokkur var á árinu 1985 seld á nauðungaruppboði. Í bréfi til A, dags. 22. maí 1991, tók ég fram, að kvörtunin lyti að meðferð uppboðshaldara á máli, sem hann færi með sem dómari, en samkvæmt 2. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis, sbr. 4. tl. 3. gr. reglna nr. 82/1988 um störf og starfshætti umboðsmanns Alþingis, féllu dómsathafnir utan starfssviðs umboðsmanns. Þá benti ég einnig á, að í 2. mgr. 6. gr. laga nr. 13/1987 segði, að kvörtun skyldi bera fram innan árs frá því er stjórnsýslugerningur sá, er um ræddi, væri til lykta leiddur. Þar sem kvörtunin fullnægði heldur ekki þessu skilyrði, væru ekki fyrir hendi lagaskilyrði að ég gæti haft frekari afskipti af málinu.