Starfssvið umboðsmanns Alþingis og skilyrði þess að umboðsmaður fjalli um kvörtun. Dómstólar. Grundvöllur ákvörðunar um eyðingu hrogna og seiða sökum nýrnaveikisýkingar.

(Mál nr. 330/1990)

Máli lokið með bréfi, dags. 4. apríl 1991.
Við rannsóknir á sýnum, er tekin voru úr klakfiski í nóvember 1989 í fiskeldisstöð A, kom fram nýrnaveikisýking.
Af því tilefni fyrirskipaði landbúnaðarráðuneytið 13. janúar 1990, að laxahrognunum í stöðinni skyldi eytt. Þá leiddu síðari rannsóknir í eldisstöð A ennfremur í ljós nýrnaveikisýkingu í laxa- og bleikjuseiðum. Landbúnaðarráðuneytið fyrirskipaði eyðingu laxaseiðanna með bréfi, dags. 30. apríl 1990. Aftur á móti heimilaði ráðuneytið að bleikjuseiðin yrðu alin í einangrun í fiskeldisstöðinni X, en bannaði jafnframt dreifingu þeirra. Þessum seiðum var síðan eytt 30. maí 1990.
Kvörtun A beindist að því, hvernig að rannsóknunum var staðið og hve langan tíma þær hefðu tekið. Taldi A, að ekki hefðu verið nægar ástæður til þeirra aðgerða, er landbúnaðarráðuneytið fyrirskipaði, og að þær hefðu ekki verið til þess fallnar að takmarka tjón hans. Þá beindist kvörtun A ennfremur að því, að fyrirskipuð hefði verið eyðing bleikjuseiðanna.
Ég vék sæti í máli þessu og með bréfi forseta sameinaðs Alþingis, dags. 15. október 1990, var Stefán Már Stefánsson, prófessor, skipaður til þess að fara með mál þetta.

Með bréfi, dags. 4. apríl 1991, gerði skipaður umboðsmaður A grein fyrir niðurstöðum athugana sinna á kvörtun hans. Að því, er varðaði þann hluta kvörtunar A, er laut að eyðingu laxahrognanna, tók skipaður umboðsmaður m.a. fram:

"Formleg tilkynning um fyrstu niðurstöður rannsóknanna bárust að vísu ekki svo fljótt sem skyldi en skaðlegar afleiðingar af þeirri töf koma tæpast fram nema vefengja megi rannsóknina og niðurstöður hennar með rökum. Framkvæmdin við sýnatökuna virðist hafa verið með hefðbundnum hætti en birtar reglur um sýnatöku í tilvikum sem þessum lágu þó ekki fyrir. Niðurstöður úr bráðabirgðarannsóknum sem þessum, þ.e. eftir 6 vikna ræktun nýrnasýna, eru heldur ekki óyggjandi þó að til skamms tíma hafi þeirri aðferð mikið verið beitt og þær taldar veita ákveðna vísbendingu um nýrnaveikismit. Ítarlegri rannsóknir taka lengri tíma og af þeim verður því óhjákvæmilega meiri töf, ef þær eru eingöngu lagðar til grundvallar ákvörðunartöku.

...

Með hliðsjón af því sem nú var rakið og því að í málinu er verulegur vafi bæði að því er varðar sönnunaratriði og sérfræðiatriði tel ég rétt að tjá mig ekki frekar um þetta kvörtunarefni. Skal sérstaklega á það bent að dómstólar eru í mun betri aðstöðu til þess að taka af skarið um þau álitaefni sem að framan greinir og segja fyrir um afleiðingar þeirra."

Að því er varðaði ákvörðun landbúnaðarráðuneytisins um eyðingu laxa- og bleikjuseiðanna, tók skipaður umboðsmaður fram í bréfi sínu til A, að sýnataka og rannsóknir hefðu farið fram með svipuðum hætti og rannsókn klakfisksins og að niðurstöður þeirra hefðu verið fengnar með sambærilegum hætti. Af gögnum málsins yrði aftur á mót ekki séð, að landbúnaðarráðuneytið hefði fyrirskipað eyðingu bleikjuseiðanna. Loks sagði svo í bréfi skipaðs umboðsmanns til A:

"Með hliðsjón af því sem nú var rakið... tel ég vera fyrir hendi slíkan vafa bæði um sönnunaratriði og sérfræðiatriði að ekki sé rétt að ég tjái mig um þessa kvörtunarliði frekar. Svo sem fyrr var frá greint skal á það bent að dómstólar eru í betri aðstöðu til að taka afstöðu til álitaefna sem þeirra sem hér eru til umræðu.

Samkvæmt framansögðu er niðurstaða mín sú að ekki sé tilefni til frekari afskipta af minni hálfu vegna kvörtunar yðar."