Starfssvið umboðsmanns Alþingis og skilyrði þess að umboðsmaður fjalli um kvörtun. Málskot til æðra stjórnvalds. Ákvörðun Siglingamálastofnunar verður skotið til samgönguráðherra.

(Mál nr. 489/1991)

Máli lokið með bréfi, dags. 4. október 1991.

A kvartaði yfir þeirri ákvörðun Siglingamálastofnunar, að veita ekki bátunum X og Y haffærisskírteini 18. ágúst 1990. Taldi ég að í gögnum málsins kæmi fram, að ágreiningur hefði verið milli A og Siglingamálastofnunar um ástand framangreindra báta umræddan dag. Í bréfi, er ég ritaði A 4. október 1991, sagði meðal annars:

"Samkvæmt 1. gr. laga nr. 20/1986 um Siglingamálastofnun ríkisins starfar Siglingamálastofnun undir yfirstjórn samgönguráðherra. Eitt af hlutverkum Siglingamálastofnunar er að annast eftirlit með nýsmíði skipa, búnaði, breytingum og innflutningi og annað almennt eftirlit skipa samkvæmt lögum nr. 51/1987 um eftirlit með skipum og reglugerðum settum samkvæmt þeim. Í V. kafla laga nr. 51/1987 er að finna nánari fyrirmæli um skoðun skipa og um útgáfu haffærisskírteina. Þá segir í 3. gr. laga nr. 20/1986, að samgönguráðherra geti með reglugerð kveðið nánar á um hlutverk og starfshætti Siglingamálastofnunar og um einstök verkefni hennar. Að virtum framangreindum lagaákvæðum er það skoðun mín, að þeim ágreiningi, sem kvörtun yðar lýtur að, verði skotið til samgönguráðherra til úrskurðar."

Greindi ég A frá því, að samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis brysti skilyrði til þess að ég gæti tekið kvörtun hans til frekari athugunar, þar sem ekki yrði séð að samgönguráðuneytið hefði fellt úrskurð sinn í málinu.