Starfssvið umboðsmanns Alþingis og skilyrði þess að umboðsmaður fjalli um kvörtun. Dómstólar. Ágreiningur um starfskjör.

(Mál nr. 461/1991)

Máli lokið með bréfi, dags. 27. ágúst 1991.

A kvartaði yfir því, að Reykjavíkurborg hefði brotið samkomulag, sem gert var við A um starfskjör hennar, en samkomulag þetta hefði verið gert í tilefni breytinga á störfum hennar hjá einni af stofnunum borgarinnar. Í bréfi mínu til A, dags. 27. ágúst 1991, tók ég fram, að samkvæmt 2. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis tæki starfssvið umboðsmanns til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga. Kvörtun A yrði hins vegar rakin til ágreinings um skýringu á samningi, sem lyti a.m.k. að mjög verulegu leyti reglum samningaréttar og eftir atvikum öðrum reglum einkaréttar. Við úrlausn þess ágreinings gæti reynst nauðsynlegt að afla ýmissa sönnunargagna, sérstaklega framburðar vitna, sem að samningsgerð stóðu, og síðan að meta sönnunargildi slíkra gagna. Hefði ég ekki talið rétt að umboðsmaður Alþingis fjallaði um slík mál, heldur yrði það að vera hlutverk dómstóla.
Samkvæmt framansögðu væri það niðurstaða mín, að ekki væri grundvöllur fyrir frekari afskiptum mínum af málinu.